Ekki þjóðkirkju

Posted: október 19, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, , ,

Fyrir mér er augljóst að við eigum ekki að hafa þjóðkirkju.

Það eru auðvitað engin rök fyrir ríkisreknu félagi um lífsskoðanir, hvað þá llifsskoðun sem byggir á ímyndaðri veru, veru sem enginn hefur getað sýnt fram á að sé til. Á tvö þúsund árum hafa jú engin merki fundist. Vegna þess að þetta er trú en ekki vísindi, staðreyndir eða upplýsingar. Þess vegna á þetta ekkert erindi í ríkissjóð, ekki frekar en súpermann, álfar, draugar eða aðrar yfirnáttúrulegar ímyndaðar verur.

Við erum ekki kristin þjóð. Þó það hafi mögulega átt við að einhverju leyti fyrir hundrað árum þá erum við í dag fjölbreytt þjóð með ólíkar lífsskoðanir og mismunandi sjónarmið. Fjórði hver Íslendingur hefur sagt sig úr þjóðkirkjunni, trúleysi fer vaxandi og kirkjur eru tómar. Innan við helmingur landsmanna trúir á þennan guð og ég veit ekki hversu fá prósent kunna trúarjátninguna, hvað þá hversu margir kvitta upp á innihaldið.

Kristin gildi og arfleifð telja sumir hluta af menningu og sögu. Að einhverju leyti, en þau gildi sem skipta máli finnast í flestum öðrum trúar- og lífsskoðunum. Og ekki þarf kirkjan að vera rekin af ríkissjóði ef gildin eru einhvers virði.

Ég nenni varla að nefna til sögunnar þvæluna um frídaga, þjóðfána eða athafnir. Sárafáar þjóðir í kringum okkur eru með þjóðkirkju og þetta vefst ekkert fyrir þeim sem eru án ríkisrekinnar kirkju.

En ég nenni alveg að tala um peningana sem fara í þetta. Fjórir milljarðar. Og þetta eru ekki félagsgjöld og fyrrum kirkjujarðir standa aldrei undir þessu. Prestar fá byrjunarlaun sem eru margföld á við byrjunarlaun annarra stétta. Og fá til viðbótar hlunnindi af jörðum sem kirkjan afhenti ríkinu fyrir meira en öld. Og kirkjan notar gjarnan þau rök að ríkissjóður fái arðinn…

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?

Athugasemdir
  1. Andrés Valgarðsson skrifar:

    Held það væri betra ef Súpermann væri til en Guð biblíunnar, satt að segja.

    Mjög góður pistill.