Posts Tagged ‘aðild’

Evrópusambandsaðild

Posted: september 1, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég ekki gert upp hug minn varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og ætla ekki að gera fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir. Ég sé bæði kosti og galla en veit ekki enn hvorir vega þyngra.

En umræðan er farin að breytast í hálfgert áróðursstríð þar sem blekkingar, rangfærslur og hálfkveðnar vísur virðast vera aðferðafræðin sem á að virka.

Ég ætla hér með að benda þeim sem vilja fá mig á sitt band að þetta virkar ekki á mig. Þvert á móti finnast mér rangfærslur og fullyrðingar, sem eru bara næstum því réttar, benda til þess að viðkomandi hafi ekki góðan málstað.

Ég hafði efasemdir um að hefja aðildarviðræður á þeim tímapunkti sem það var gert, án þess að setja mig mikið upp á móti þeim. En mér finnst fráleitt að hætta þeim í miðju ferli.

Að mörgu leyti hugnast mér sterk Evrópa sem mótvægi við önnur stórveldi og mér finnst áhugavert að vera með í að móta þá framtíð, hversu lítill moli sem Ísland er í því samhengi. Evrópa, með öllum sínum göllum, er talsvert framar öðrum í mannréttindamálum svo eitt atriði sé tekið sem skiptir mig máli.

Á hinn bóginn þykir mér líklegra að við getum haft það betra efnahagslega ef við stöndum utan sambandsins. En peningar eru ekki allt.

Það þýðir lítið að benda á einstaka dæmi um jaðarsvæði með eða á móti, það er heildarmyndin sem skiptir máli og hvernig aðild hefur áhrif hér.

Ég gef ekkert fyrir tal um fullveldisafsal. Ég geri mér grein fyrir að í þessu felst ákveðið framsal á valdi, eins og í flestum alþjóðasamningum, en það jafngildir ekki fullveldisafsali á meðan það er í okkar valdi að ganga úr sambandinu.

Varðandi krónuna þá finnst mér líklegt að við hefðum ekki komist eins illa út úr hruninu með Evru. En krónan var mikilvægt tæki til að bjarga því sem bjargað varð strax eftir hrun. Ég hallast að upptöku stærri gjaldmiðils til lengri tíma litið, er reyndar á því að heimurinn væri betur settur með einn sameiginlegan gjaldmiðil. Brask og spákaupmennska með gjaldeyri er fullkomlega gagnslaus atvinnugrein og skilar engu.

Á hinn bóginn er ég ekki að sjá einhverja almennu lækkun vöruverðs eða betri lífskjör með aðild, ég held að þar skipti önnur atriði máli sem mætti leysa án aðildar.

Og ekki hef ég áhyggjur að því að við afhendum útlendingum auðlindir okkar, hvað þá að ég hafi áhyggjur af því að við fáum aðgang að auðlindum annarra. Við erum í kjöraðstöðu til að nýta okkar auðlindir, ég sé enga stóra breytingu frá núverandi aðstæðum og það skiptir mig litlu hvort það er Íslendingur eða Belgi sem lifir í lúxus á Spáni eftir að hafa selt kvóta.

Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að leggjast yfir þetta fyrr en aðildarviðræðum er lokið. En ég er til í að taka rökum. En ég er ekki til í að taka blekkingum.