Posts Tagged ‘Prófkjör’

Ég styð dótturina, Alexöndru Briem, (að sjálfsögðu) í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki bara vegna þess að hún er dóttir mín, heldur einfaldlega vegna þess að hún á fullt erindi í borgarstjórn.

Þetta er ekki flókið, hún er málefnaleg, sem þýðir að hún kynnir sér málefni áður en hún tekur afstöðu og hlustar á rök með og á móti.

Hún er dugleg, hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Pírata, störfin þar eru gott dæmi um að hún kemur hlutum í verk og klárar þau verkefni sem þar að vinna.

Heiðarleg og vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag.

Sem sagt, allt sem við þurfum á að halda hjá þeim sem við viljum að vinni fyrir okkur.

Nú er það reyndar þannig að það er mikið úrval af góðu fólki í framboði í prófkjörinu og ég hvet alla til að kynna sér frambjóðendur og taka þátt.

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“