Það eru sennilega ekki margir sem hafa komið jafn víða við íslenska tónlistarsögu og Tómas Tómasson, bassaleikari. Við þekktumst svo sem ekki mikið og aðrir kunna betur að gera hans sögu skil.
En… Tommi tók, ásamt Georg, upp plötu okkar Fræbbbla, „Dásamleg sönnun um framhaldslíf“ árið 2000 – við tókum upp nokkra hljómleika á Grand Rokk og fórum með efnið í stúdíó og kláruðum. Ekki bara vissi hann nákvæmlega hvað hann var að gera, heldur voru engin vandamál, öllu tekið með jafnaðargeði og húmor.
En einhverra hluta vegna kemur eitt andartak upp í hugann, við vorum að vandræðast með nafn á plötuna, en Tommi var alveg viss, „Gamlir og gramir“.
Einu sinni eða tvisvar forfölluðust hljóðmenn á hljómleikum þegar við vorum að kynna plötuna og það var sjálfsagt að mæta og hjálpa okkur með hljóðið. Í eitt skiptið spiluðu 3G’s (Guðjón sonur okkar og félagar hans) með okkur, og Tommi (og Georg) hrifust af þeim og gáfu þeim tíma í stúdíói… sem þeir nýttu til að taka upp plötu, plötu sem gekk vel í þeirra kynslóð og tveir þeirra hafa fundið sinn flöt í tónlistinni.
En, samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina..