Að gengisfella eineltishugtakið…

Posted: maí 28, 2013 in Umræða
Efnisorð:, , ,

Það má orðið ekki segja neitt eða svara neinu, hversu mikil þvæla og vitleysa sem það annars er… allt er orðið flokkað og afgreitt sem einelti.

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar.. sem ég þori varla að nefna á nafn af ótta við að fá á mig skæðadrífum að ég sé að leggja hana í einelti.. leggur í dag upp með að við séum eineltisþjóðfélag.

Hún tekur tvö dæmi. Í báðum tilfellum er það Vegna þess að einstaklingar sem hafa sóst eftir völdum, þingmennsku og ráðherraembætti hafa látið frá sér fara einstaklega vanhugsuð og illa ígrunduð ummæli, svarað út í hött og hreinlega farið með staðlausa stafi.

Þetta hefur ekkert með einelti að gera. Fólk sem sækist eftir sviðsljósinu og er stöðugt að láta einhverja þvælu frá sér fara verður einfaldlega að sætta sig við að viðkomandi málflutningi sé svarað. Í langflestum tilfellum eru athugasemdirnar málefnalegar og rökstuddar. Í einstaka tilfellum er vissulega gengið of langt en þau ummæli eru fátíð og dæma sig sjálf.

Þetta er ekki einelti. Heldur fyrrum utanríkisráðherra að þetta sé það sem börn sem verða fyrir einelti verði að þola? Að þeim sem stöðugt eru að vekja athygli á eigin rugli sé svarað?

Athugasemdir
  1. Inga Sigrún skrifar:

    Þetta er ekki spurning um gagnrýni eða svör. Það er verið að tala um þegar ráðist er að fólki með persónulegt nýð – það er allt annað en gagnrýni.
    Finnst þér óhugsandi að stjórnmálamenn geti verið lagðir í einelti – eða kennarar – eða söngvarar.

    Hvernig er skilgreiningin á einelti í þínum huga (hvaða hugsmynd er verið að gengisfella)

  2. Ég hef séð mikið af gagnrýni á ummæli Jóns og Vigdísar, í langflestum tilfellum er það málefnaleg og rökstudd gagnrýni og ég man í fljótu bragði ekki eftir persónulegu níði, þó eflaust sé það til.

    Nei, það er ekki óhugsandi að stjórnmálamenn geti verið lagðir í einelti, en að viðbrögð við heimskulegum ummælum þeirra sem sækjast eftir athygli og völdum sé einelti gengur ekki upp.

    Heldur þú virkilega að þetta sé eitthvað skylt því einelti sem börn verða fyrir?

  3. Guðrún G. skrifar:

    Skv skilgreingu á „einleti“ eru þolendurnir valda- og bjargalausir og áhrifalitlir um stöðu sína og aðstæður andspænis miklu valdameiri gerendum.
    Valdamenn og þingmenn verða því að finna annað hugtak og skilgreiningu yfir það þegar almenningsáltið truflar þá.

  4. Guðrún G. skrifar:

    Í það minnsta aðstæðurnar verða að gera þolanda/þolendur minnimáttar en gerendur að ógnvöldum. Það er það sem gerist á skólalóðinni og stundum í lífi hinna fullorðnu en ekki þegar valdhafar, þingmenn eða ráðherrar verða fyrir gagnrýni í lýðræðisríki sama hvernig sú gagnrýni er.
    Um ósanngjarna eða ómálefnalega gagnrýni verða menn að finna annað hugtak.

  5. Hallgerður Pétursdóttir skrifar:

    eru ekki tvö mál í gangi hér inni’? Vigdís ræðir um áreiti sama einstaklings undir fölsku flaggi í 2-3 ár og oft ógeðfeld ummæli jafnvel hvað varðar útlit. hins vegar er nánast fullyrt að fólk eigi það skilið „sem sækist“ eftir völdu að fá yfir sig nánast hvað sem er. hver vigtar ef ekki ekki þolandinn? sí endurtekið áreiti af þessum toga er auðvitað fyrir það fyrsta ekki í lagi og ekkert okkar á að þola það. völd? valdaleyst ? koma málinu ekkert við..

    • ég sagði ekki að fólk sem sækist eftir völdum ætti skilið einelti, ég sagði að það þyrfti að þola gagnrýni og opinbera umræðu án þess að byrja að líkja henni við einelti. það er ekkert óeðlilegt við að fólk sem er gjarnan með yfirlýsingar á opinberum vettvangi þurfi að hlusta á gagnrýni

  6. Margrét. skrifar:

    ég er mjög svo sammála þessu. einelti er ofbeldi sem á ekki að líðast en fólk sem býður sig fram til þjónustu fyrir almenning verður að vera í stakk búið að taka við gagnrýni og athugasemdum og þá er ekki hægt að hrópa einelti ef því finnst vera á sig hallað málefnalega. það verður að svara málefnalega á móti.

  7. Ég er alveg sammála þér, Valli, að þrýstingur þessi sem stjórnmálamenn verða fyrir er ekki sama og einelti. Einelti á sér stað í nánari kringumstæðum en milli fólks í sviðsljósinu og gagnrýnisradda í samfélaginu. Ef þingmenn væru sífellt að hrekkja, ergja eða græta annan þingmann væri það einelti. Það að fólk í kommentakerfum DV gagnrýni rasisma þingmanns er ekki einelti. Ef einhver þessara kvenna er að verða fyrir líkamlegum hótunum eða andlegu áreiti á vinnustað sínum er það háalvarlegt mál. En að um þær séu skrifaðar greinar er eðlilegur hluti af lýðræðisferlinu og ætti að vera verndað af tjáningarfrelsi.