Evrópusambandsaðild

Posted: september 1, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég ekki gert upp hug minn varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og ætla ekki að gera fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir. Ég sé bæði kosti og galla en veit ekki enn hvorir vega þyngra.

En umræðan er farin að breytast í hálfgert áróðursstríð þar sem blekkingar, rangfærslur og hálfkveðnar vísur virðast vera aðferðafræðin sem á að virka.

Ég ætla hér með að benda þeim sem vilja fá mig á sitt band að þetta virkar ekki á mig. Þvert á móti finnast mér rangfærslur og fullyrðingar, sem eru bara næstum því réttar, benda til þess að viðkomandi hafi ekki góðan málstað.

Ég hafði efasemdir um að hefja aðildarviðræður á þeim tímapunkti sem það var gert, án þess að setja mig mikið upp á móti þeim. En mér finnst fráleitt að hætta þeim í miðju ferli.

Að mörgu leyti hugnast mér sterk Evrópa sem mótvægi við önnur stórveldi og mér finnst áhugavert að vera með í að móta þá framtíð, hversu lítill moli sem Ísland er í því samhengi. Evrópa, með öllum sínum göllum, er talsvert framar öðrum í mannréttindamálum svo eitt atriði sé tekið sem skiptir mig máli.

Á hinn bóginn þykir mér líklegra að við getum haft það betra efnahagslega ef við stöndum utan sambandsins. En peningar eru ekki allt.

Það þýðir lítið að benda á einstaka dæmi um jaðarsvæði með eða á móti, það er heildarmyndin sem skiptir máli og hvernig aðild hefur áhrif hér.

Ég gef ekkert fyrir tal um fullveldisafsal. Ég geri mér grein fyrir að í þessu felst ákveðið framsal á valdi, eins og í flestum alþjóðasamningum, en það jafngildir ekki fullveldisafsali á meðan það er í okkar valdi að ganga úr sambandinu.

Varðandi krónuna þá finnst mér líklegt að við hefðum ekki komist eins illa út úr hruninu með Evru. En krónan var mikilvægt tæki til að bjarga því sem bjargað varð strax eftir hrun. Ég hallast að upptöku stærri gjaldmiðils til lengri tíma litið, er reyndar á því að heimurinn væri betur settur með einn sameiginlegan gjaldmiðil. Brask og spákaupmennska með gjaldeyri er fullkomlega gagnslaus atvinnugrein og skilar engu.

Á hinn bóginn er ég ekki að sjá einhverja almennu lækkun vöruverðs eða betri lífskjör með aðild, ég held að þar skipti önnur atriði máli sem mætti leysa án aðildar.

Og ekki hef ég áhyggjur að því að við afhendum útlendingum auðlindir okkar, hvað þá að ég hafi áhyggjur af því að við fáum aðgang að auðlindum annarra. Við erum í kjöraðstöðu til að nýta okkar auðlindir, ég sé enga stóra breytingu frá núverandi aðstæðum og það skiptir mig litlu hvort það er Íslendingur eða Belgi sem lifir í lúxus á Spáni eftir að hafa selt kvóta.

Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að leggjast yfir þetta fyrr en aðildarviðræðum er lokið. En ég er til í að taka rökum. En ég er ekki til í að taka blekkingum.

Athugasemdir
 1. Ásmundur Harðarson skrifar:

  Takk fyrir málefnaleg skrif sem eru sjaldgæf þegar Evrópumál eru til umræðu.

  Hvernig kemstu að þeirri niðurstöðu að við munum hafa það efnahagslega betra utan ESB?

  Regla ESB um hlutfallslegan stöðugleika mun væntanlega tryggja okkur einokun á veiðum í íslenskri landhelgi enda höfum við einir haft veiðiheimildir þar í bráðum fjóra áratugi.

  Náttúruaulindirnar verða áfram okkar þó að þær lúti lögum ESB sem ég reyndar tel vera jákvætt. Íslensk lög eru mikil hrákasmíð.

  Tollaívilnanir munu lækka vöruverð og stöðugleikinn sem fæst með ESB-aðild mun bæta samkeppnishæfni Íslands og leiða til nýrra atvinnutækifæra.

  Með upptöku evru og jafvel fyrr munu vextir innanlands snarlækka eins og gerst hefur annars staðar með ESB-aðild og upptöku evru.

  Vextir á Íslandi með krónu án gjaldeyrishafta verða að vera miklu hærri en á evrusvæðinu vegna þess litla trausts sem krónan réttilega nýtur vegna sveiflna á gengi hennar. Annars myndi fjármagn streyma úr landi.

  Með upptöku evru er ekki lengur þörf á digrum gjaldeyrisvarasjóði. Við getum þá greitt upp erlend lán og sparað okkur milljarðatugi á ári í vaxtakostnað.

  ESB-aðild og upptaka evru munu hafa áhrif til lækkunar á vöxtum erlendra lána vegna aukins trausts. Það mun spara enn frekar vaxtakostnað ríksins.

  Fleira mætti telja til. Að mínu mati eru þessi atriði mun þyngri á metunum en það sem við munum greiða til ESB umfram það sem við fáum.

  • Takk fyrir svörin,

   Ég er sem sagt ekki búinn að fara í saumana á öllum liðum – og ætla kannski ekki að gera strax – þau atriði sem ég nefni eru svona samantekt á þeim rökum sem ég hef heyrt, með og á móti. En klárlega engin endanleg niðurstaða.

   Betri lífsskjör byggi ég kannski á annars vegar á að til lengri tíma hefur hér verið lítið atvinnuleysi og mér sýnist hér vera fleiri og betri tækifæri en almennt blasir við í Evrópu. En ég er ekki að fullyrða að þau verði betri, aðeins að velta upp að þau gæti orðið það ef við spilum vel úr því sem við höfum.

   Það er rétt að íslensk lög eru að mörgu leyti hrákasmíð og þessi ótti við ákvæði frá Evrópu er ástæðulaus, málfrelsi og mannréttindi eru gott dæmi um það.

   Við getum auðvitað lækkað vexti án upptöku Evru en það er rétt að gjaldeyrisvarasjóðurinn er dýr.

   En þetta verður seint svart-hvít niðurstaða hjá mér, heldur mat á því hvort vegur þyngra.

 2. Þórhallur Kristjánsson skrifar:

  Evrópubandalagið var upphaflega stofnað til þess að reyna að halda frið milli evrópuþjóða sem hafa barist hvor við aðra í gegnum aldirnar. Á þeim stutta tíma sem ESB hefur verið til hefur þetta gengið ágætlega.

  Hjartað í ESB er svokallaður maastrict sáttmáli sem segir að milli landana skuli vera frjálst flæði vöru,fjármagns, vinnuafls og þjónustu. Við skuldbundum okkur til þess að uppfyllla þessi skilyrði í gegnum EES samninginn. Í dag erum við með gjaldeyrishöft og erum því að brjóta EES samninginn.

  Til þess að samhæfa enn frekar viðskipti milli evrópulanda var tekin sú pólitíska ákvörðun að löndin í ESB tækju upp sameiginlegan gjaldmiðill EVRU. Þetta var pólitísk ákvörðun sem var tekin þvert gegn ráðleggingum hagfræðinga.
  Ábendingar hagfræðinganna sem virtar voru að vettugi hafa nú komið í ljós. Þessar ábendingar segja að ekki gangi að hafa sameiginlega mynt ef fjármál allra landanna lúti ekki sameiginlegri stjórn.

  Til þess að útskýra þetta örlítið nánar þá hefur gengið á evrunni verið heldur veikt fyrir Þýskaland sem kemur þýskum iðnaði til góða. Veikt gengi á evru skapar atvinnu í Þýskalandi og myndar jákvæðan vöruskiptajöfnuð fyrir Þýskaland. Gengið á evrunni er hinsvegar of sterkt fyrir lönd sem eru sunnar í Evrópu. Það hefur valdið því að vöruskiptajöfnuður er neikvæður sem aftur hefur valdið mikilli skuldsetningu þessara landa. Annar fylgifiskur of sterks gengis er mikið atvinnuleysi. Sum lönd í suður Evrópu eru að glíma við atvinnuleysi í kringum 25%.

  Það eru til tvær leiðir til þess að laga samkeppnishæfni landa. Önnur er að láta gjaldmiðillinn falla með tilliti til annara gjaldmiðla. Hin er að lækka öll laun með handafli. Þetta er verið að reyna að gera í Suður Evrópu og Írlandi. Það er mjög erfitt að lækka laun með handafli.Skatttekjur viðkomandi landa lækka við þá aðgerð. Löndin sem nauðsynlega þurfa að lækka launin búa einnig við miklar ríkisskuldir og fjárlagahalla sem stækkar við lækkandi skatttekjur.

  Ef evran á að lifa af þá þarf ESB að breytast í ríkjasamband þar sem öll fjárlög verða miðlæg. Þannig eru líkur á því að í framtíðinni verði fjárlög landanna ákvörðuð í Brussel það er að segja ef ætlunin er að halda áfram með evruna. Það eru fleiri möguleikar í boði eins og til dæmis að hafa tvær gerðir af evrum á mismunandi gengi. Eina fyrir suður Evrópu löndin og aðra fyrir norður.

  Í dag erum við að sækja um aðild að sambandi sem allar líkur eru á að taki miklum breytingum næstu misserin. Hvernig þær breytingar verða vitum við ekki en ég tel alveg ljóst að það verða miklar breytingar.

  Vextir eru mjög mismunandi á evrusvæðinu. Þetta sést einfaldlega með því að bera saman vexti á Þýskum ríkisskuldabréfum og ríkisskuldabréfum suður Evrópu landanna. Þar munar mörgum prósentustigum.

  Ég mundi telja æskilegra að bíða með ESB umsókn þar til ESB hefur fundið lausnina sem þeir ætla að keyra á. Hún virðist hvergi vera í sjónmáli.

  • Takk, eitthvað þekki ég til forsögunnar, en hún skiptir kannski ekki öllu… aðalatriðið er kannski að meta hvað aðild þýðir fyrir okkur.

   Ég efast reyndar um þá fullyrðingu að miðlæg fjárlög séu forsenda þess að Evran lifi af. Ekki veit ég heldur hvers vegna það ætti að vera gefið að sambandið breytist á næstu árum, auðvitað ekki útilokað.

   En ég sé enga leið að meta þetta aðra en að skoða hvað er í boði. Ef okkur líst vel á það mæli ég með að ganga inn. Ef ekki greiði ég atkvæði á móti. Ef sambandið breytist þá eigum við alltaf þann valkost að ganga út.

   Mér finnst ekki ráðlegt að taka ákvörðun út frá getgátum.

 3. Þórhallur Kristjánsson skrifar:

  José Manuels Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB sagði um síðastliðna helgi.

  In a speech at a Yale Law School conference in The Hague, Mr. Barroso said the EU was facing a „make-or-break moment“ because of the economic crisis, which has „shown the limits of individual action by nation states.“

  „The crisis has made it clear that we must not only complete the economic and monetary union, but also pursue greater economic integration and deeper political and democratic union with appropriate mechanisms of accountability,“ he said

  Það verða að vera miklar breytingar á ESB ef evran á að lifa af.

  http://www.marketwatch.com/story/barroso-signals-need-for-eu-treaty-changes-2012-09-01