Sérfræðingar þeirra sem afneita sérfræðingum

Posted: september 18, 2020 in Umræða
Efnisorð:, ,
Mér finnst alltaf skelfilega grátlegt og um leið svolítið fyndið þegar þeir sem efast um niðurstöður vísindanna, td. talsmenn hinna og þessa samsæriskenninga, skjóta sig í fótinn með tilvísun í ‘fræðimenn’. Gjarnan með því að bæta „virtur“ við án nokkurrar fótfestu.
Til að mynda, nú síðast, Covid-19 samsæriskenningasmiðar vísa í að svo og svo margir læknar telji að Covid-19 veiran / faraldurinn sé eitt alls herjar plat (‘hoax’). [Flestir á meðan þeir voru að lepja upp einhverja þvælu til stuðnings bandaríkjaforseta, þar til í ljós kom að hann var bara að ljúga]. En þetta er svona svipað og þegar loftslagsafneitarar eru að flagga því að sérfræðingar í loftlagsmálum séu á einhverri tiltekinni „skoðun“.
Mótsögnin er nefnilega nokkuð æpandi. Ef viðkomandi telur það styrkja sitt mál að þeir sem vísað er til séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar… hvers vegna ekki að taka mark á um það bil eitthvað nálægt tuttugu þúsund sinnum fleiri sérfræðingum?
Og á hinn bóginn, ef punkturinn með efasemdunum og kenningunum er sá að ekkert sé að marka sérfræðinga, hvers vegna þá að taka fram máli sínu til stuðnings að þetta séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar?
Er þetta ekki svolítið eins og að segja, „allir sköllóttir karlmenn eru lygarar“ og í næstu setningu „ég þekki sköllóttan karlmann sem staðfestir það sem ég segi“ [OK, kannski ekki gott dæmi, en ég er með próf upp á að vísa í sköllótta kalla].
Svo er auðvitað fínt að hafa í huga að við hin tökum ekki gott og gilt að sérfræðingar hafi einhverja tiltekna skoðun, við horfum við þess *hvað* viðkomandi hefur fram að færa, ekki *hver* viðkomandi er. Standast gögnin skoðun? Eru greinar ritrýndar? Eru tilvísanir í heimildir áreiðanlegar?

Lokað er á athugasemdir.