Posts Tagged ‘alþingiskosningar’

Ég hef lengi lagt áherslu á að við fáum betri stjórnarskrá, eiginlega alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar. Ég hef svo sem marg oft skýrt hvaða gallar eru á núverandi stjórnarskrá og ekki fengið nein svör um hvers vegna ekki má bæta úr þeim. Ég hef frekar heyrt eitthvað svona almennt um að þetta skipti nú ekki svo miklu máli og önnur verkefni eigi að hafa forgang. Píratar, sem ég styð í kosningunum, hafa setið undir svipaðri gagnrýni, að þau leggi of mikla áherslu á stjórnarskrána.

Og það er svo sem rétt, það eitt að breyta stjórnarskránni gerir ekki mikið í sjálfu sér, en það er bæði nauðsynlegur grunnur að betri stjórnsýslu og stjórnmálum – og kannski ekki síður yfirlýsing um breytt hugarfar.

Það má kannski líkja þessu við gatnakerfi. Ímyndum okkur að við hefðum í flýti þurft að taka gatnakerfi frá dönum 1944, gatnakerfi sem væri hannað fyrir þeirra flatlendi og tæki tillit til lestarkerfisins þeirra. Síðan hefði nokkrum útskotum verið bætt við en aldrei hefði mátt endurskipuleggja með tilliti til annars landslags, breyttra aðstæðna, breyttra sjónarmiða og/eða breyttra tækja. Ekki mætti hugsa fyrir göngu- eða hjólastígum frekar en breyttum sjónarmiðum í mannréttindamálum. Ekki mætti gera fjallvegi sómasamlega úr garði, frekar en að það mætti tryggja eignarhald og arð auðlindanna.

Betra gatnakerfi eitt og sér hjálpar ekki til að umferðin gangi greiðlega en það er samt nauðsynlegur grunnur.

Á meðan ríghaldið er í gamla gatnakerfið af forpokun og án nokkurra raka.. þá höldum við áfram að keyra út í skurð.

u íAð einu leyti, amk., erum við með afleitt kosningakerfi. Og því valda þröskuldarnir. Það eru auðvitað engin málefnaleg rök fyrir því að kjósendur framboðs sem nær 4,9% fylgi fái engan fulltrúa en framboð með 5,0% fái 3 fulltrúa? Sama gildir um undarleg hlutföll við styrki vegna framboðanna.

Ég vildi óska þess að ég gæti ráðlagt fólki að kjósa eftir sannfæringunni.

En raunveruleikinn er sá að það er verið að velja fulltrúa á þing… og þá er afskaplega lítils virði að hafa lýst óánægju með að skila auðu, gera ógilt eða kosið framboð sem ekki eiga möguleika. Það styrkir þá sem flestir hinna kjósa og það færir völd til þeirra sem kannski síst skyldi.

Þetta er kannski svolítið eins og að fara á veitingastað og velja mat sem er ekki á matseðlinum eða ekki er hægt að afgreiða… þú getur farið á (segjum) Hard Rock, staðið á þínu og lýst yfir að þú viljir nú bara slátur eða þorláksmessuskötu um hásumar – og þú getur staðið á því að þetta sé þitt val… en ef þú ert ekki raunsær þá ferðu svangur/svöng heim.

Um leið og ég bið góða vini og félaga – sem eru í framboði og eiga allt gott skilið – afsökunar – en það er mikilvægt að hafa áhrif á skiptingu þingsæta..

Eftir „skuldaleiðréttinguna“ sá ég staðfærðan brandara þar sem forsætisráðherra hafði tekið upp veskið og var að dreifa peningum til hóps af fólki. Einn í hópnum var yfir sig ánægður með forsætisráðherrann, „sjáið, hann er að gefa okkur peninga!“… en félagi hans við hliðina benti honum á „já, en hann er með veskið þitt…“.

Fyrir kosningarnar 2013 var kjósendum lofuð einhvers konar „skuldaleiðrétting“, gott ef hún átti ekki að koma „strax“, en „strax“ varð svo strax teygjanlegt hugtak. Seint og um síðir þegar eitthvað komst í verk, var stór hópur fólks svikinn og aðrir fengu gjöf úr ríkissjóði.

Nú vantar stærri loforð til að ganga í augun (veskið) á kjósendum.

Ein hugmyndin er að kaupa banka af kröfuhöfum, með eignum ríkissjóðs, fyrir óskilgreint verð… og gefa svo landsmönnum hluta þess.

Það er svo margt rangt við þetta að ég veit ekki hvar ég á að byrja.

Á meðan ríkissjóður skuldar er fáránlegt að fara í einhvers konar spákaupmennsku í eignarhaldi á banka, peningunum er alltaf betur varið í að greiða niður skuldir. En fólk er svo tilbúið í að láta blekkja sig að jafnvel varfærnasta fólk sem talað hefur fyrir mikilvægi þess að greiða niður skuldir er allt í einu farið að tala um að skuldir ríkissjóðs séu nú ekki svo miklar – 2016 voru vaxtagjöld ríkissjóðs 70.388 milljónir!

Gott og vel (nei, engan veginn gott og vel) en samt. Ef skuldirnar þykja ekki svo stórvægilegar, þá eru næg verkefni sem ekki hafa verið peningar til að leysa, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra… ég þarf varla að telja upp meira. En nú er aðalmálið að nota eignir ríkissjóðs til að kaupa banka!

Ein lýsing á hugmyndinni er að nýta forkaupsrétt ríkissjóðs á bankanum… einn gallinn virðist vera að foringinn sem virðist vera að reyna að kaupa þingsæti með loforðinu virðist sjálfur hafa samið þennan forkaupsrétt af ríkissjóði.

Þar fyrir utan, hvers vegna ætti þjóðin að vilja eiga banka? Er ekki nær að láta þá sem vit hafa á bankarekstri eiga og reka banka – skattleggja hressilega og fá þannig tekjur í ríkissjóð – sem kannski nýtast almenningi betur en eitthvert hlutabréf í einum bankanna.

Er dreift eignarhald banka eftirsóknarvert? Ég hef engin rök séð sérstaklega fyrir því en ef svo er, er þá ekki um að gera að setja lög sem skýra eignarhald banka? Því það að gefa eignarhlut til almennings gæti allt eins orðið til að flestir selji sinn hlut strax og bankinn verði ekki lengur í dreifðri eign… það eru reyndar dæmi um þetta.

Og ef og ef og ef… það er eftirsóknarvert að bankarnir séu í dreifðri eign og besta aðferðin til þess að er að gefa almenningi eignarhlut… hvers vegna nægir ekki sá banki sem ríkissjóður á þegar?

Er mögulegt að þessi skyndilegi áhugi á að kaupa banka af kröfuhöfum – aðgerð sem hækkar væntanlega verð bankans – hafi eitthvað með það að gera að það eru einhverjar líkur á að viðkomandi stjórnmálamaður, sé sjálfur einn af kröfuhöfunum og fái þannig hærra verð fyrir sinn hlut?

En um að gera að stilla þessu upp til að ganga í veskið / augun á kjósendum… en í rauninni er verið að ganga í veski kjósenda.

Miðflokkur???

Posted: október 15, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Nokkrir Facebook vinir hafa lýst yfir stuðningi við Miðflokkinn. Mér er þetta fullkomlega óskiljanlegt.

Þannig að mig langar að spyrja…

  1. er ykkur alveg sama þó formaðurinn hafi sagt ósatt í sjónvarpsviðtali?
  2. er ykkur alveg sama þó formaðurinn fari rangt með staðreyndir þegar hann heldur því fram að Tortóla sé ekki skattaskjól (burt séð frá því hvort þau hjón borguðu skatta eða ekki)?
  3. er ykkur alveg sama þó formaðurinn hafi framkvæmt málamyndagjörning í viðskiptum til að komast hjá því að upplýsa um eignir?
  4. er ykkur alveg sama þó formaðurinn og kona hans hafi átt kröfur í þrotabú bankanna og látið hjá líða að greina frá þeim (fyrr en upp komst)?
  5. er ykkur alveg sama þó hann og kona hans hafi geymt stórar fjárhæðir í aflandsfélögum í stað þess að koma með þetta inn í íslenskt efnahagslíf (sem hann þóttist hafa tröllatrú á)?
  6. er ykkur alveg sama þó þau hjón hafi valið Tortóla, frekar en td. traustan Evrópskan banka, til að geyma eigur sínar? kaupið þið skýringarnar?
  7. er ykkur alveg sama þó formaður hafi lítið sem ekkert mætt í vinnu á síðasta þingi?

PS. svo því sé haldið til haga þá leist mér ekkert illa á formanninn þegar hann kom fram á sjónarsviðið, virtist hafa nýjar hugmyndir, ákveðinni eldmóður fylgdi honum og hann var rökfastur (þó hann hefði nú mátt hlusta betur á rök annarra)… en ég játa að ég var nokkuð jákvæður. Það er reyndar nokkuð langt síðan. Seinni tíma siðblinda, verkleysi og fullkomið getuleysi til að vinna úr málefnalegri gagnrýni á annan hátt en að setja hana upp í samsæri… ja, það er frekar sorglegt að horfa upp á þetta.

PPS. [smá innskot, eftir á, mtt. til ábendinga] hvers vegna snýst þessi færsla bara um formann flokksins… jú, vegna þess að fólk var farið að lýsa yfir stuðningi við flokkinn áður en nokkuð annað var vitað en hver yrði formaður hans..

Ég kýs…

Posted: október 14, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Aðallega þá mæti ég og kýs.

Ég get eiginlega ekki kosið Framsóknarflokkinn því ég hef aldrei verið sammála honum að nokkru leyti sem skiptir máli. Mögulega hefði ég gefið þeim gaum ef ég væri í Suðvestur kjördæmi, Willum á alveg erindi á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn er kannski ekki eins fjarri lagi og halda mætti, ef flokkurinn styddi nýja stjórnarskrá, aðskilnað ríkis og kirkju, auðlindagjald og losaði sig við ótrúverðuga forystu – forystu sem er fullkomlega úr tengslum við raunveruleikann og býður upp á „gjammara“ sem rífa kjaft ómálefnalega yfir öllu og engu – þá myndi ég skoða hann í alvöru. Gott og vel, jú, hann er kannski nokkuð fjarri lagi.

Ég er varla að fara að kjósa Viðreisn, að mörgu leyti leist mér ekki illa á þessu tilraun, en nokkrar slæmar ákvarðanir á þingi slá þau út af borðinu í þetta skipti. Ég skal samt játa að mér þætti verra ef þau detta út af þingi, þau mættu kannski koma í staðinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn! Örlítið minni forpokun, þreyta og eitthvað meira í tengslum við raunveruleikann. Kannski þarf svona flokkur meiri tíma til að „slípast til“.

Miðflokkurinn kemur ekki til greina, ég hef ekki hugmynd um hvað flokkurinn stendur fyrir annað en vera í fýlu við Framsóknarflokkinn og taka við fylgi hans, en Framsóknarflokkinn gat ég hvort sem er ekki hugsað mér að kjósa. Þegar við bætist að formaðurinn er sleginn blindu gagnvart eigin hegðun þá er flokkurinn út úr myndinni. Hefði það ekki nægt, þá myndi daður flokksins við þjóðernishyggju klára málið.

Björt framtíð var ekki óálitlegur kostur, en ég náði aldrei almennilega út á hvað stefna flokksins gekk og næ ekki enn, þeas. jú, vel meinandi áherslur, en full lítið um hvernig á að ná markmiðum. Einhvern veginn get ég ekki séð mikinn mun á þeim og Samfylkingu, amk. ekki sem réttlætir að vera með sérstakan flokk. Jú, ágætis fólk, en eftir stuðning við óásættanleg atriði á þingi, eins og hjá Viðreisn, þá er þetta ekki spennandi valkostur.

Píratar eru minn valkostur að þessu sinni… ekki svo að skilja að ég sé sammála öllu sem þau halda fram – það þarf að gera betur í höfundarréttarmálum og stundum vantar skýrari stefnu. En þau eru viðræðuhæf, taka rökum, hafa hjartað á réttum stað og ég treysti þeim til að koma hlutum í verk.

Vinstri-græn eru ekki heldur ekki valkostur hjá mér, kannski er ég einfaldlega ekki mikill „vinstri“ maður og þó ég telji mig umhverfissinna þá hallast ég að öðrum aðferðum og annars konar nálgun. Einhverjar gamaldags forsjárhyggjukreddur lita flokkinn líka of mikið fyrir minn smekk.

Samfylkingin kæmi vel til greina í þetta sinn, bæði kemur Logi vel fyrir, virðist hreinn og beinn og trúverðugur. Samfylkingin styður nýja stjórnarskrá (ef ég skil rétt) og það er úrvalsfólk í framboði, læt nægja að nefna Helgu Völu sem dæmi. Á hinn bóginn er full mikið verið að flagga „fræga fólkinu“… bæði efast ég nú um að mörg þeirra eigi mikið erindi á Alþingi – og myndi þar fyrir utan líklega sakna þeirra úr núverandi störfum.

Flokkur fólksins virðist svo sem vel meinandi en það virðist stutt í kynþáttafordóma og útlendingahatur, amk. hjá einhverjum forsvarsmanna. En aðallega virðist fáfræði einkenna málflutning þeirra og þau virðast fullkomlega ófær um að vinna úr einföldum upplýsingum. Þá er mikið talað um hvað þau vilja gera, en ég hef ekki séð mikið um hvernig á að fara að því.

Alþýðufylkingin er vissulega heiðarlegt framboð en ég er bara fullkomlega ósammála stefnu flokksins.

Ég þarf væntanlega ekki að skýra hvers vegna ég styð ekki þá mannfyrirlitningu og heimsku sem Þjóðfylkingin stendur fyrir. [og ekki leiddist mér að sjá að þau höfðu ekki einu sinni stuðning til að bjóða fram]

Eru nokkuð fleiri framboð? Jú mér skilst að það sé eitt í Suðurkjördæmi, en ekki sem ég get kosið.

Eitt að lokum á kjördag…

Þetta snýst ekki lengur um að halla mismunandi mikið til hægri eða vinstri né blæbrigði tóna í bláa/græna/rauða litrófinu.

Þetta snýst ekki um hræðsluáróður, kökubakstur, klisjur, fljótfærni, drullumallsdreifingu, minni háttar mistök eða allt-í-einu-viðkunnanlega gæja í auglýsingum.

Þetta snýst um nýja nálgun, ný viðhorf, nýjar aðferðir og breytt hugarfar. Þetta snýst um fólk sem hlustar jafn mikið og það talar – og er fært um að ræða málin, taka rökum og jafnvel viðurkenna mistök ef svo ber undir.

Þess vegna kýs ég Pírata… þó ég sé ekki sammála þeim í einu og öllu.

Ég hendi sem sagt gráðuboganum og kveiki ljósin.

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

sitja í bát sem er að sigla í strand og nenni ekki að grípa í stýrið vegna þess að það sé ekki alveg öruggt að það breyti neinu.

Klisjur eins og

.. að eitt atkvæði breyti ekki neinu ganga ekki upp því að um leið og tuttugu kjósendur hugsa (og haga sér) þannig getur það breytt öllu, munað því hvort framboð komist yfirleitt inn á þing.

.. að það sé sami rassinn undir þeim öllum stóðst ekki skoðun þegar lítið annað var í boði en svokallaður fjórflokkur, og er hreint og klárt kjaftæði í komandi kosningum þegar mikið úrval er af framboðum sem bjóða allt aðra sýn á stjórnmálin og allt aðra nálgun við framkvæmd fyrirliggjandi verkefna.

Þetta eru einfaldlega lélegar afsakanir fyrir leti og framtaksleysi.

 

Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.

Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!

Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?

Ef svarið er „já“

  • þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.

En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).

Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?

Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.

Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk

Ef svarið er „já“

þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.

Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.

En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.

Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi,  þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.

En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.

Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.

Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.

Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.

Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.

Núverandi kosningalög eru bæði ósanngjörn og ólýðræðisleg. Það eru engin rök fyrir því að framboð þurfi að ná tilteknum fjölda til að eiga rétt á jöfnunarþingmanni, kjósendur þeirra flokka eiga alveg sama rétt á fulltrúa á þingi og aðrir.

En þetta er staðreynd.

Það er auðvitað yfirlýsing í orði að veita smáframboði atkvæði sitt eftir bestu samvisku hvað sem kosningakerfinu líður.

En í verki er það stuðningur við núverandi stjórnarflokka.

Ég held að það væri sterkur leikur hjá þeim framboðum sem eru á mörkunum, eða eru langt undir, að styðja Pírata í núverandi kosningum og ná þannig fram breytingum á kosningalögunum og eiga með því raunhæfa möguleika á því að ná inn manni í næstu kosningum… sem mögulega þarf ekki að bíða eftir í fjögur ár..