Posts Tagged ‘Þjóðkirkja’

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Brynjar Níelsson svaraði fyrirspurn Egils Óskarssonar um hvort ríkið ætti að standi fyrir rekstri trúfélaga á Pressunni.

Ég læt vera að benda Brynjari á að flest rök hans fyrir þjóðkirkju eru samhljóma rökum andstæðinga hans, til dæmis þegar kemur að RÚV, geri ráð fyrir að Egill sjái um það..

Mig langar aðeins að gera fullyrðingar um fjármál að umtalsefni.

Greiðslur fyrir jarðir

Brynjar segir að ef við gefum okkur að verðmæti jarða sem ríkið tók yfir sé 50 milljarðar þá geti 4,5 milljarðar ekki talist mikið. Það eru engar forsendur til að gefa sér eitthvað um verðmæti jarðanna, það eru engar upplýsingar til um hvaða jarðir þetta eru, hvað þá hversu mikils virði þær voru. Hvers vegna að gefa sér einhverja 50 milljarða? Má ekki alveg eins segja að ef við gefum okkur að verðmæti þeirri hafi verið hálfur milljarður þá séu 4,5 milljarðar alveg svakalega mikið? Hvers vegna yfirleitt að vera að slá fram tölum sem eru fullkomlega úr lausu lofti? Eina tilraunin sem ég veit til að hafi verið gerð til að meta þetta benti til ríflega 700 milljóna, en á meðan enginn veit einu sinni hvaða jarðir þetta voru þá er tilgangslaust að reyna að meta þetta.

Meiri niðurskurður en aðrar stofnanir

Brynjar segir það óumdeilt – með þeim fyrirvara að það sé eftir því sem hann best viti – að þjóðkirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir.

Það kemur reyndar ekki fram á hvaða tímabili þetta á að vera. En skoðum nýjustu rauntölur.

Árið 2012 voru framlög til þjóðkirkjunnar 1.452 milljónir, til kirkjumálasjóðs 229 milljónir, til kristnisjóðs 74 milljónir, sóknargjöld (allra ef ég skil rétt) voru 1.855 milljónir, kirkjugarðar fengu 888 milljónir og einhver liður kallast jöfnunarsjóður sókna og er 297 milljónir. Alls voru þetta 4,795 milljónir árið 2012. Árið 2011 fékk þjóðkirkjan 1,330 milljónir þannig að hækkun á milli ára var 9,17%. Heildartala allra liðanna var 4,648 en hækkunin milli ára var minni eða nær þremur og hálfu prósenti (3,39%). Það má deila um hvaða liði eigi að taka með, kirkjugarðar ættu kannski að vera undanskildir.

Framlög til RÚV voru til samanburðar 3.025 milljónir árið 2011 og 3.100 milljónir árið 2012, hækka um tæplega tvö og hálft prósent (2,48%).

Launavísitalan var 409,1 stig í júlí 2011 og 433,5 stig ári seinna, hækkar um tæp sex prósent (5,96%) þannig að þjóðkirkjan sem slík fær hækkun umfram launavísitöluna, en hvorki heildargjöld til trúmála né RÚV halda í við verðbólgu.

Hvað með aðrar stofnanir? Þjóðminjasafn með 3,9% niðurskurð, Þjóðmenningarhús með 10,2% niðurskurð, Útlendingastofnun 35,5% og og svo má finna liði eins og Alþjóðastofnanir með 35,6% niðurskurð og „Söfn og menningarminjar“ með niðurskurð upp á 56,0%.

Eins og áður segir kemur ekki fram við hvaða tímabil Brynjar á við, samanburður við aðrar stofnanir lengra aftur í tímann er snúnari vegna breytinga en ein leið til að meta þetta er að bera útgjöld til þjóðkirkjunnar saman við heildarútgjöld ríkissjóðs. Árið 2008 fékk þjóðkirkjan 0,22%, 2011 voru þetta 0,23% og 2012 voru þetta 0,26% – heildarútgjöld vegna trúmála voru 0,79% árið 2008, 0,81% árið 2011 og 0,85% árið 2012.

Þannig er erfitt að halda því fram að kirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Það virðist eiginlega vera beinlínis rangt.

Að niðurskurður til þjóðkirkjunnar hafi verið 25%

Brynjar hefur eftir ónefndum aðilum að niðurskurður til kirkjunnar hafi verið 25% og vissulega setur hann fyrirvara við þessa tölu.

En væri nú ekki hjálplegra að tala skýrt? Hvaðan kemur þessi tala? Við hvaða tímabil er miðað? Klárlega ekki frá 2011 til 2012.

Hvað fæst fyrir peninginn?

Þá er ekki verra að hafa í huga að fólk fær enn minna fyrir þjónustu kirkjunnar en þessar tölur gefa til kynna, það þarf nefnilega að greiða sérstaklega fyrir mörg viðvik og athafnir presta.

Þjónusta við hversu marga?

Þá er rétt að hafa í huga að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkar á milli ára, ekki bara hlutfallslega. Þjóðkirkjan sinnir aðeins þeim sem eru meðlimir og fær aðeins sóknargjöld vegna þeirra… þess vegna væri auðvitað eðlilegt að greiðslur til hennar lækki.

Aukaatriði

En þetta er auðvitað aukaatriði, spurning Egils var snerist um hvort ríkið ætti yfirleitt að standa í svona rekstri, burtséð frá öllum tölum.

PS. jú, þetta er auðvitað með fyrirvara um innsláttarvillur og upplýsingar, allar ábendingar eru vel þegnar.

Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.

Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.

Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?

Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.

Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.

En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.

Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.

Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.

Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.

Fyrir mér er augljóst að við eigum ekki að hafa þjóðkirkju.

Það eru auðvitað engin rök fyrir ríkisreknu félagi um lífsskoðanir, hvað þá llifsskoðun sem byggir á ímyndaðri veru, veru sem enginn hefur getað sýnt fram á að sé til. Á tvö þúsund árum hafa jú engin merki fundist. Vegna þess að þetta er trú en ekki vísindi, staðreyndir eða upplýsingar. Þess vegna á þetta ekkert erindi í ríkissjóð, ekki frekar en súpermann, álfar, draugar eða aðrar yfirnáttúrulegar ímyndaðar verur.

Við erum ekki kristin þjóð. Þó það hafi mögulega átt við að einhverju leyti fyrir hundrað árum þá erum við í dag fjölbreytt þjóð með ólíkar lífsskoðanir og mismunandi sjónarmið. Fjórði hver Íslendingur hefur sagt sig úr þjóðkirkjunni, trúleysi fer vaxandi og kirkjur eru tómar. Innan við helmingur landsmanna trúir á þennan guð og ég veit ekki hversu fá prósent kunna trúarjátninguna, hvað þá hversu margir kvitta upp á innihaldið.

Kristin gildi og arfleifð telja sumir hluta af menningu og sögu. Að einhverju leyti, en þau gildi sem skipta máli finnast í flestum öðrum trúar- og lífsskoðunum. Og ekki þarf kirkjan að vera rekin af ríkissjóði ef gildin eru einhvers virði.

Ég nenni varla að nefna til sögunnar þvæluna um frídaga, þjóðfána eða athafnir. Sárafáar þjóðir í kringum okkur eru með þjóðkirkju og þetta vefst ekkert fyrir þeim sem eru án ríkisrekinnar kirkju.

En ég nenni alveg að tala um peningana sem fara í þetta. Fjórir milljarðar. Og þetta eru ekki félagsgjöld og fyrrum kirkjujarðir standa aldrei undir þessu. Prestar fá byrjunarlaun sem eru margföld á við byrjunarlaun annarra stétta. Og fá til viðbótar hlunnindi af jörðum sem kirkjan afhenti ríkinu fyrir meira en öld. Og kirkjan notar gjarnan þau rök að ríkissjóður fái arðinn…

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?

Rekstur kirkjunnar kostar fjóra milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum.

Þá er þjónusta presta verðlögð sérstaklega.

Prestar eru á margföldum byrjunarlaunum miðað við aðrar stéttir – fyrir utan greiðslur fyrir athafnir.

Kirkjan segir afdráttarlaust að henni beri ekki að veiti fólki þjónustu nema allir aðilar séu þar meðlimir. Nema þegar hún er í kosningabaráttu, þá segir hún að henni beri skylda til að þjóna öllum.

Kirkjan neitar öðrum söfnum  (ma. kristnum) um afnot af húsnæði sem ríkið á, en eru í umsjón kirkjunnar.

Prestar geta neitað fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Vill einhver (annar en prestar) hafa ríkiskirkjuna áfram?

Ég var frummælandi á fundi Stjórnarskrárfélagsins um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá síðasta miðvikudag. Talsmenn kirkjunnar töluðu nokkuð oft um að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði úrskurðað að þjóðkirkjuákvæðið væri ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar þau voru innt frekari skýringa var lítið um svör og má jafnvel segja að þau hafi farið undan í flæmingi. Þannig að ég fór að kanna málið. Í stuttu máli þá fann ég lítið og setti inn blogg færslu þar sem ég óskaði skýringa. Engin komu svörin, þrátt fyrir að ég benti fundarfélögum mínum á færsluna, fyrr en ég auglýsti eftir þessu í Silfri Egils í gær. Þá kom tölvupóstur sem benti á mál þessu til stuðnings.

Bent var á mál Darby gegn Svíþjóð (skýrsla Mannréttindanefndar Evrópu nr. 11581/85).

Fyrir það fyrsta segir í úrskurðinum í þessu máli að 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (um samvisku og trúarbrögð) hafi verið brotin:

The Commission concludes, by 10 votes to 3, that there has been a violation of Article 9 (Art. 9) of the Convention

En skattgreiðslurnar sem slíkar eru ekki taldar brot í Svíþjóð. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðu segja hins vegar skýrt að fyrirkomulagið hér á Íslandi er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

The obligation (to pay church contributions) can be avoided if they choose to leave the church, a possibility which the State legislation has expressly provided for. By making available this possibility, the State has introduced sufficient safeguards to ensure the individual’s freedom of religion.“

Sænska ríkið vinnur þetta mál sem sagt vegna þess að í Svíþjóð er mögulegt fyrir þá sem standa utan trúfélaga að lækka skatta sína sem nemur gjaldi til trúfélaga. Stefnandi hafði ekki nýtt sér þetta vegna annarrar skráningar („resident“).

Á Íslandi er fyrirkomulagið þannig að ég greiði nákvæmlega sömu krónutölu í skatt hvort sem ég er í trúfélagi eða ekki – og nákvæmlega sömu krónutölu og maðurinn-í-næsta-húsi sem er í þjóðkirkjunni og hefur forsendur (tekjur, eignir…).

Gott og vel, ég er ekki lögfræðingur. En ég er læs. Og ég held því fram að fyrirkomulagið hér á Íslandi sé brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Og mér sýnist ég hafa ansi sterk rök.

Ég tók þátt í ágætum fundi stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í gær um kosningu á því ákvæði hvort þjóðkirkja ætti að vera í stjórnarskrá.

Fundurinn var fínn og umræður áhugaverðar, fór vel fram og umræður (að mestu) málefnalegar.

Tvennt sló mig í málflutningi talsmanna kirkjunnar. Tökum annað þeirra fyrir hér.

Kirkjan hefur staglast á því að Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að fyrirkomulag um þjóðkirkju stangist ekki á við mannréttindi.

Nú er Hæstiréttur Íslands auðvitað ekki „merkilegur pappír“ þegar kemur að mannréttindum og málið þar fyrir utan sérhæft. Það snerist aðeins um hvort réttlætanlega væri að greiða einu trúfélagi umfram önnur trúfélög – og bryti ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinna varðandi réttarstöðu trúfélaga. Hæstiréttur tók enga afstöðu til þess hvort þjóðkirkja bryti gegn þeim sem standa utan trúféflaga – enda ekki til umfjöllunar. Og Hæstiréttur tók heldur ekki afstöðu til annarra atriða en fjárhagslegra, enda heldur ekki til umfjöllunar. Og Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið til umfjöllunar.

Hitt er að gjarnan er vísað til úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu að þjóðkirkja stangist ekki á við mannréttindi. Þetta kemur svo víða fyrir í umræðunni. En það fylgja aldrei neinar tilvísanir. Hvaða úrskurðar eruð verið að vísa til? Það sem ég hef séð – og hef ég nú lesið nokkuð – er engan veginn skýrt eða afgerandi. Nánar um það síðar ef ég fæ engin svör.

Þannig að, ég spyr, hvaða úrskurður er þetta?

Svo var fróðlegur rökstuðningur kirkjunnar talsmanna vegna þessara atriða. Við spurðum ítrekað hver væru rökin fyrir niðurstöðum Hæstaréttar og Mannréttindadómstólsins. Svarið var, jú rétturinn komst að þessari niðurstöðu!

Þannig eru rökin fyrir niðurstöðunni þau að rétturinn hafi komist að þessari niðurstöðu. Er þetta rökfræðin sem kennd er í guðfræði?

Það er vægt til orða tekið að það er ójafn leikurinn þegar kemur að  þjóðkirkjuákvæðinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá.

Við erum með ríkisstofnun á fjárlögum með fjölda mannns í vinnu á skrifstofu – þar með talið fólk sem vinnur almannatengsla – mig minnir að um 36 manns starfi á skrifstofu ríkiskirkjunnar.

Við erum sem sagt með starfsfólk í fullu starfi við að halda úti áróðri fyrir að fá áfram hluti í stjórnarskránni. Að vissu leyti skil ég starfsfólk þar á bæ, það hlýtur að  vera erfitt að sitja þegjandi hjá þegar verið er að fjalla um grunn stofnunarinnar.

En það þýðir ekki að þetta sé í lagi. Það hlýtur að vera eðlileg og sjálfsögð krafa að kirkjan setji ekki krónu í þetta verkefni, beint eða óbeint, og að starfsmenn hennar sinni ekki áróðursstarfi vegna þessa.

Hin leiðin væri að kirkjan geri grein fyrir hverri krónu sem fer í þetta verkefni og þeir sem vilja ákvæði um þjóðkirkju út fái sömu upphæð til ráðstöfunar.

Eftir nokkrar vikur verða greidd atkvæði um nokkur álitamál vegna nýrrar stjórnarskrár.

Í sjálfu sér er ég ánægður með að sjá að leitað er álits þjóðarinnar um helstu álitamálin.

En það gengur ekki að kjósa um grein sem myndi stangast á við aðrar, nema þá að gera breytingar til samræmis. Í það minnsta vona ég að okkur takist að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að hún verði ekki í innbyrðis ósamræmi.

Í sjöttu grein nýrrar tillögu um stjórnarskrá um jafnræði segir:

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Þetta er kýrskýrt og gefur ekkert svigrúm til ríkisrekins trúfélags eins trúarhóps.

Á kjörseðlinum er eftirfarandi valkostur:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Að vísu er ekki tilgreint hvernig þetta ákvæði ætti að vera – sem býður upp á smá útúrsnúninga… en sleppum þeim.

Til að kjósendur geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir – ef við gefum okkur að stjórnarskráin eigi að vera í innra samræmi – þá þyrfti valkosturinn að vera þannig:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og að ákvæði um trúfrelsi og skoðanir verði felld úr kaflanum um jafnrétti?

Þá er undarleg uppsetning á atkvæðaseðlinum að þessu leyti, þeir sem vilja samþykkja tillögur stjórnlagaráðs merkja við JÁ í öllum tilfellum nema vegna þjóðkirkjunnar, þar þarf að merkja við NEI.