Posts Tagged ‘stjórnarskrá’

Mér heyrist tal um laga- eða réttaróvissu sé orðin einhvers konar þungavigtar klisja í málflutningi þeirra sem vilja með öllu forðast að afgreiða nýja stjórnarskrá.

Það er auðvitað gott og gilt að þetta sé haft í huga í meðförum Alþingis og nauðsynlegar breytingar gerðar ef þurfa þykir.

En þetta er farið að hljóma eins og einhver allsherjar afsökun fyrir að sleppa því að, svo mikið sem, taka málið fyrir. Oftar en ekki á einhverjum dularfullum og óútskýrðum nótum.

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður og ekki skal ég útiloka að einhver atriði megi betur fara.

En í hverju er þessi óvissa fólgin.. kannski gengur mér illa að leita, en ég finn afskaplega lítið haldbært um þetta. Þetta er aðallega á „ýmsir telja..“ og „sumir óttast..“ nótunum.

Stangast einhver lög á við nýja stjórnarskrá. Nú þá er ekkert að því að breyta viðkomandi lögum. Nú eða breyta stjórnarskránni ef þetta eru einhver tæknileg smáatriði.

Jú, „dómafordæmi“ eru stundum nefnd til sögunnar. Hvaða dómafordæmi? Það er enginn að tala um að stjórnarskrá eigi, frekar en lög, að vera afturvirk.

Stangast ákvæði hennar á forsendur dóma? Gott og vel, er það ekki einfaldlega verkefni dómstóla að leysa úr þessu í framtíðinni? Ég man ekki til að hafa heyrt um að ekki megi breyta lögum vegna dómafordæma…

Stjórnarskráin í hjólbörum

Posted: október 23, 2019 in Umræða
Efnisorð:

Þegar ég var miklu yngri voru gjarnan sagðir brandarar um vinnu vistmanna á heimili ekki svo langt þar sem við áttum heima í Kópavoginum, flestir snerust brandarnir um sand, holur og hjólbörur.. án þess að ég ætli að fara nánar út í þá hér.

En mér varð hugsað til þeirra um helgina þegar ég datt inn í umræður um stjórnarskrána.

Því burtséð frá því hversu illa er staðið að umræðum um breytingar á stjórnarskrá, lítil sem engin kynning, stuttur fyrirvari, stuttur tími til umræðu og mikilvæg atriði skilin útundan… þá er ég ekki að skilja hver tilgangurinn er með þessu.

Hver eru rökin fyrir því að hunsa samþykkta stjórnarskrá og fara aftur af stað með sambærilegt en mun takmarkaðra og lítt hugsað ferli?

Ég hef enn engin rök séð fyrir því að niðurstaða atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána sé hunsuð.

Hvað ef þessi vinna skilar sambærilegum niðurstöðum og ný samþykkt stjórnarskrá? Vegna takmarkana á þessari vinnu verður hún nú seint nákvæmlega eins – en hún gæti verið samhljóma í mörgum atriðum. Má þá ekki gefa sér að niðurstöður þessarar vinnu verði hunsaðar, nákvæmlega eins og niðurstöður sem fengust úr fyrri vinnu?

Og ef þessi vinna skilar annars konar niðurstöðu? Með hvaða rökum ætti sú niðurstaða að vera rétthærri en vinnan við samþykkta stjórnarskrá?

Þetta minnir orðið óþægilega á brandarana sem ég var að vísa til hér í upphafi.

Ég hef lengi lagt áherslu á að við fáum betri stjórnarskrá, eiginlega alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar. Ég hef svo sem marg oft skýrt hvaða gallar eru á núverandi stjórnarskrá og ekki fengið nein svör um hvers vegna ekki má bæta úr þeim. Ég hef frekar heyrt eitthvað svona almennt um að þetta skipti nú ekki svo miklu máli og önnur verkefni eigi að hafa forgang. Píratar, sem ég styð í kosningunum, hafa setið undir svipaðri gagnrýni, að þau leggi of mikla áherslu á stjórnarskrána.

Og það er svo sem rétt, það eitt að breyta stjórnarskránni gerir ekki mikið í sjálfu sér, en það er bæði nauðsynlegur grunnur að betri stjórnsýslu og stjórnmálum – og kannski ekki síður yfirlýsing um breytt hugarfar.

Það má kannski líkja þessu við gatnakerfi. Ímyndum okkur að við hefðum í flýti þurft að taka gatnakerfi frá dönum 1944, gatnakerfi sem væri hannað fyrir þeirra flatlendi og tæki tillit til lestarkerfisins þeirra. Síðan hefði nokkrum útskotum verið bætt við en aldrei hefði mátt endurskipuleggja með tilliti til annars landslags, breyttra aðstæðna, breyttra sjónarmiða og/eða breyttra tækja. Ekki mætti hugsa fyrir göngu- eða hjólastígum frekar en breyttum sjónarmiðum í mannréttindamálum. Ekki mætti gera fjallvegi sómasamlega úr garði, frekar en að það mætti tryggja eignarhald og arð auðlindanna.

Betra gatnakerfi eitt og sér hjálpar ekki til að umferðin gangi greiðlega en það er samt nauðsynlegur grunnur.

Á meðan ríghaldið er í gamla gatnakerfið af forpokun og án nokkurra raka.. þá höldum við áfram að keyra út í skurð.

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.

En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.

En hvað er þá til ráða?

Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?

Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?

Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.

Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.

Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.

Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.

Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.

Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.

Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.

Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.

En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.

Er þetta ekki bara frábær hugmynd??

Flestir núverandi þingmanna voru kosnir á þing eftir loforð fyrir kosningar um nýja stjórnarskrá.

Þingið skipaði stjórnlagaráð til að endurskoða stjórnarskrána.

Þingið spurði síðan þjóðina álits á tillögum stjórnlagaráðs og fékk afgerandi svar, mikill meirihluti studdi það að klára stjórnarskrána.

Þingið hefur þess vegna ekkert umboð til að spila með málið í einhverri refskák í þinglok eða sem hluta af kosningabaráttu. Þingið hefur einfaldlega ekkert umboð til undanbragða, hvorki til að fresta málinu, drepa á dreif eða þynna út.

Viðbrögðin við breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur vegna stjórnarskrárinnar hafa gefið tilefni til orðskýringa í næstu útgáfu orðabókarinnar.

„Atkvæði verða greidd um stjórnarskrána í heild sinni – Vigdís Hauksdóttir orðlaus“ – þetta er ágætis skýring á oraðtiltækinu að slá tvær flugur í einu höggi.

„Mér finnst að þessu grunnplaggi íslenskrar löggjafar sé ekki mikil virðing sýnd með slíkri afgreiðslu“ sagði svo Magnús Orri Schram um sömu tillögu. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en vandamálið er ekki tillaga Margrétar heldur vilja- og/eða getuleysi þingsins til að klára málið á fjórum árum. Hvaða orð skyldi þessi skýring eiga best við?

Það er grundvallar misskilningur hjá hluta þingmanna þegar talað er um að ekki sé hægt að afgreiða nýja stjórnarskrá á meðan mikið ósætti er um málið.

Aðalatriðið er að þetta mál snýst ekkert um vilja þingsins, sætti eða ósætti þar á bær, hvað þá nauman eða mikinn meirihluta innan þings, að ég tali nú ekki um hvort þetta hefur áhrif á kosningabaráttu einhverra flokka.

Þetta mál snýst um að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur lýst skýrum vilja.

 

Viljaleysi eða getuleysi?

Posted: mars 5, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég átta mig ekki á því hvort sú ákvörðun að drepa stjórnarskrármálið stafar af viljaleysi eða getuleysi.

Og í sjálfu sér skiptir svarið ekki máli.

Í næstu kosningum kemur ekki til greina hjá mér að kjósa flokk sem styður ekki málið.

Ef viljinn er ekki fyrir hendi eftir afdráttarlausa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu þá nægir það mér til að taka afstöðu.

Ef getan til að klára málið á þessum tíma er ekki til staðar – þegar málið er komið langleiðina og litið eftir annað en að afgreiða – þá nægir það mér líka.

Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.

Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.

Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?

Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.

Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.

En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.

Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.

Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.

Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.