Posts Tagged ‘ESB’

ESB umræðan á sama plain og kukl

Posted: mars 19, 2015 in Umræða
Efnisorð:

Félagi minn sagði einu inni að honum hafi fundist hann vera að verða veikur og hafi gripið til þess ráðs að setja matarlím í eyrun.. og viti menn, hann varð bara ekkert veikur. Fyrir honum var þetta sönnun þess að það að setja matarlím í eyrun kæmi í veg fyrir flensu. Annars sagðist hafa gleymt að setja sítrónu í rassinn eitt kvöldið og bara orðið svona fárveikur daginn eftir. Auðvitað staðfesti þetta fyrir honum að sítrónur væru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir veikindi.

Auðvitað er þetta tómt rugl og sannar nákvæmlega ekki neitt – og afsannar ekki heldur.

Mér er oft hugsað til þeirra þegar ég er að lesa rökin með og á móti aðild að ESB.

Sumir nefna Grikki sem endanlega sönnun þess að allt geti farið til fjandans hjá aðilidarríkjum ESB.

Aðrir nefna td. Eistland til sönnunar um hversu mikils virði það sé að vera aðili að ESB.

Í hvorugu tilfellinu vitum við hvað hefði gerst að öðrum kosti. Það er ekkert sem segir okkur að Grikkir væru betur settir utan ESB, jafnvel eru mjög sterkar vísbendingar um að þeir væru enn verr settir.

Það er heldur ekkert sem segir okkur að Eistar séu betur settir innan ESB en utan, það er alveg eins líklegt að þarna sé duglegt fólk sem hefur náð tökum á efnahagnum og hefði gert hvort sem er.

Þá hjálpar heldur ekkert að segja að krónan hafi kostað okkur svo og svo mikið í hruninu eða bjargað svo og svo miklu eftir hrun. Við vitum einfaldlega ekkert um það hvernig hefði farið að öðrum kosti.

Það eina sem skiptir máli er hvort okkur farnast betur innan eða utan ESB í framtíðinni. Og það má heldur betur deila um hvernig má skilgreina að „farnast betur“.

Aðalatriðið er að þetta verður alltaf mat, það þarf að vega og meta kosti og galla og taka afstöðu út frá því.

Og sama hvor leiðin er farin, við fáum aldrei svarið við hvað hefði gerst ef hin leiðin hefði verið farin. Svona óbærilegur léttleiki…

Vísvitandi ósannindi?

Posted: mars 17, 2015 in Umræða
Efnisorð:

Ég heyrði viðtal við forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum þar sem hann hélt því ítrekað fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að reyna að ljúka aðildarviðræðum við ESB væru tilraun til að ljúka málinu „í góðu“.

Nú stóð til að þingið ræddi málið í fyrra og það kallaði á hörð mótmæli að verið væri að ræða að draga umsókn Íslands til baka. Sérstaklega fór illa í fólk að fullyrðingar beggja stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu væru allt í einu gleymdar og grafnar – marklaus kosningaloforð.

Þannig veit forsætisráðherra fullvel að það að draga umsókninga án þjóðaratkvæðagreiðslu – og þar fyrir utan án nokkurrar umræðu – gat aldrei orðið til þess að ljúka málinu „í góðu“.

Ég velti fyrir mér hvers vegna hann er að fullyrða svona.

Honum var full ljóst að þetta myndi kalla á hörð viðbrögð. Nú er ég gjarnan ósammála forsætisráðherra og finnst sérstaklega hvimleiður ávani hans að snúa umræðum á hvolf. En það hvarflar ekki að mér að hann sé eitthvað sérstaklega tregur eða hafi greind á við [fyllist að eigin vali].

Ekki var hann mögulega að vísa til að þetta „í góðu“ ætti við ESB, þar er engin ástæða til að ætla að það kostaði illindi frá ESB þó þingið fengið að ræða málið eða að staðið yrði við fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá sé ég ekki betur en að það sé bara ein möguleg skýring eftir. Hann sagði vísvitandi ósatt.

Eða hvað?

Að reka ráðherra

Posted: mars 15, 2015 in Uncategorized
Efnisorð:,

Gefum okkur að við séum að reka stofnun/fyrirtæki og/eða sjáum um að ráða fólk til starfa.

Við viljum væntanlega standa okkur vel og ráða besta fólkið sem völ er á.. við könnum væntanlega fyrri störf, jafnvel menntun og ræðum við þær/þá sem koma til greina um hvernig þær/þeir vilji sinna starfinu.

Gefum okkur að tilvonandi starfsmaður sem okkur líst vel á gefi okkur ákveðin fyrirheit um hvernig hann/hún ætli að sinna starfinu, hvaða stefnu hún/hann ætli að taka og hvaða verkefnum hann/hún ætli að sinna.

Gefum okkur svo að viðkomandi sér ráðin(n) og vinni svo þvert gegn gefnum fyrirheitum.

Ég ímynda mér að við segjum viðkomandi upp störfum og leitum að öðrum.

Ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af framgöngu ráðherra í samskiptum við ESB:

Nú má vera – og er líkast til rétt – að aðgerð ráðherra er vita marklaus og ber kannski annað hvort frekar vott um ekkert sérstaka greind – nú, eða þá sjúklega þörf til að vekja á sér athygli.

Það breytir því ekki að hann er ráðinn til að gegna ákveðnu starfi. Hann gaf vinnuveitendum ákveðin fyrirheit áður en hann var ráðinn til starfsins. Og nú hefur hann að minnsta kosti gert sitt besta til að ganga þvert gegn þeim sömu fyrirheitum. Ég er nokkuð viss um að almennum starfsmanni í flestum stofnunum/fyrirtækjum biði einfaldlega uppsagnarbréf.

Af hverju ætti starf ráðherra að vera eitthvað öðru vísi? Eru einhver rök fyrir því að það sé sérstaklega verndað?

Björn fattar ekki…

Posted: mars 24, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:,

Björn Bjarnason spyr í pistli á laugardaginn á bjorn.is hvort einhver hafi spurt þá sem mæta á samstöðufundina á Austurvelli hvers vegna þeir mæti og í hvaða tilgangi þeir komi á fundinn.

Það er eiginlega með ólíkindum að einföld krafa fundarmanna hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá Birni.

Eitt eiga þeir sem mæta nefnilega sameiginlegt. Þeir vilja að fólk vill fá að kjósa. Eins og lofað var fyrir kosningar.

Það vill fá að taka sjálft afstöðu, meðal annars til þeirra atriða sem Björn nefnir í pistli sínum.

Og nefnilega margra annarra sem Björn nefnir ekki.

Því ef það er svona deginum ljósara að við eigum að slíta aðildarviðræðum, hvers vegna var þá verið að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar?

Þetta er nú ekki flókið.

PS. Nei, ég er ekki „á móti“ Birni og mér líkar engan veginn illa við hann. Hann gerði margt gott sem ráðherra, ég bara skil ekki þennan pistil.

Það eru rök með og á móti aðild að ESB… hversu sterk þau vega á endanum ræðst auðvitað af því hvað kemur út úr aðildarviðræðunum, að því gefnu að það gefist nú ráðrúm til að klára þær.

Ég játa að fyrir nokkrum árum hafði ég talsverðar efasemdir um aðild að ESB, amk. efnahagslegar, en hef alltaf séð sterka Evrópu sem mikilvægt mótspil gegn öðrum stórveldum – og okkar lítilvæga lóð ætti ágætlega heima þarna.

En ég hef fylgst nokkuð með umræðunni um ESB aðildina og satt að segja þá eru fylgjendur aðilar að vinna þá umræðu – og það talsvert afgerandi. Þeir hafa verið málefnalegri, hafa svarað fullyrðingum andstæðinganna málefnalegar og bent á atriði sem skipta máli og standast skoðun.

Nei, nei, þetta er ekkert svart og hvítt, auðvitað eru til málefnalegir andstæðingar ESB og auðvitað er hægt að finna dæmi um ómálefnalegan stuðning. En á heildina litið hef ég hallast meira og meira að því að við eigum heima í ESB.. ég tek einfaldlega mark á rökum þeirra sem eru fylgjandi, þeir hafa staðið sig betur.

Eitt það sem mér finnst hjákátlegast við fullyrðingar andstæðinga ESB er þegar þeir spila á einhverja tilfinningasemi og tala um fullveldisafsal.

Þetta er auðvitað tóm tjara. Aðild að ESB felur ekki í sér fullveldisafsal á meðan við höfum fullt vald yfir þeirri ákvörðun að segja okkur úr sambandinu ef og þegar okkur sýnist. Þetta er svona einfalt.

Það að samþykkja samninga og gangast undir að hlýta ákveðnum reglum sambandsins felur ekki í sér fullveldisafsal frekar en aðrir alþjóða samningingar. Ekki frekar en aðild okkar að Sameinuðu Þjóðunum, Mannréttindadómstólnum, Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna svo eitthvað sé nefnt. Og ekki frekar en aðila að EES.. sem mér sýnist að margir andstæðingar ESB hafi verið hlynntir, en tali nú um fullveldisafsal í öðru hverju orði þegar ESB er annars vegar.

Og við værum ekki að afsala okkur fullveldi frekar en Bretar, Danir, Þjóðverjar, Hollendingar eða aðrar þjóðir ESB. Eða ætlar einhver að halda því fram að þetta séu ekki fullvalda ríki? Ef svo er, þá er skýringin á hugtakinu „fullveldi“ að minnsta kosti fullkomlega marklaust.

Nei, kæru ESB andstæðingar… gerið mér greiða og hættið að spila á þessa tilfinningasemi. Þetta er beinlínis hallærislegt.

Komið frekar með alvöru rök og málefnalega umræðu. Þá skal ég hlusta.

Það er vanmetinn kostur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða betri rök koma fram. Þetta er sérstaklega mikill kostur þegar stjórnendur og stjórnmálamenn eru annars vegar. Það er einfaldlega ekkert að því að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða betri rök koma fram.

Það er svo aftur á móti jafn mikill ókostur að vera að skipta um skoðun þegar ekkert hefur breyst.

Það er ekki svo langt síðan núverandi forystumenn stjórnarflokkanna voru hlynntir Evrópuaðild, Evru og / eða þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Nú eru þeir allir á móti, en það er engin leið að skilja hvers vegna. Það hefur ekkert breyst. Það hafa engar upplýsingar komið fram sem breyta nokkru. Og það hafa engin rök verið færð sem réttlæta breytta skoðun.

Samt eru þeir allir (flestir) búnir að skipta um skoðun.

Kannski er bara einfaldast að doka aðeins við. Kannski verða þeir allir búnir að skipta um skoðun aftur – svona kannski eftir ár eða svo.