Ég kýs…

Posted: október 14, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Aðallega þá mæti ég og kýs.

Ég get eiginlega ekki kosið Framsóknarflokkinn því ég hef aldrei verið sammála honum að nokkru leyti sem skiptir máli. Mögulega hefði ég gefið þeim gaum ef ég væri í Suðvestur kjördæmi, Willum á alveg erindi á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn er kannski ekki eins fjarri lagi og halda mætti, ef flokkurinn styddi nýja stjórnarskrá, aðskilnað ríkis og kirkju, auðlindagjald og losaði sig við ótrúverðuga forystu – forystu sem er fullkomlega úr tengslum við raunveruleikann og býður upp á „gjammara“ sem rífa kjaft ómálefnalega yfir öllu og engu – þá myndi ég skoða hann í alvöru. Gott og vel, jú, hann er kannski nokkuð fjarri lagi.

Ég er varla að fara að kjósa Viðreisn, að mörgu leyti leist mér ekki illa á þessu tilraun, en nokkrar slæmar ákvarðanir á þingi slá þau út af borðinu í þetta skipti. Ég skal samt játa að mér þætti verra ef þau detta út af þingi, þau mættu kannski koma í staðinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn! Örlítið minni forpokun, þreyta og eitthvað meira í tengslum við raunveruleikann. Kannski þarf svona flokkur meiri tíma til að „slípast til“.

Miðflokkurinn kemur ekki til greina, ég hef ekki hugmynd um hvað flokkurinn stendur fyrir annað en vera í fýlu við Framsóknarflokkinn og taka við fylgi hans, en Framsóknarflokkinn gat ég hvort sem er ekki hugsað mér að kjósa. Þegar við bætist að formaðurinn er sleginn blindu gagnvart eigin hegðun þá er flokkurinn út úr myndinni. Hefði það ekki nægt, þá myndi daður flokksins við þjóðernishyggju klára málið.

Björt framtíð var ekki óálitlegur kostur, en ég náði aldrei almennilega út á hvað stefna flokksins gekk og næ ekki enn, þeas. jú, vel meinandi áherslur, en full lítið um hvernig á að ná markmiðum. Einhvern veginn get ég ekki séð mikinn mun á þeim og Samfylkingu, amk. ekki sem réttlætir að vera með sérstakan flokk. Jú, ágætis fólk, en eftir stuðning við óásættanleg atriði á þingi, eins og hjá Viðreisn, þá er þetta ekki spennandi valkostur.

Píratar eru minn valkostur að þessu sinni… ekki svo að skilja að ég sé sammála öllu sem þau halda fram – það þarf að gera betur í höfundarréttarmálum og stundum vantar skýrari stefnu. En þau eru viðræðuhæf, taka rökum, hafa hjartað á réttum stað og ég treysti þeim til að koma hlutum í verk.

Vinstri-græn eru ekki heldur ekki valkostur hjá mér, kannski er ég einfaldlega ekki mikill „vinstri“ maður og þó ég telji mig umhverfissinna þá hallast ég að öðrum aðferðum og annars konar nálgun. Einhverjar gamaldags forsjárhyggjukreddur lita flokkinn líka of mikið fyrir minn smekk.

Samfylkingin kæmi vel til greina í þetta sinn, bæði kemur Logi vel fyrir, virðist hreinn og beinn og trúverðugur. Samfylkingin styður nýja stjórnarskrá (ef ég skil rétt) og það er úrvalsfólk í framboði, læt nægja að nefna Helgu Völu sem dæmi. Á hinn bóginn er full mikið verið að flagga „fræga fólkinu“… bæði efast ég nú um að mörg þeirra eigi mikið erindi á Alþingi – og myndi þar fyrir utan líklega sakna þeirra úr núverandi störfum.

Flokkur fólksins virðist svo sem vel meinandi en það virðist stutt í kynþáttafordóma og útlendingahatur, amk. hjá einhverjum forsvarsmanna. En aðallega virðist fáfræði einkenna málflutning þeirra og þau virðast fullkomlega ófær um að vinna úr einföldum upplýsingum. Þá er mikið talað um hvað þau vilja gera, en ég hef ekki séð mikið um hvernig á að fara að því.

Alþýðufylkingin er vissulega heiðarlegt framboð en ég er bara fullkomlega ósammála stefnu flokksins.

Ég þarf væntanlega ekki að skýra hvers vegna ég styð ekki þá mannfyrirlitningu og heimsku sem Þjóðfylkingin stendur fyrir. [og ekki leiddist mér að sjá að þau höfðu ekki einu sinni stuðning til að bjóða fram]

Eru nokkuð fleiri framboð? Jú mér skilst að það sé eitt í Suðurkjördæmi, en ekki sem ég get kosið.

Lokað er á athugasemdir.