Posts Tagged ‘mannréttindasáttmáli Evrópu’

Ég var frummælandi á fundi Stjórnarskrárfélagsins um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá síðasta miðvikudag. Talsmenn kirkjunnar töluðu nokkuð oft um að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði úrskurðað að þjóðkirkjuákvæðið væri ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar þau voru innt frekari skýringa var lítið um svör og má jafnvel segja að þau hafi farið undan í flæmingi. Þannig að ég fór að kanna málið. Í stuttu máli þá fann ég lítið og setti inn blogg færslu þar sem ég óskaði skýringa. Engin komu svörin, þrátt fyrir að ég benti fundarfélögum mínum á færsluna, fyrr en ég auglýsti eftir þessu í Silfri Egils í gær. Þá kom tölvupóstur sem benti á mál þessu til stuðnings.

Bent var á mál Darby gegn Svíþjóð (skýrsla Mannréttindanefndar Evrópu nr. 11581/85).

Fyrir það fyrsta segir í úrskurðinum í þessu máli að 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (um samvisku og trúarbrögð) hafi verið brotin:

The Commission concludes, by 10 votes to 3, that there has been a violation of Article 9 (Art. 9) of the Convention

En skattgreiðslurnar sem slíkar eru ekki taldar brot í Svíþjóð. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðu segja hins vegar skýrt að fyrirkomulagið hér á Íslandi er brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

The obligation (to pay church contributions) can be avoided if they choose to leave the church, a possibility which the State legislation has expressly provided for. By making available this possibility, the State has introduced sufficient safeguards to ensure the individual’s freedom of religion.“

Sænska ríkið vinnur þetta mál sem sagt vegna þess að í Svíþjóð er mögulegt fyrir þá sem standa utan trúfélaga að lækka skatta sína sem nemur gjaldi til trúfélaga. Stefnandi hafði ekki nýtt sér þetta vegna annarrar skráningar („resident“).

Á Íslandi er fyrirkomulagið þannig að ég greiði nákvæmlega sömu krónutölu í skatt hvort sem ég er í trúfélagi eða ekki – og nákvæmlega sömu krónutölu og maðurinn-í-næsta-húsi sem er í þjóðkirkjunni og hefur forsendur (tekjur, eignir…).

Gott og vel, ég er ekki lögfræðingur. En ég er læs. Og ég held því fram að fyrirkomulagið hér á Íslandi sé brot á Mannréttindasáttmála Evrópu. Og mér sýnist ég hafa ansi sterk rök.