Evrópa, mikilvægari en nokkru sinni

Posted: janúar 31, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég hef verið svona á báðum áttum varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.. kannski hallast í áttina að vera frekar jákvæður án þess að vera mjög heitur eða sannfærður.

Í ljósi þróunar síðustu vikna og mánaða þá er ég orðinn sannfærður um að sterk, sameinuð Evrópa er mikilvægt mótvægi við önnur stórveldi, stórveldi sem virðast stefna frá mannréttindum og lýðræði – yfir í fáfræði, fordóma og einræði.

Þetta snýst ekki um einhverjar krónur, aura eða Evrur til eða frá. Þetta snýst ekki um hvort skrifræðið er meira að minna innan eða utan ESB. Það skiptir mig ekki öllu hvers lensk vegabréf þeirra einstaklinga eru sem græða á sjávarútvegi og flytja ágóðann úr landi. Og ég er ekkert sérstaklega trúaður á að ekki sé hægt að halda stjórnun fiskveiða innan skynsamlegra marka. Ég held meira að segja að við séum betur sett með því að geta haft áhrif á lög og reglur og stefnu, frekar en að þurfa að taka möglunarlaust við til afgreiðslu.

Ekki svo að skilja að mér finnist allt fullkomið eða til fyrirmyndar í Evrópu. En þarna virðist einfaldlega vera besta varnarlína fyrir mannréttindi og hreinlega siðað þjóðfélag, ekki bara stök smáríki, heldur ríkjasamband sem hefur eitthvert vægi.

† Jú, ég hef verið mjög ákveðinn í að við áttum að klára umsóknina fyrst hún var farin af stað, en ég var ekki sannfærður um að fara af stað á sínum tíma. Mér finnst auðvitað forkastanlegt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaupast svo undan merkjum. En það er önnur saga, (aðrar sögur) sem hafa með verklag og loforð að gera.

Lokað er á athugasemdir.