Eftir nokkrar vikur verða greidd atkvæði um nokkur álitamál vegna nýrrar stjórnarskrár.
Í sjálfu sér er ég ánægður með að sjá að leitað er álits þjóðarinnar um helstu álitamálin.
En það gengur ekki að kjósa um grein sem myndi stangast á við aðrar, nema þá að gera breytingar til samræmis. Í það minnsta vona ég að okkur takist að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að hún verði ekki í innbyrðis ósamræmi.
Í sjöttu grein nýrrar tillögu um stjórnarskrá um jafnræði segir:
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Þetta er kýrskýrt og gefur ekkert svigrúm til ríkisrekins trúfélags eins trúarhóps.
Á kjörseðlinum er eftirfarandi valkostur:
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Að vísu er ekki tilgreint hvernig þetta ákvæði ætti að vera – sem býður upp á smá útúrsnúninga… en sleppum þeim.
Til að kjósendur geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir – ef við gefum okkur að stjórnarskráin eigi að vera í innra samræmi – þá þyrfti valkosturinn að vera þannig:
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og að ákvæði um trúfrelsi og skoðanir verði felld úr kaflanum um jafnrétti?
Þá er undarleg uppsetning á atkvæðaseðlinum að þessu leyti, þeir sem vilja samþykkja tillögur stjórnlagaráðs merkja við JÁ í öllum tilfellum nema vegna þjóðkirkjunnar, þar þarf að merkja við NEI.