[Gefum okkur að trúfélög væru óháð ríkinu og rekin eins og hver önnur áhugafélög… svona samtal væri eiginlega algjörlega út úr kú]
Ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki fín hugmynd að taka eitthvert áhugafélag um yfirnáttúrulegar verur og láta ríkissjóð um reksturinn, kannski skella nokkrum milljörðum í þetta á ári.. ráða starfsfólk á fantagóðum launum, nokkuð margföldum launum sjúkraliða, lögreglumanna, sálfræðinga o.s.frv… og láta þá fá jarðir til að búa á og leyfa þeim að hirða hlunnindin.
Nei, er það ekki algjör óþarfi? Getur fólk ekki sinnt þessum áhugamálum bara á eigin forsendum… á þetta að hafa eitthvert hlutverk?
Já, já, þau myndu sjá um alls kyns tímamótaathafnir, nafn, manndómsvígslur, hjónavígslur.
OK, og gera þetta ókeypis?
Nei, nei, þeir sem nota þjónustuna greiða auðvitað vel fyrir.
Svona eins og fólk gerir hvort sem er?
Já, já… og svo kannski sjá um að aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.
Eins og sálfræðingar?
Já, nákvæmlega.
Og eru þeir þá menntaðir sem sálfræðingar?
Nei, ekki beint, en mæta kannski í einn kúrs.
Nú, skil ég ekki, er ekki betra að til þess menntaðir sérfræðingar sjái um svona?
En þetta eru svo krúttleg félög, þau trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru sem fylgist með okkur og grípi inn í aðstæður hjá okkur ef við biðjum nægilega vel.
Eru einhverjar upplýsingar staðreyndir sem styðja þessar hugmyndir?
Nei, nei, þá þyrfti ekki að byggja á að trúa þessu…
Og hvað, viltu að ríkið reki öll félög sem trúa á yfirnáttúrulegar verur?
Nei, auðvitað ekki, við veljum bara eitt. Það má nota þetta í siðferðilegum tilgangi. Þetta sem ég er með í huga trúir því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað heiminn, bara svona rétt si svona á nokkrum dögum fyrir ekki svo löngu síðan og að engin þróun hafi átt sér stað. Veran var víst mjög refsiglöð framan af fann allt í einu upp á því að barna konu með sjálfri sér fyrir tvö þúsund árum, látið drepa sig og rísa svo upp frá dauðum svo hún gæti fyrirgefið fólk það sem það gerði rangt.
OK, ekki veit ég hvað þetta fólk hefur verið að reykja, en þú nefndir siðferðilegan tilgang, kannski það sé einhver flötur..
Já, já, meðlimirnir hafa mjög skýrar reglur um öll siðferðileg mál sem eru vel skilgreind í einni bók.
Gott og vel, og eitthvað sem má fara eftir?
Nei, ekki beint, sumir telja sig reyndar taka öllu bókstaflega, en það er svolítið snúið því reglurnar eru talsvert mótsagnakenndar… og þeir sem segjast taka öllu bókstaflega taka nú eiginlega bara því sem þeim sjálfum hentar hverju sinni. Hins vegar er mun geðfelldari hópur sem notar sögurnar og reglurnar sem dæmisögur til að gefa skýr siðferðileg skilaboð.
Já, það er eitthvað, en hvernig er hægt að vita hvernig á að túlka sögurnar?
Jú, það er nú bara miðað við hvað samfélaginu finnst siðferðilega rétt hverju sinni.
En nú er ég alveg að týna þræðinum, hvers vegna þurfum við þá bækurnar og dæmisögurnar? Ef við notum hvort sem er bara það sem þykir rétt?
Hvaða smámunasemi er þetta, eigum við ekki að gera þetta?
Æi, veistu, ég sé bara enga ástæðu til…
„Ástæða“, hvað er það?