Ég afskrifaði Samfylkinguna fyrir nokkrum vikum vegna óásættanlegs framgangs í stjórnarskrármálinu.
Ég komst ekki að því fyrir víst hvort um viljaleysi eða getuleysi var að ræða. Enda skiptir það engu máli. Ef getan til að klára mikilvæg mál er ekki fyrir hendi þá er ekki mikill tilgangur í að senda þau á þing.
Þarna er fullt af fólki sem ég þekki af góðu einu, margir einstaklingar sem ég er mjög svo sammála og svo aðrir sem ég er fullkomlega ósammála. Talsmaður kuklara, Ólína Þorvarðardóttir, er þarna í framboði og ég á ekki kost á að strika yfir nöfn frambjóðenda í öðrum kjördæmum en mínum.
Samfylkingin rúmar sem sagt margar ólíkar skoðanir. Ég tel mig hvorki jafnaðarmann eða sósíalista, en ég vil að velferðarmálum sé vel sinnt, á þessu er nefnilega nokkur munur. Ég vil að ríkið sinni fáum málefnum, en geri það vel. Þó launamunur þurfi að vera innan einhverra skynsemismarka þá eru kröfur um jöfn laun eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Nánar um þetta síðar.
En niðurstaðan er nú samt sú að ég get tekið undir mörg stefnumál Samfylkingarinnar – þeas. þó forsendurnar séu í einhverjum tilfellum ólíkar þá get ég tekið undir niðurstöðurnar að mörgu leyti.
Þá má ekki gleyma því að flokkurinn fékk gífurlega erfitt verkefni eftir síðustu kosningar og þó ég hefði mælt með öðrum leiðum og öðru vísi aðgerðum – þá má ekki taka það af þeim að margt hefur gefist vel og við erum í rauninni í betri aðstöðu en við hefðum mátt leyfa okkur að vona.
En svo eru nokkur mál þar sem ég er fullkomlega ósammála, verst þykir mér sýndarmennska og sópa-undir-teppið aðgerðir í málum sem eru líkleg til að auka vinsældir. Og svo eru þar fyrir utan mál þar sem þau virðast sammála mér – eða ég þeim – en það einfaldlega gerist ekkert.
Eins og ég gagnrýndi bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk fyrir að hafa ekki gert upp við hrunið, þá gagnrýni ég Samfylkinguna fyrir það sama. Vissulega var aðkoma þeirra talsvert skemmri, en það sátu á þingi einstaklingar sem voru ráðherrar 2007-2009 og eru enn í framboði. Ekkert hef ég heyrt um ábyrgð þeirra, hvað þeir hafa lært af hruni og hvernig þeir myndu bregðast öðru vísi við. Kannski hefur þetta komið fram og þá væri fróðlegt að sjá.
Að lokum kemur raunsæi til sögunnar, spurningin um að kjósa „taktískt“. Mér finnst það í rauninni fáránlegt, en kannski er of mikið undir í þetta sinn.
Sæll Valgarður!
Samfylkingin gerði upp við hrunið í ítarlegu umbótanefndarstarfi sem tók rúmlega ár og fólst m.a. í samráði við flokksfélög út um allt land. Umbótanefndin skilaði skýrslu með fjölmörgum aðgerðapunktum, um innra starf flokksins, skipulag, starfsreglur og lög hans, siðanefnd, fjármál, flokksval/prófkjör og margt fleira. Þessum aðgerðapunktum hefur nú nánast öllum verið hrint í framkvæmd. Nánar má lesa um starf umbótanefndinarinnar og umbótaskýrsluna sjálfa út frá þessum tengli: http://www.samfylkingin.is/Flokkurinn/Umbotanefnd
Einnig má í þessu sambandi minna á tilfinningaþrungna ræðu sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 17. apríl 2010 þar sem hún gerði upp við hrunið og ábyrgð sína gagnvart flokknum og kjósendum flokksins: http://www.samfylkingin.is/Frettir/tabid/60/ID/1546/Ingibjorg_Solrun_avarpar_flokksstjornarfund.aspx
Með bestu kveðju og þökk fyrir athyglisverð skrif um valkostina sem boði eru fyrir þessar kosningar.
Takk, já, ég get alveg gefið Samfylkingunni prik fyrir að reyna. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá finnst mér þessi skýrsla eiginlega hvorki fugl né fiskur þegar kemur að uppgjöri. Jú, þarna eru margir punktar um innra starf og uppbyggingu.. en rauði þráðurinn vegna hruns er eiginlega, við gátum ekkert gert, þetta var allt hinum að kenna.
Ég hefði þegið markvissari umfjöllun, hvaða ákvarðanir voru rangar og hvað má læra af þeim.
Það er svo sem gott að Ingibjörg skyldi biðjast afsökunar, en mér fannst vanta að aðrir forystumenn gerðu það sama.
Ég hefði sérstaklega mælt með að þeir sem sátu í ríkisstjórn hefðu dregið sig í hlé frá stjórnmálum, en það er kannski mín ósanngjarna kröfuharka.
já, við nánari lestur skýrslunnar þá finnst mér hún ansi þunn, hún tekur ekki á neinum ákveðnum vandamálum, engin dæmi eru tekin til dæmis um hvort sinnuleysi ráðherra var vegna þess að þeir höfðu ekki nauðsynlegar upplýsingar, hvort þeir báru sig ekki eftir upplýsingum, fengu ekki þrátt fyrir að reyna eða fengu einfaldlega rangar upplýsingar. Eða fengu ráðherrar allar nauðsynlegar upplýsingar en náðu ekki að vinna úr þeim?
Eða voru þeir bara „farþegar“ í ríkisstjórninni og var sagt að fara út að leika á meðan fullorðna fólki talaði saman.
Skýrir þetta hegðun flokksins á lokadögum síðasta þings þegar forysta flokksins horfði þegjandi á meðan stjórnarskránni var (nánast) hent í ruslið? Það varð jú lítil sem engin endurnýjun á forystunna í kosningunum 2009.
Samfylkingin fékk eigið „verkefni“ og tækifæri frá umburðarlyndum kjósenda til að taka til eftir sig. Árangurinn fyrir bankana er góður og fækkun ráðuneyta. Allt of margt annað var illa gert.
Ég sakna aðallega að þau náðu ekki að klára stjórnarskrána, það hefði talið mikið fyrir mig.
Nú hef ég ekki kynnt mér hvað gert var með skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar, en skýrslan sjálf var ömurleg; hún samanstóð fyrst og fremst af tillögum um að það þyrfti að „skoða“ og „athuga“ hitt og þetta, en afar lítið um konkret tillögur um breytingar. Hafi ég ekki klikkað illilega þegar ég leitaði í skýrslunni, þá er lítið eða ekkert fjallað um framgöngu nafngreinds forystufólks flokksins fyrir og eftir hrun, og til dæmis hvergi minnst á hvernig Ingibjörg Sólrún tók virkan þátt í að ljúga til um stöðu bankanna á erlendum vettvangi. Auk þess var bankamálaráðherrann strax hafinn til vegs og virðingar innan flokksins eftir kosningarnar 2009, sem lýsir óskiljanlegri afstöðu til ábyrgðar hjá stjórnmálaflokki, afstöðu sem ég held að væri óhugsandi í nágrannalöndunum, af augljósum ástæðum.
Varðandi „tilfinningaþrungna ræðu sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 17. apríl 2010“ þá er hún mjög sláandi á köfllum. Til dæmis:
„Ég ber ekki ábyrgð á störfum annarra en ég ber ábyrgð á sjálfri mér og gagnvart sjálfri mér. Ég ber ábyrgð á flokknum og gagnvart flokknum. Og ég ber ábyrgð gagnvart kjósendum flokksins.“
Hér er forgangsröðunin lýsandi: Það er ISG, svo flokkurinn, og svo kjósendur. Almenningur kemst ekki einu sinni á blað.
Já, ég hefði viljað sjá miklu betri dæmi um rangar ákvarðanir, hvernig ætti að gera betur og hvað mætti læra.
Það er líka rétt, sem ég kveikti nú ekki á, að Ingibjörg virðist bara hugsa um kjósendur flokksins.. en aðallega fannst mér vanta að aðrir kæmu fram á sama hátt og að aðrir myndu draga sig í hlé.