Posts Tagged ‘stjórnlagaráð’

Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.

Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.

Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?

Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.

Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.

En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.

Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.

Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.

Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.

Rekstur kirkjunnar kostar fjóra milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum.

Þá er þjónusta presta verðlögð sérstaklega.

Prestar eru á margföldum byrjunarlaunum miðað við aðrar stéttir – fyrir utan greiðslur fyrir athafnir.

Kirkjan segir afdráttarlaust að henni beri ekki að veiti fólki þjónustu nema allir aðilar séu þar meðlimir. Nema þegar hún er í kosningabaráttu, þá segir hún að henni beri skylda til að þjóna öllum.

Kirkjan neitar öðrum söfnum  (ma. kristnum) um afnot af húsnæði sem ríkið á, en eru í umsjón kirkjunnar.

Prestar geta neitað fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Vill einhver (annar en prestar) hafa ríkiskirkjuna áfram?

Skrýtnar heimasætur

Posted: október 16, 2012 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég játa að mér finnst það hálf furðuleg ákvörðun að ætla að sitja heima næsta laugardag þegar kosið verður um tillögur stjórnlagaráðs.

Þetta er ekki flókið mál sem verið er að kjósa um. Það er hægt að kynna sér galla núverandi stjórnarskrár á nokkrum mínútum og það þarf ekki mikið lengri tíma til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Fimmtán til tuttugu mínútur ættu að nægja til að geta tekið afstöðu og kannski einn til tveir tímar til að kynna sér málið þokkalega vel.

Þeir sem eru ósáttir við ferlið eða kosningarnar eða spurningarnar geta komið því á framfæri með því að mæta og skila auðu.

Þeir sem eru ósáttir við tillögur stjórnlagaráðs geta komið því á framfæri með því að mæsta á kjörstað og segja „Nei“ við fyrstu spurningunni, að minnsta kosti.

Þeir sem eru ósáttir við gömlu stjórnarskrána og finnast tillögur stjórnlagaráðs til mikilla bóta hafa svo auðvitað þann kost að segja „Já“ á laugardag við tillögum stjórnlagaráðs – og vonandi „Nei“ við þjóðkirkju.

En að sitja heima er einhvers konar rænuleysi og sofandaháttur. Ef kjörsóknin verður minni en í þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum þá er fjöldi fólks að sleppa því að taka afstöðu í svona mikilvægu máli sem aftur tekur afstöðu í almennum kosningum.

Valkostirnir í almennum kosningum eru miklu fjölbreyttari og það er miklu tímafrekar að kynna sér valkosti þar og taka málefnalega afstöðu en í þessu, tiltölulega, einfalda máli.

Að nenna ekki að taka afstöðu í stjórnarskrármálinu en nenna að eyða tíma í almennar kosningar er eiginlega fráleit afstaða. Stjórnarskráin skiptir miklu meira máli og „trompar“ almennar kosningar. Kosningar um stjórnarskrána er svona á 70 ára fresta á meðan kosið er nánast annað hvert ár til þings eða sveitarstjórnar.

Svo eru hinir, sem kannski kjósa í almennu kosningunum án þess að kynna sér hvað er í boði. Getur það verið?