Stjórnarskráin og gatnakerfi

Posted: október 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef lengi lagt áherslu á að við fáum betri stjórnarskrá, eiginlega alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar. Ég hef svo sem marg oft skýrt hvaða gallar eru á núverandi stjórnarskrá og ekki fengið nein svör um hvers vegna ekki má bæta úr þeim. Ég hef frekar heyrt eitthvað svona almennt um að þetta skipti nú ekki svo miklu máli og önnur verkefni eigi að hafa forgang. Píratar, sem ég styð í kosningunum, hafa setið undir svipaðri gagnrýni, að þau leggi of mikla áherslu á stjórnarskrána.

Og það er svo sem rétt, það eitt að breyta stjórnarskránni gerir ekki mikið í sjálfu sér, en það er bæði nauðsynlegur grunnur að betri stjórnsýslu og stjórnmálum – og kannski ekki síður yfirlýsing um breytt hugarfar.

Það má kannski líkja þessu við gatnakerfi. Ímyndum okkur að við hefðum í flýti þurft að taka gatnakerfi frá dönum 1944, gatnakerfi sem væri hannað fyrir þeirra flatlendi og tæki tillit til lestarkerfisins þeirra. Síðan hefði nokkrum útskotum verið bætt við en aldrei hefði mátt endurskipuleggja með tilliti til annars landslags, breyttra aðstæðna, breyttra sjónarmiða og/eða breyttra tækja. Ekki mætti hugsa fyrir göngu- eða hjólastígum frekar en breyttum sjónarmiðum í mannréttindamálum. Ekki mætti gera fjallvegi sómasamlega úr garði, frekar en að það mætti tryggja eignarhald og arð auðlindanna.

Betra gatnakerfi eitt og sér hjálpar ekki til að umferðin gangi greiðlega en það er samt nauðsynlegur grunnur.

Á meðan ríghaldið er í gamla gatnakerfið af forpokun og án nokkurra raka.. þá höldum við áfram að keyra út í skurð.

Lokað er á athugasemdir.