Þegar biskup kvartar undan einelti..

Posted: janúar 3, 2018 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er í tísku að svara málefnalegri umræðu með því að hjóla annars vegar í þá sem gagnrýna og hins vegar að reyna að mála þá sem þurfa að svara fyrir málefnalega gagnrýni sem einhvers konar fórnarlömb.

Nýlega hækkuðu laun biskups langt umfram launaþróun. Þegar samningsómyndin um laun presta var gerður (1997) voru laun biskups 262.400 og launavísitala 157,9. Launavísitala í ársbyrjun 2017 var 592,4 og hefðu laun biskups því átt að vera 984.457 í ársbyrjun 2017.

En, nei, biskup fer fram á launahækkun og fær laun upp á 1.553.359.

Skýringarnar voru þær að það væri svo íþyngjandi að þurfa að borga 90.000 leigu fyrir 400 fermetra íbúð á besta stað í bænum.

Þá var nefnt til réttlætingar að biskupinn væri forstjóri ríkisstofnunar. Sem er auðvitað skondið í ljósi þess að forsvarsmenn kirkjunnar hamast þess á milli við að halda því fram að kirkjan sé ekki ríkisstofnun.

Gott og vel, þetta eru hefðbundnir útúrsnúningar þeirra sem hafa vondan málstað að verja.

En málsvörn biskups gekk gjörsamlega fram af mér þegar farið var að kvarta yfir því að verið væri að leggja biskup í einelti. Þvílík dómsdags vanvirðing við þolendur raunverulegs eineltis.

Og höfum í huga að þetta er fólk sem telur sig sérfræðinga í að aðstoða fólk í erfiðleikum… „já, væna mín (vinur minn) ég skil svo vel hvað þú ert að ganga í gegnum, ég þurfti að ganga í gegn um nákvæmlega sams konar erfiðleika þegar launin mín voru hækkuð um meira en hálfa milljóna á mánuði umfram aðra“.

PS. jú, ég veit að biskup kvartaði ekki sjálf undan eineltinu, einhverjir „stuðningsmenn“ tóku það að sér, en hún hefur heldur séð sóma sinn í að fordæma þetta tal.

Lokað er á athugasemdir.