Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.
Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.
Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?
Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.
Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.
En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.
Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.
Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.
Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.
Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.