Posts Tagged ‘Evrópusambandið’

Ég hef verið svona á báðum áttum varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.. kannski hallast í áttina að vera frekar jákvæður án þess að vera mjög heitur eða sannfærður.

Í ljósi þróunar síðustu vikna og mánaða þá er ég orðinn sannfærður um að sterk, sameinuð Evrópa er mikilvægt mótvægi við önnur stórveldi, stórveldi sem virðast stefna frá mannréttindum og lýðræði – yfir í fáfræði, fordóma og einræði.

Þetta snýst ekki um einhverjar krónur, aura eða Evrur til eða frá. Þetta snýst ekki um hvort skrifræðið er meira að minna innan eða utan ESB. Það skiptir mig ekki öllu hvers lensk vegabréf þeirra einstaklinga eru sem græða á sjávarútvegi og flytja ágóðann úr landi. Og ég er ekkert sérstaklega trúaður á að ekki sé hægt að halda stjórnun fiskveiða innan skynsamlegra marka. Ég held meira að segja að við séum betur sett með því að geta haft áhrif á lög og reglur og stefnu, frekar en að þurfa að taka möglunarlaust við til afgreiðslu.

Ekki svo að skilja að mér finnist allt fullkomið eða til fyrirmyndar í Evrópu. En þarna virðist einfaldlega vera besta varnarlína fyrir mannréttindi og hreinlega siðað þjóðfélag, ekki bara stök smáríki, heldur ríkjasamband sem hefur eitthvert vægi.

† Jú, ég hef verið mjög ákveðinn í að við áttum að klára umsóknina fyrst hún var farin af stað, en ég var ekki sannfærður um að fara af stað á sínum tíma. Mér finnst auðvitað forkastanlegt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaupast svo undan merkjum. En það er önnur saga, (aðrar sögur) sem hafa með verklag og loforð að gera.

Evrópusambandið skelfur..

Posted: júní 6, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ef marka má forsetann þá er enn ein krísan yfirvofandi hjá Evrópusambandinu. Þetta mögulega áfall felst í þeirri ógn ef svo færi að Ísland skyldi nú hafna aðild að sambandinu. Út frá þessum ótta reiknar hann svo út að Evrópusambandið hafi ekki áhuga á að klára viðræðurnar.

Ekki svo að skilja að ég efist um að Evrópusambandið hafi tilbúna neyðaráætlun til að bregðast við þessu hugsanlega krísuástandi sem gæti skapast Ísland skyldi hafna aðild. Ég er svona einhvern veginn meira að efast um að sambandið myndi líta á þetta sem eitthvert sérstakt áfall. Kannski meira í þá áttina að þeim sé nokkurn veginn sléttsama, kannski einhver pirringur að þjóð sé að sækja um aðild án þess að hugur fylgi máli. En að höfnun smáþjóðar vegi yfirleitt eitthvað á móti ákvörðunum þeirra sem hafa sóst eftir og þegið aðild breytir auðvitað sáralitlu – svona kannski líkara því að missa af þúsundkalli eftir að hafa grætt milljónir… eða þannig.

En svo er alltaf hinn möguleikinn.

Sem er að ekkert sé að marka kallinn.

Þessi belgingur að við séum svo stórmerkileg að það yrði öðrum þjóðum áfall ef við skyldum hafna því að leika með minnir nefnilega illa á ýmis vandræðaleg kjánahrolls ummæli fyrir nokkrum árum um hversu merkilegir við Íslendingar séum.

Evrópusambandsaðild

Posted: september 1, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég ekki gert upp hug minn varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og ætla ekki að gera fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir. Ég sé bæði kosti og galla en veit ekki enn hvorir vega þyngra.

En umræðan er farin að breytast í hálfgert áróðursstríð þar sem blekkingar, rangfærslur og hálfkveðnar vísur virðast vera aðferðafræðin sem á að virka.

Ég ætla hér með að benda þeim sem vilja fá mig á sitt band að þetta virkar ekki á mig. Þvert á móti finnast mér rangfærslur og fullyrðingar, sem eru bara næstum því réttar, benda til þess að viðkomandi hafi ekki góðan málstað.

Ég hafði efasemdir um að hefja aðildarviðræður á þeim tímapunkti sem það var gert, án þess að setja mig mikið upp á móti þeim. En mér finnst fráleitt að hætta þeim í miðju ferli.

Að mörgu leyti hugnast mér sterk Evrópa sem mótvægi við önnur stórveldi og mér finnst áhugavert að vera með í að móta þá framtíð, hversu lítill moli sem Ísland er í því samhengi. Evrópa, með öllum sínum göllum, er talsvert framar öðrum í mannréttindamálum svo eitt atriði sé tekið sem skiptir mig máli.

Á hinn bóginn þykir mér líklegra að við getum haft það betra efnahagslega ef við stöndum utan sambandsins. En peningar eru ekki allt.

Það þýðir lítið að benda á einstaka dæmi um jaðarsvæði með eða á móti, það er heildarmyndin sem skiptir máli og hvernig aðild hefur áhrif hér.

Ég gef ekkert fyrir tal um fullveldisafsal. Ég geri mér grein fyrir að í þessu felst ákveðið framsal á valdi, eins og í flestum alþjóðasamningum, en það jafngildir ekki fullveldisafsali á meðan það er í okkar valdi að ganga úr sambandinu.

Varðandi krónuna þá finnst mér líklegt að við hefðum ekki komist eins illa út úr hruninu með Evru. En krónan var mikilvægt tæki til að bjarga því sem bjargað varð strax eftir hrun. Ég hallast að upptöku stærri gjaldmiðils til lengri tíma litið, er reyndar á því að heimurinn væri betur settur með einn sameiginlegan gjaldmiðil. Brask og spákaupmennska með gjaldeyri er fullkomlega gagnslaus atvinnugrein og skilar engu.

Á hinn bóginn er ég ekki að sjá einhverja almennu lækkun vöruverðs eða betri lífskjör með aðild, ég held að þar skipti önnur atriði máli sem mætti leysa án aðildar.

Og ekki hef ég áhyggjur að því að við afhendum útlendingum auðlindir okkar, hvað þá að ég hafi áhyggjur af því að við fáum aðgang að auðlindum annarra. Við erum í kjöraðstöðu til að nýta okkar auðlindir, ég sé enga stóra breytingu frá núverandi aðstæðum og það skiptir mig litlu hvort það er Íslendingur eða Belgi sem lifir í lúxus á Spáni eftir að hafa selt kvóta.

Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að leggjast yfir þetta fyrr en aðildarviðræðum er lokið. En ég er til í að taka rökum. En ég er ekki til í að taka blekkingum.