Sarpur fyrir janúar, 2018

 

[Gefum okkur að trúfélög væru óháð ríkinu og rekin eins og hver önnur áhugafélög… svona samtal væri eiginlega algjörlega út úr kú]

Ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki fín hugmynd að taka eitthvert áhugafélag um yfirnáttúrulegar verur og láta ríkissjóð um reksturinn, kannski skella nokkrum milljörðum í þetta á ári.. ráða starfsfólk á fantagóðum launum, nokkuð margföldum launum sjúkraliða, lögreglumanna, sálfræðinga o.s.frv… og láta þá fá jarðir til að búa á og leyfa þeim að hirða hlunnindin.

Nei, er það ekki algjör óþarfi? Getur fólk ekki sinnt þessum áhugamálum bara á eigin forsendum… á þetta að hafa eitthvert hlutverk?

Já, já, þau myndu sjá um alls kyns tímamótaathafnir, nafn, manndómsvígslur, hjónavígslur.

OK, og gera þetta ókeypis?

Nei, nei, þeir sem nota þjónustuna greiða auðvitað vel fyrir.

Svona eins og fólk gerir hvort sem er?

Já, já… og svo kannski sjá um að aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

Eins og sálfræðingar?

Já, nákvæmlega.

Og eru þeir þá menntaðir sem sálfræðingar?

Nei, ekki beint, en mæta kannski í einn kúrs.

Nú, skil ég ekki, er ekki betra að til þess menntaðir sérfræðingar sjái um svona? 

En þetta eru svo krúttleg félög, þau trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru sem fylgist með okkur og grípi inn í aðstæður hjá okkur ef við biðjum nægilega vel.

Eru einhverjar upplýsingar staðreyndir sem styðja þessar hugmyndir?

Nei, nei, þá þyrfti ekki að byggja á að trúa þessu…

Og hvað, viltu að ríkið reki öll félög sem trúa á yfirnáttúrulegar verur?

Nei, auðvitað ekki, við veljum bara eitt. Það má nota þetta í siðferðilegum tilgangi. Þetta sem ég er með í huga trúir því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað heiminn, bara svona rétt si svona á nokkrum dögum fyrir ekki svo löngu síðan og að engin þróun hafi átt sér stað. Veran var víst mjög refsiglöð framan af fann allt í einu upp á því að barna konu með sjálfri sér fyrir tvö þúsund árum, látið drepa sig og rísa svo upp frá dauðum svo hún gæti fyrirgefið fólk það sem það gerði rangt.

OK, ekki veit ég hvað þetta fólk hefur verið að reykja, en þú nefndir siðferðilegan tilgang, kannski það sé einhver flötur.. 

Já, já, meðlimirnir hafa mjög skýrar reglur um öll siðferðileg mál sem eru vel skilgreind í einni bók.

Gott og vel, og eitthvað sem má fara eftir?

Nei, ekki beint, sumir telja sig reyndar taka öllu bókstaflega, en það er svolítið snúið því reglurnar eru talsvert mótsagnakenndar… og þeir sem segjast taka öllu bókstaflega taka nú eiginlega bara því sem þeim sjálfum hentar hverju sinni. Hins vegar er mun geðfelldari hópur sem notar sögurnar og reglurnar sem dæmisögur til að gefa skýr siðferðileg skilaboð.

Já, það er eitthvað, en hvernig er hægt að vita hvernig á að túlka sögurnar?

Jú, það er nú bara miðað við hvað samfélaginu finnst siðferðilega rétt hverju sinni.

En nú er ég alveg að týna þræðinum, hvers vegna þurfum við þá bækurnar og dæmisögurnar? Ef við notum hvort sem er bara það sem þykir rétt?

Hvaða smámunasemi er þetta, eigum við ekki að gera þetta?

Æi, veistu, ég sé bara enga ástæðu til…

„Ástæða“, hvað er það?

Tómas

Posted: janúar 27, 2018 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:

Það eru sennilega ekki margir sem hafa komið jafn víða við íslenska tónlistarsögu og Tómas Tómasson, bassaleikari. Við þekktumst svo sem ekki mikið og aðrir kunna betur að gera hans sögu skil.

En… Tommi tók, ásamt Georg, upp plötu okkar Fræbbbla, „Dásamleg sönnun um framhaldslíf“ árið 2000 – við tókum upp nokkra hljómleika á Grand Rokk og fórum með efnið í stúdíó og kláruðum. Ekki bara vissi hann nákvæmlega hvað hann var að gera, heldur voru engin vandamál, öllu tekið með jafnaðargeði og húmor.

En einhverra hluta vegna kemur eitt andartak upp í hugann, við vorum að vandræðast með nafn á plötuna, en Tommi var alveg viss, „Gamlir og gramir“.

Einu sinni eða tvisvar forfölluðust hljóðmenn á hljómleikum þegar við vorum að kynna plötuna og það var sjálfsagt að mæta og hjálpa okkur með hljóðið. Í eitt skiptið spiluðu 3G’s (Guðjón sonur okkar og félagar hans) með okkur, og Tommi (og Georg) hrifust af þeim og gáfu þeim tíma í stúdíói… sem þeir nýttu til að taka upp plötu, plötu sem gekk vel í þeirra kynslóð og tveir þeirra hafa fundið sinn flöt í tónlistinni.

En, samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina..

Bannmerkingar…

Posted: janúar 22, 2018 in Umræða

Ég hef þrjóskast við að setja „bannmerkingu“ á símanúmerin frá því að þetta var í boði… Mér hefur þótt allt í lagi að fá stöku sinnum símtöl þar sem verið er að óska eftir styrkjum við góð (amk. oftast) málefni og stundum verið að selja eitthvað sem ég hef nú sjaldnast áhuga á, en hefur þó komið fyrir.

Oftar en ekki hef ég reynt að styrkja, forðast reyndar „áskriftir“ að styrkjum og auðvitað hefur stundum komið upp að annað hvort hefur talsvert mikið verið komið á stuttum tíma eða ekki hefur staðið vel á hjá okkur.

En… nú er svo komið að síðustu mánuði er ítrekað verið að hringja á miðjum vinnudegi í farsíma. Þetta er orðið svo mikið ónæði að ég einfaldlega verð að setja bannmerki á símann.

Þegar biskup kvartar undan einelti..

Posted: janúar 3, 2018 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er í tísku að svara málefnalegri umræðu með því að hjóla annars vegar í þá sem gagnrýna og hins vegar að reyna að mála þá sem þurfa að svara fyrir málefnalega gagnrýni sem einhvers konar fórnarlömb.

Nýlega hækkuðu laun biskups langt umfram launaþróun. Þegar samningsómyndin um laun presta var gerður (1997) voru laun biskups 262.400 og launavísitala 157,9. Launavísitala í ársbyrjun 2017 var 592,4 og hefðu laun biskups því átt að vera 984.457 í ársbyrjun 2017.

En, nei, biskup fer fram á launahækkun og fær laun upp á 1.553.359.

Skýringarnar voru þær að það væri svo íþyngjandi að þurfa að borga 90.000 leigu fyrir 400 fermetra íbúð á besta stað í bænum.

Þá var nefnt til réttlætingar að biskupinn væri forstjóri ríkisstofnunar. Sem er auðvitað skondið í ljósi þess að forsvarsmenn kirkjunnar hamast þess á milli við að halda því fram að kirkjan sé ekki ríkisstofnun.

Gott og vel, þetta eru hefðbundnir útúrsnúningar þeirra sem hafa vondan málstað að verja.

En málsvörn biskups gekk gjörsamlega fram af mér þegar farið var að kvarta yfir því að verið væri að leggja biskup í einelti. Þvílík dómsdags vanvirðing við þolendur raunverulegs eineltis.

Og höfum í huga að þetta er fólk sem telur sig sérfræðinga í að aðstoða fólk í erfiðleikum… „já, væna mín (vinur minn) ég skil svo vel hvað þú ert að ganga í gegnum, ég þurfti að ganga í gegn um nákvæmlega sams konar erfiðleika þegar launin mín voru hækkuð um meira en hálfa milljóna á mánuði umfram aðra“.

PS. jú, ég veit að biskup kvartaði ekki sjálf undan eineltinu, einhverjir „stuðningsmenn“ tóku það að sér, en hún hefur heldur séð sóma sinn í að fordæma þetta tal.