Hvaða úrskurðir, kæra kirkja?

Posted: október 11, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, , , , ,

Ég tók þátt í ágætum fundi stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í gær um kosningu á því ákvæði hvort þjóðkirkja ætti að vera í stjórnarskrá.

Fundurinn var fínn og umræður áhugaverðar, fór vel fram og umræður (að mestu) málefnalegar.

Tvennt sló mig í málflutningi talsmanna kirkjunnar. Tökum annað þeirra fyrir hér.

Kirkjan hefur staglast á því að Hæstiréttur Íslands og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að fyrirkomulag um þjóðkirkju stangist ekki á við mannréttindi.

Nú er Hæstiréttur Íslands auðvitað ekki „merkilegur pappír“ þegar kemur að mannréttindum og málið þar fyrir utan sérhæft. Það snerist aðeins um hvort réttlætanlega væri að greiða einu trúfélagi umfram önnur trúfélög – og bryti ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinna varðandi réttarstöðu trúfélaga. Hæstiréttur tók enga afstöðu til þess hvort þjóðkirkja bryti gegn þeim sem standa utan trúféflaga – enda ekki til umfjöllunar. Og Hæstiréttur tók heldur ekki afstöðu til annarra atriða en fjárhagslegra, enda heldur ekki til umfjöllunar. Og Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið til umfjöllunar.

Hitt er að gjarnan er vísað til úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu að þjóðkirkja stangist ekki á við mannréttindi. Þetta kemur svo víða fyrir í umræðunni. En það fylgja aldrei neinar tilvísanir. Hvaða úrskurðar eruð verið að vísa til? Það sem ég hef séð – og hef ég nú lesið nokkuð – er engan veginn skýrt eða afgerandi. Nánar um það síðar ef ég fæ engin svör.

Þannig að, ég spyr, hvaða úrskurður er þetta?

Svo var fróðlegur rökstuðningur kirkjunnar talsmanna vegna þessara atriða. Við spurðum ítrekað hver væru rökin fyrir niðurstöðum Hæstaréttar og Mannréttindadómstólsins. Svarið var, jú rétturinn komst að þessari niðurstöðu!

Þannig eru rökin fyrir niðurstöðunni þau að rétturinn hafi komist að þessari niðurstöðu. Er þetta rökfræðin sem kennd er í guðfræði?

Athugasemdir
 1. Hef ekki náð að lúslesa þessu, en hér er mögulega eitt af því sem kirkjunar menn hafa skoaðð:
  http://www.stjornlagarad.is/gagnasafn/skjalasafn/
  Blaðsíður 196 ff í
  Kirkjan, trúfrelsið og jafnrétti trúfélaga
  [ Steingrímur Gautur Kristjánsson fjallar um réttarreglur sem gilda um íslensku þjóðkirkjuna og samskipti trúfélaga hér á landi og í Evrópu. Greinin birtist í afmælisriti Guðmundur Ingvi Sigurðsson áttræður árið 2002. ]

 2. Ég fékk reyndar tölvupóst frá Dögg sem vísar í mál sem, ef ég skil rétt, kirkjan byggir þessar fullyrðingar á. Og, eins og mig grunaði, þá á þetta ekki við um íslensku þjóðkirkjuna, Þetta var mál gegn sænska ríkinu, fjallaði aðeins um gjöldin og féll á því lykilatriði að viðkomandi hafði möguleika á að sleppa að greiða þennan skatt, sem hann hafði ekki nýtt sér. Við eigum enga möguleika á að sleppa við þennan skatt þannig að út frá þeim forsendum má lesa að Mannréttindadómstóllinn telji íslensku ríkiskirkjuna einmitt fyrirkomulag sem er brotlegt.

  Við skulum láta reyna á þetta ef á þarf að halda.