Eftir „skuldaleiðréttinguna“ sá ég staðfærðan brandara þar sem forsætisráðherra hafði tekið upp veskið og var að dreifa peningum til hóps af fólki. Einn í hópnum var yfir sig ánægður með forsætisráðherrann, „sjáið, hann er að gefa okkur peninga!“… en félagi hans við hliðina benti honum á „já, en hann er með veskið þitt…“.
Fyrir kosningarnar 2013 var kjósendum lofuð einhvers konar „skuldaleiðrétting“, gott ef hún átti ekki að koma „strax“, en „strax“ varð svo strax teygjanlegt hugtak. Seint og um síðir þegar eitthvað komst í verk, var stór hópur fólks svikinn og aðrir fengu gjöf úr ríkissjóði.
Nú vantar stærri loforð til að ganga í augun (veskið) á kjósendum.
Ein hugmyndin er að kaupa banka af kröfuhöfum, með eignum ríkissjóðs, fyrir óskilgreint verð… og gefa svo landsmönnum hluta þess.
Það er svo margt rangt við þetta að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Á meðan ríkissjóður skuldar er fáránlegt að fara í einhvers konar spákaupmennsku í eignarhaldi á banka, peningunum er alltaf betur varið í að greiða niður skuldir. En fólk er svo tilbúið í að láta blekkja sig að jafnvel varfærnasta fólk sem talað hefur fyrir mikilvægi þess að greiða niður skuldir er allt í einu farið að tala um að skuldir ríkissjóðs séu nú ekki svo miklar – 2016 voru vaxtagjöld ríkissjóðs 70.388 milljónir!
Gott og vel (nei, engan veginn gott og vel) en samt. Ef skuldirnar þykja ekki svo stórvægilegar, þá eru næg verkefni sem ekki hafa verið peningar til að leysa, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra… ég þarf varla að telja upp meira. En nú er aðalmálið að nota eignir ríkissjóðs til að kaupa banka!
Ein lýsing á hugmyndinni er að nýta forkaupsrétt ríkissjóðs á bankanum… einn gallinn virðist vera að foringinn sem virðist vera að reyna að kaupa þingsæti með loforðinu virðist sjálfur hafa samið þennan forkaupsrétt af ríkissjóði.
Þar fyrir utan, hvers vegna ætti þjóðin að vilja eiga banka? Er ekki nær að láta þá sem vit hafa á bankarekstri eiga og reka banka – skattleggja hressilega og fá þannig tekjur í ríkissjóð – sem kannski nýtast almenningi betur en eitthvert hlutabréf í einum bankanna.
Er dreift eignarhald banka eftirsóknarvert? Ég hef engin rök séð sérstaklega fyrir því en ef svo er, er þá ekki um að gera að setja lög sem skýra eignarhald banka? Því það að gefa eignarhlut til almennings gæti allt eins orðið til að flestir selji sinn hlut strax og bankinn verði ekki lengur í dreifðri eign… það eru reyndar dæmi um þetta.
Og ef og ef og ef… það er eftirsóknarvert að bankarnir séu í dreifðri eign og besta aðferðin til þess að er að gefa almenningi eignarhlut… hvers vegna nægir ekki sá banki sem ríkissjóður á þegar?
Er mögulegt að þessi skyndilegi áhugi á að kaupa banka af kröfuhöfum – aðgerð sem hækkar væntanlega verð bankans – hafi eitthvað með það að gera að það eru einhverjar líkur á að viðkomandi stjórnmálamaður, sé sjálfur einn af kröfuhöfunum og fái þannig hærra verð fyrir sinn hlut?
En um að gera að stilla þessu upp til að ganga í veskið / augun á kjósendum… en í rauninni er verið að ganga í veski kjósenda.