Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.
Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!
Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?
Ef svarið er „já“
- þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.
En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).
Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?
Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.
Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk
Ef svarið er „já“
þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.
Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.
En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.
Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi, þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.
En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.
Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.
Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.
Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.
Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.
Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.
Líkar við:
Líka við Hleð...