Torfís? (Óræðukeppni)

Posted: september 28, 2020 in Umræða
Efnisorð:,

Nú styttist í kappræður forsetaframbjóðenda vestanhafs.

Í því tilefni var ég að velta fyrir mér hvort það væri grundvöllur fyrir nýrri keppni samhliða Morfís, svona einhvers konar and-Morfís, sem byggði á ræðumennsku Bandaríkjaforseta, Torfís (Tafs- og röflkeppni framhaldsskóla á Íslandi)

Þarna væru gefin stig eitthvað á þessum nótum:

 • 3 stig í plús fyrir hverja setningu þar sem tafsað er og muldrað þannig að ekki sé nokkur leið að skilja hvað viðkomandi er að segja
 • 2 stig í mínus fyrir að klára setningu
 • 3 stig í mínus fyrir setningar sem eru lengri en fimm orð.
 • 4 stig í mínus fyrir að nota orð sem ekki eru í orðaforða fjögurra ára barns, „stórkostlegt“, „æðislegt“ og „rosalegt“ þó undanskilin
 • 10 stig í plús fyrir að uppnefna liðsmenn andstæðinganna, kannski ætti að vísa liði úr keppni sem sleppur þessu alveg
 • 16 stig fyrir að drulla yfir ákveðna þjóðfélagshópa
 • 18 stig í plús til viðbótar ef þetta eru minnihlutahópar
 • 5 stig fyrir að væla
 • önnur 3 stig í bónus ef vælið felur í sér að vorkenna sjálfum sér
 • 20 stig í mínus fyrir að ræða umsamið málefni
 • 12 stig í plús fyrir að saka mótherjana um að svindla
 • 15 stig í viðbót fyrir að saka dómarana um að svindla
 • 24 stig í plús fyrir að kveikja á því í miðri setningu að kjarninn í málflutningi liðsins hingað til gengur ekki upp
 • en 10 til baka í mínus ef það er einhver kjarni sem hægt er að skilja
 • 10 stig í mínus fyrir að fara rétt með heiti einstaklinga og staða
 • 7 stig í plús fyrir að vísa til landa sem eru ekki til
 • 8 stig í mínus fyrir að fara rétt með staðreyndir
 • 13 stig í plús fyrir að fá lán hjá dómurunum og neita að borga

Lokað er á athugasemdir.