Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.
En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.
En hvað er þá til ráða?
Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?
Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?
Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.
Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.
Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.
Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.
Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.
Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.
Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.
Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.
En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.
Er þetta ekki bara frábær hugmynd??
Versti gallinn við það fyrirkomulag er hluti af því sem þú nefnir fyrst sem vandamál við beinu lýðræði.
Þeir sem eru líklegastir til að setja sig inn í mál og kynna sér það, eru þeir sem hafa beina hagsmuni af því. Sérstaklega ef það eru flókin og erfið mál.
Þannig eru t.d. kvótaeigendur líklegastir til að setja sig inn í og kjósa um kvótamál, t.d.
Auðvitað eru undantekningar, en þetta er samt alltaf að fara að vera meira vandamál en í beinu lýðræði.
Gallinn við beint lýðræði virðist vera að fólk kýs án þess að nenna að setja sig inn í málin.
Það má hins vegar kannski reikna með að hagsmunir séu ólíkir og þannig jafnist út hverjir setja sig inn í mál og kynni sér.
Til dæmis eru kvótaeigendur til þess að gera örfáir á móti ansi mörgum sem hafa bæði áhuga og hagsmuni af breyttum reglum við nýtingu auðlinda. Á meðan talsmenn kvótaeigenda virðast hlutfallslega nokkuð margir í núverandi fulltrúalýðræði..