Brynjar Níelsson svaraði fyrirspurn Egils Óskarssonar um hvort ríkið ætti að standi fyrir rekstri trúfélaga á Pressunni.
Ég læt vera að benda Brynjari á að flest rök hans fyrir þjóðkirkju eru samhljóma rökum andstæðinga hans, til dæmis þegar kemur að RÚV, geri ráð fyrir að Egill sjái um það..
Mig langar aðeins að gera fullyrðingar um fjármál að umtalsefni.
Greiðslur fyrir jarðir
Brynjar segir að ef við gefum okkur að verðmæti jarða sem ríkið tók yfir sé 50 milljarðar þá geti 4,5 milljarðar ekki talist mikið. Það eru engar forsendur til að gefa sér eitthvað um verðmæti jarðanna, það eru engar upplýsingar til um hvaða jarðir þetta eru, hvað þá hversu mikils virði þær voru. Hvers vegna að gefa sér einhverja 50 milljarða? Má ekki alveg eins segja að ef við gefum okkur að verðmæti þeirri hafi verið hálfur milljarður þá séu 4,5 milljarðar alveg svakalega mikið? Hvers vegna yfirleitt að vera að slá fram tölum sem eru fullkomlega úr lausu lofti? Eina tilraunin sem ég veit til að hafi verið gerð til að meta þetta benti til ríflega 700 milljóna, en á meðan enginn veit einu sinni hvaða jarðir þetta voru þá er tilgangslaust að reyna að meta þetta.
Meiri niðurskurður en aðrar stofnanir
Brynjar segir það óumdeilt – með þeim fyrirvara að það sé eftir því sem hann best viti – að þjóðkirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir.
Það kemur reyndar ekki fram á hvaða tímabili þetta á að vera. En skoðum nýjustu rauntölur.
Árið 2012 voru framlög til þjóðkirkjunnar 1.452 milljónir, til kirkjumálasjóðs 229 milljónir, til kristnisjóðs 74 milljónir, sóknargjöld (allra ef ég skil rétt) voru 1.855 milljónir, kirkjugarðar fengu 888 milljónir og einhver liður kallast jöfnunarsjóður sókna og er 297 milljónir. Alls voru þetta 4,795 milljónir árið 2012. Árið 2011 fékk þjóðkirkjan 1,330 milljónir þannig að hækkun á milli ára var 9,17%. Heildartala allra liðanna var 4,648 en hækkunin milli ára var minni eða nær þremur og hálfu prósenti (3,39%). Það má deila um hvaða liði eigi að taka með, kirkjugarðar ættu kannski að vera undanskildir.
Framlög til RÚV voru til samanburðar 3.025 milljónir árið 2011 og 3.100 milljónir árið 2012, hækka um tæplega tvö og hálft prósent (2,48%).
Launavísitalan var 409,1 stig í júlí 2011 og 433,5 stig ári seinna, hækkar um tæp sex prósent (5,96%) þannig að þjóðkirkjan sem slík fær hækkun umfram launavísitöluna, en hvorki heildargjöld til trúmála né RÚV halda í við verðbólgu.
Hvað með aðrar stofnanir? Þjóðminjasafn með 3,9% niðurskurð, Þjóðmenningarhús með 10,2% niðurskurð, Útlendingastofnun 35,5% og og svo má finna liði eins og Alþjóðastofnanir með 35,6% niðurskurð og „Söfn og menningarminjar“ með niðurskurð upp á 56,0%.
Eins og áður segir kemur ekki fram við hvaða tímabil Brynjar á við, samanburður við aðrar stofnanir lengra aftur í tímann er snúnari vegna breytinga en ein leið til að meta þetta er að bera útgjöld til þjóðkirkjunnar saman við heildarútgjöld ríkissjóðs. Árið 2008 fékk þjóðkirkjan 0,22%, 2011 voru þetta 0,23% og 2012 voru þetta 0,26% – heildarútgjöld vegna trúmála voru 0,79% árið 2008, 0,81% árið 2011 og 0,85% árið 2012.
Þannig er erfitt að halda því fram að kirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Það virðist eiginlega vera beinlínis rangt.
Að niðurskurður til þjóðkirkjunnar hafi verið 25%
Brynjar hefur eftir ónefndum aðilum að niðurskurður til kirkjunnar hafi verið 25% og vissulega setur hann fyrirvara við þessa tölu.
En væri nú ekki hjálplegra að tala skýrt? Hvaðan kemur þessi tala? Við hvaða tímabil er miðað? Klárlega ekki frá 2011 til 2012.
Hvað fæst fyrir peninginn?
Þá er ekki verra að hafa í huga að fólk fær enn minna fyrir þjónustu kirkjunnar en þessar tölur gefa til kynna, það þarf nefnilega að greiða sérstaklega fyrir mörg viðvik og athafnir presta.
Þjónusta við hversu marga?
Þá er rétt að hafa í huga að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkar á milli ára, ekki bara hlutfallslega. Þjóðkirkjan sinnir aðeins þeim sem eru meðlimir og fær aðeins sóknargjöld vegna þeirra… þess vegna væri auðvitað eðlilegt að greiðslur til hennar lækki.
Aukaatriði
En þetta er auðvitað aukaatriði, spurning Egils var snerist um hvort ríkið ætti yfirleitt að standa í svona rekstri, burtséð frá öllum tölum.
PS. jú, þetta er auðvitað með fyrirvara um innsláttarvillur og upplýsingar, allar ábendingar eru vel þegnar.
Líkar við:
Líka við Hleð...