Posts Tagged ‘Einelti’

Þegar biskup kvartar undan einelti..

Posted: janúar 3, 2018 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er í tísku að svara málefnalegri umræðu með því að hjóla annars vegar í þá sem gagnrýna og hins vegar að reyna að mála þá sem þurfa að svara fyrir málefnalega gagnrýni sem einhvers konar fórnarlömb.

Nýlega hækkuðu laun biskups langt umfram launaþróun. Þegar samningsómyndin um laun presta var gerður (1997) voru laun biskups 262.400 og launavísitala 157,9. Launavísitala í ársbyrjun 2017 var 592,4 og hefðu laun biskups því átt að vera 984.457 í ársbyrjun 2017.

En, nei, biskup fer fram á launahækkun og fær laun upp á 1.553.359.

Skýringarnar voru þær að það væri svo íþyngjandi að þurfa að borga 90.000 leigu fyrir 400 fermetra íbúð á besta stað í bænum.

Þá var nefnt til réttlætingar að biskupinn væri forstjóri ríkisstofnunar. Sem er auðvitað skondið í ljósi þess að forsvarsmenn kirkjunnar hamast þess á milli við að halda því fram að kirkjan sé ekki ríkisstofnun.

Gott og vel, þetta eru hefðbundnir útúrsnúningar þeirra sem hafa vondan málstað að verja.

En málsvörn biskups gekk gjörsamlega fram af mér þegar farið var að kvarta yfir því að verið væri að leggja biskup í einelti. Þvílík dómsdags vanvirðing við þolendur raunverulegs eineltis.

Og höfum í huga að þetta er fólk sem telur sig sérfræðinga í að aðstoða fólk í erfiðleikum… „já, væna mín (vinur minn) ég skil svo vel hvað þú ert að ganga í gegnum, ég þurfti að ganga í gegn um nákvæmlega sams konar erfiðleika þegar launin mín voru hækkuð um meira en hálfa milljóna á mánuði umfram aðra“.

PS. jú, ég veit að biskup kvartaði ekki sjálf undan eineltinu, einhverjir „stuðningsmenn“ tóku það að sér, en hún hefur heldur séð sóma sinn í að fordæma þetta tal.

Að leggja sjálfan sig í einelti

Posted: maí 29, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Í kjölfar umræðunnar um að þingmaður telji fólk frá greitt fyrir að leggja sig í einelti…

Nú get ég ekkert fullyrt um það, af eða á, hvort einhver fái greitt fyrir að skrifa neikvæðar greinar og athugasemdir um viðkomandi þingmann eða ekki. Ég veit þetta ekki en þykir harla ólíklegt, ég sé ekki hver þetta ætti að vera eða hver tilgangurinn ætti að vera.

Hitt er, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, að ég hef ekki mikið álit á viðkomandi þingmanni. Eflaust er þarna ágætis manneskja á ferð, ég þekki það ekki og hef engar forsendur til að halda annað. Það sem ég á við er að ég hef ekki mikið álit á störfum viðkomandi á Alþingi og hefði kosið að sjá hana í öðru starfi.

Ástæðan er ekki sú að einhver hafi sagt eitthvað ljótt um hana á einhverjum vefsíðum eða staðið að einhverju persónulegu níði. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta og hefði ekkert gert með að þó svo hefði verið.

Ástæðan er einfaldlega sú að viðkomandi þingmaður hefur ítrekað látið frá sér ummæli og skoðanir sem ég er fullkomlega ósammála, standast enga skoðun og / eða eru beinlínis rangar – hefur sýnt það sem ég tel vera mikið dómgreindarleysi.

Eina manneskjan sem hefur orðið til þess að rýra álit mitt á störfum hennar er nefnilega hún sjálf.

Þannig má kannski halda því fram að hún sé að leggja sjálfa sig í einelti.

PS. ég fæ ekkert borgað fyrir þessa greing – ég er ekki að taka þátt í einelti – ég er einungis að gera athugasemdir við fullyrðingar

Það má orðið ekki segja neitt eða svara neinu, hversu mikil þvæla og vitleysa sem það annars er… allt er orðið flokkað og afgreitt sem einelti.

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar.. sem ég þori varla að nefna á nafn af ótta við að fá á mig skæðadrífum að ég sé að leggja hana í einelti.. leggur í dag upp með að við séum eineltisþjóðfélag.

Hún tekur tvö dæmi. Í báðum tilfellum er það Vegna þess að einstaklingar sem hafa sóst eftir völdum, þingmennsku og ráðherraembætti hafa látið frá sér fara einstaklega vanhugsuð og illa ígrunduð ummæli, svarað út í hött og hreinlega farið með staðlausa stafi.

Þetta hefur ekkert með einelti að gera. Fólk sem sækist eftir sviðsljósinu og er stöðugt að láta einhverja þvælu frá sér fara verður einfaldlega að sætta sig við að viðkomandi málflutningi sé svarað. Í langflestum tilfellum eru athugasemdirnar málefnalegar og rökstuddar. Í einstaka tilfellum er vissulega gengið of langt en þau ummæli eru fátíð og dæma sig sjálf.

Þetta er ekki einelti. Heldur fyrrum utanríkisráðherra að þetta sé það sem börn sem verða fyrir einelti verði að þola? Að þeim sem stöðugt eru að vekja athygli á eigin rugli sé svarað?