Ég afskrifaði Samfylkinguna fyrir nokkrum vikum vegna óásættanlegs framgangs í stjórnarskrármálinu.
Ég komst ekki að því fyrir víst hvort um viljaleysi eða getuleysi var að ræða. Enda skiptir það engu máli. Ef getan til að klára mikilvæg mál er ekki fyrir hendi þá er ekki mikill tilgangur í að senda þau á þing.
Þarna er fullt af fólki sem ég þekki af góðu einu, margir einstaklingar sem ég er mjög svo sammála og svo aðrir sem ég er fullkomlega ósammála. Talsmaður kuklara, Ólína Þorvarðardóttir, er þarna í framboði og ég á ekki kost á að strika yfir nöfn frambjóðenda í öðrum kjördæmum en mínum.
Samfylkingin rúmar sem sagt margar ólíkar skoðanir. Ég tel mig hvorki jafnaðarmann eða sósíalista, en ég vil að velferðarmálum sé vel sinnt, á þessu er nefnilega nokkur munur. Ég vil að ríkið sinni fáum málefnum, en geri það vel. Þó launamunur þurfi að vera innan einhverra skynsemismarka þá eru kröfur um jöfn laun eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Nánar um þetta síðar.
En niðurstaðan er nú samt sú að ég get tekið undir mörg stefnumál Samfylkingarinnar – þeas. þó forsendurnar séu í einhverjum tilfellum ólíkar þá get ég tekið undir niðurstöðurnar að mörgu leyti.
Þá má ekki gleyma því að flokkurinn fékk gífurlega erfitt verkefni eftir síðustu kosningar og þó ég hefði mælt með öðrum leiðum og öðru vísi aðgerðum – þá má ekki taka það af þeim að margt hefur gefist vel og við erum í rauninni í betri aðstöðu en við hefðum mátt leyfa okkur að vona.
En svo eru nokkur mál þar sem ég er fullkomlega ósammála, verst þykir mér sýndarmennska og sópa-undir-teppið aðgerðir í málum sem eru líkleg til að auka vinsældir. Og svo eru þar fyrir utan mál þar sem þau virðast sammála mér – eða ég þeim – en það einfaldlega gerist ekkert.
Eins og ég gagnrýndi bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk fyrir að hafa ekki gert upp við hrunið, þá gagnrýni ég Samfylkinguna fyrir það sama. Vissulega var aðkoma þeirra talsvert skemmri, en það sátu á þingi einstaklingar sem voru ráðherrar 2007-2009 og eru enn í framboði. Ekkert hef ég heyrt um ábyrgð þeirra, hvað þeir hafa lært af hruni og hvernig þeir myndu bregðast öðru vísi við. Kannski hefur þetta komið fram og þá væri fróðlegt að sjá.
Að lokum kemur raunsæi til sögunnar, spurningin um að kjósa „taktískt“. Mér finnst það í rauninni fáránlegt, en kannski er of mikið undir í þetta sinn.
Líka við:
Líkar við Hleð inn...