Archive for the ‘Trúarbrögð’ Category

Biskup og grundvöllur trúarinnar

Posted: janúar 6, 2023 in Trúarbrögð, Umræða
Efnisorð:

Mér er svo sem ekkert sérstaklega illa við núverandi biskup, held svona að þar sé ágætur og vel meinandi einstaklingur sem hefur tekið að sér vonlaust verkefni og ekki bætir úr skák (!) að farast einstaklega illa úr hendi að reyna.

Í nýlegu viðtali – sem byggir reyndar á núll-bendils villu, sem forritarar reka strax augun í – þá segir biskup að guð ekki misvitrir mennirnir ákveði að kirkjan verði áfram til með sínum söfnuðum.

Nú er ég ekki guðfræðingur, eiginlega langt frá því, en stangast þetta ekki alveg á við grunn hugmyndir kristninnar?

Ef guðinn ákveður þetta, hvers vegna er ekki allt mannkyn í kristnum söfnuði? Hvers vegna voru ekki kristnir söfnuðir löngu fyrir tíma krists? Og hvers vegna þurfti guðinn að koma sjálfur „til manna“, láta menn pína sig til eins að geta fyrirgefið þeim?

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Sendi eftirfarandi bréf til fjármálaráðherra.

Í ljósi þess að ég tilheyri hvorki trúfélagi né lífsskoðunarfélagi þá vil ég fara fram á að skattgreiðslur  mínar verði lækkaðar sem upphæð sóknargjalda nemur.

Í máli sem Darby höfðaði gegn sænska ríkinu og áfrýjaði til Mannréttindadómstóls Evrópu – mál 11581/85 – kom fram að kröfu hans var hafnað á þeim forsendum að hann gæti sagt sig úr lífsskoðunarfélagi og lækkað þannig skattgreiðslur sínar.

Það er því ljóst að Mannréttindadómstóllinn telur það forsendu þess að ekki sé verið að brjóta mannréttindi með greiðslu sóknargjalda úr ríkissjóði að hver einstaklingur eigi kost á að lækka skattgreiðslur sem þeirri upphæð nemur.

Nú stefnir í að greiðslur ríkissjóðs til kirkjunnar hækki all verulega, eiginlega algjörlega út í bláinn, upp úr þurru og án nokkurrar jarðtengingar (enda finnst kirkjunni það eflaust óþarft) – ja, nema við teljum með gegndarlausan áróður frá almennatengslavél kirkjunnar.

Það virðist gjarnan gleymast hvernig þetta kom til. Samkvæmt því sem kirkjan heldur fram afhenti hún ríkinu einhverjar óskilgreindar eignir, fékk eignir afhentar 1997 og enn fleiri 2006 (eða þar um bil). Út af fyrir sig er stór undarlegt að ríkissjóður afhendi nokkrum einstaklingum verðmætar eignir án endurgjalds.

Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að kirkjan hafi aldrei átt neinar eignir til að afhenda. Nú skal ég viðurkenna að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og/eða gögn, en miðað við aðgengilegar upplýsingar þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.

Við siðaskiptin færðust allar eignir kirkjunnar til Danakonungs og við fullveldi/sjálfstæði til íslenska ríkisins. Þessi flutningur eigna virðist staðfestur og það var einn af grundvallarþáttum í mismun á kaþólsku og lúter, kirkjan var ekki sjálfstæð heldur tilheyrði hún ríkinu – (amk. eins og mér var kennt þetta í barnaskóla).

Þjóðkirkjan er enn þann dag í dag ríkisstofnun á fjárlögum, svokölluð A hluta stofnun og ekki betur séð en að hún hafi verið þannig frá siðaskiptum. Þá má benda á (aftur) að lengst af var ekki trúfrelsi og því áttu allir íslendingar sinn hlut í kirkjunni og hennar eignum.

Aftur skal ég játa að það er ekki auðvelt að finna upplýsingar og gögn.

En sönnunarbyrðin er hjá kirkjunni. Telji kirkjan sig hafa átt einhverjar eignir til að afhenda þarf hún að sýna skjalfest fram á að hún hafi verið sjálfstæður lögaðili og gefa yfirlit yfir nákvæmlega hvaða eignir þetta voru og hvernig hún eignaðist þær.

Það þarf líka að gera kröfu um að kirkjan hafi ekki eignast neitt með vafasömum viðskiptaháttum, svo sem að lofa einhverju en ekki var staðið við, það myndi jú væntanlega gera viðskiptin ólögmæt.

Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.

Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.

Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.

Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.

Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.

Já, trúleysið er betra

Posted: nóvember 19, 2018 in Trú, Trúarbrögð, Umræða
Prestur ríkiskirkjunnar spurði í messu fyrir nokkru og birti eftirfarandi spurningu:

„Erum við betur sett með trúleysið, trúarkenningar annarra landa (sem ég ber mikla virðingu fyrir), þau lönd búa ekki við sama velferðarkerfið og við, sömu menntun og það er ekki tilviljun.“

Mikið skelfilega er þetta hvimleið rökleysa. Og ruglingsleg setning ef út í það er farið.

Jú, „við“ búum við betra velferðarkerfi og menntun en margar aðrar þjóðir, fráleitt að halda að það sé einsleitt, en skoðum samt betur.

Já, við erum betur sett með trúleysið vegna þess að vísindi hafa verið grundvöllurinn a1ð þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Vísindin eru bein andstaða trúarinnar, nálgun vísindanna er að gagnrýna, rannsaka og hafa það fyrir satt sem hægt er að sýna fram á.. Trúarbrögðin hafa hluti fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á, enda byggja þau á „trú“ og getgátum en ekki staðreyndum eða þekkingu. Þannig er sú fáfræði sem hörðustu talsmenn trúarinnar tala fyrir, hvort sem um er að ræða sköpunakenningu eða aðra vitleysu, beinlínis hamlandi fyrir framþróun.

Auðvitað eru flestir talsmenn kirkjunnar hér á Íslandi farnir að tala í undanbrögðum þegar kemur að sköpunarkenningunni, sem betur fer.. en víða í heiminum er kristnin beinlínis fjötur um fót þegar kemur að vísindum og framþróun.

Sama gildir um mannréttindi. Forsvarsmenn trúarbragðanna, þar með talið kristninnar – og þar með talið á Íslandi – hafa barist gegn sjálfsögðum mannréttindum í gegnum tíðina, hvort sem við horfum til samkynhneigðra eða annarra.

Vissulega hafa sjónarmið kirkjunnar, amk. ef við horfum við Norður Evrópu, mildast síðustu árin, þó enn finnist „risaeðlur“ í forystusveit hennar.

En það er einmitt kjarni málsins. Trúin er að aðlaga sig að þróun, talsmenn kirkjunnar eru að draga í land með mestu vitleysuna og bakka út úr mestu fordómunum. Ekki vegna frumkvæðis kirkjunnar, heldur vegna þess að hún er, sem betur fer, „í aftursætinu“ og hefur að mörgu leyti haft rænu á að aðlaga sig þróun – sem er gott í sjálfu sér, en ekki reyna að halda því fram að velferðin sé henni að þakka.

Þar sem velferðarkerfið er kannski að jafnaði hvað mest og menntun og mannréttindi að einhverju leyti lengra komin (án þess að ég vilji taka undir alhæfingar prestins) þar eru trúarbrögðin búin að draga sig í hlé, þar snúast trúarbrögðin að mestu athafnaþjónustu, tyllidagamessur og svo aðstoð við þá sem lenda í erfiðleikum.

Þannig að svarið er afdráttarlaust „já, við erum betur komin með trúleysið“.

Slappur „Guð“

Posted: febrúar 24, 2018 in Trúarbrögð, Umræða

Í kjölfar morðanna í Bandaríkjunum í síðustu viku keppast heittrúaðir kristnir við að birta gamla klisju og nemanda sem spyr guðinn hvers vegna hann hafi ekki komið nemendum til bjargar og guðinn svarar að hann hafi því miður verið útilokaður frá skólum.

Ég veit svo sem alveg að þetta er ómerkilegur áróður og þeir sem dreifa þessu vita alveg betur.

En skoðum aðeins.

„Guðinn“ er almáttugur, en samt getur hann ekki blandað sér í atburði innan veggja skóla vegna þess að ekki má tilbiðja hann þar.

Er „Guðinn“ svo aumur að það eitt að ekki megi tilbiðja hann í skólum þá getur hann ekki aðstoðað þá sem á hann trúa?

„Guðinn“ er ekki bannaður frá heimilum, en einhver dæmi eru nú um ofbeldisverk innan veggja heimilanna.

„Guðinn“ er nú svo ekki einu sinni ekki bannaður í kirkjum í Bandaríkjunum, en samt hefur verið níðst á börnum þar í gegnum tíðina, áratugum ef ekki öldum saman. Og jafnvel eru nú dæmi um skotárásir í kirkjum.

Er þetta virkilega guðinn ykkar?? Ég held / vona ekki. Ég held að þetta sé vanhugsað og frekar ómerkilegt áróðursbragð.

Þannig að svona hafið í huga áður en þið setjið þetta næst inn á Facebook eða blogg eða aðra samfélagsmiðla… þeir sem lesa þetta hugsa ekki, „já, kannski væri nú rétt að leyfa trúboð í skólum“, flestir hugsa „mikið skelfilega er þetta aumkunarverður útúrsnúningur og svakalega er þetta máttlaus og lélegur guð sem þið trúið á – ekki vil ég tilheyra svona trúarbrögðum“.

 

[Gefum okkur að trúfélög væru óháð ríkinu og rekin eins og hver önnur áhugafélög… svona samtal væri eiginlega algjörlega út úr kú]

Ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki fín hugmynd að taka eitthvert áhugafélag um yfirnáttúrulegar verur og láta ríkissjóð um reksturinn, kannski skella nokkrum milljörðum í þetta á ári.. ráða starfsfólk á fantagóðum launum, nokkuð margföldum launum sjúkraliða, lögreglumanna, sálfræðinga o.s.frv… og láta þá fá jarðir til að búa á og leyfa þeim að hirða hlunnindin.

Nei, er það ekki algjör óþarfi? Getur fólk ekki sinnt þessum áhugamálum bara á eigin forsendum… á þetta að hafa eitthvert hlutverk?

Já, já, þau myndu sjá um alls kyns tímamótaathafnir, nafn, manndómsvígslur, hjónavígslur.

OK, og gera þetta ókeypis?

Nei, nei, þeir sem nota þjónustuna greiða auðvitað vel fyrir.

Svona eins og fólk gerir hvort sem er?

Já, já… og svo kannski sjá um að aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

Eins og sálfræðingar?

Já, nákvæmlega.

Og eru þeir þá menntaðir sem sálfræðingar?

Nei, ekki beint, en mæta kannski í einn kúrs.

Nú, skil ég ekki, er ekki betra að til þess menntaðir sérfræðingar sjái um svona? 

En þetta eru svo krúttleg félög, þau trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru sem fylgist með okkur og grípi inn í aðstæður hjá okkur ef við biðjum nægilega vel.

Eru einhverjar upplýsingar staðreyndir sem styðja þessar hugmyndir?

Nei, nei, þá þyrfti ekki að byggja á að trúa þessu…

Og hvað, viltu að ríkið reki öll félög sem trúa á yfirnáttúrulegar verur?

Nei, auðvitað ekki, við veljum bara eitt. Það má nota þetta í siðferðilegum tilgangi. Þetta sem ég er með í huga trúir því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað heiminn, bara svona rétt si svona á nokkrum dögum fyrir ekki svo löngu síðan og að engin þróun hafi átt sér stað. Veran var víst mjög refsiglöð framan af fann allt í einu upp á því að barna konu með sjálfri sér fyrir tvö þúsund árum, látið drepa sig og rísa svo upp frá dauðum svo hún gæti fyrirgefið fólk það sem það gerði rangt.

OK, ekki veit ég hvað þetta fólk hefur verið að reykja, en þú nefndir siðferðilegan tilgang, kannski það sé einhver flötur.. 

Já, já, meðlimirnir hafa mjög skýrar reglur um öll siðferðileg mál sem eru vel skilgreind í einni bók.

Gott og vel, og eitthvað sem má fara eftir?

Nei, ekki beint, sumir telja sig reyndar taka öllu bókstaflega, en það er svolítið snúið því reglurnar eru talsvert mótsagnakenndar… og þeir sem segjast taka öllu bókstaflega taka nú eiginlega bara því sem þeim sjálfum hentar hverju sinni. Hins vegar er mun geðfelldari hópur sem notar sögurnar og reglurnar sem dæmisögur til að gefa skýr siðferðileg skilaboð.

Já, það er eitthvað, en hvernig er hægt að vita hvernig á að túlka sögurnar?

Jú, það er nú bara miðað við hvað samfélaginu finnst siðferðilega rétt hverju sinni.

En nú er ég alveg að týna þræðinum, hvers vegna þurfum við þá bækurnar og dæmisögurnar? Ef við notum hvort sem er bara það sem þykir rétt?

Hvaða smámunasemi er þetta, eigum við ekki að gera þetta?

Æi, veistu, ég sé bara enga ástæðu til…

„Ástæða“, hvað er það?

Ég velti því fyrir mér hvort kjararáð hafi einhverjar upplýsingar um að tekjur ríkissjóðs vegna jarða sem ríkissjóður tók yfir frá kirkjunni hafi aukist verulega á þessu ári (nú eða kostnaður minnkað)??

Talsmenn kirkjunnar, amk. þeirrar sem er rekin af almannafé, hafa löngum haldið því fram – reyndar út í bláinn, svo því sé haldið til haga – að yfirtaka ríkisins á jörðum, sem kirkjan réði yfir, standi undir launum presta.

Þessi fullyrðing er út í bláinn vegna þess að það getur enginn svarað því hvert verðmæti þessara jarða er, hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum eða hvaða kostnað ríkissjóður ber vegna þeirra. Það getur enginn staðfest hvernig kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir og það getur enginn sagt hvenær kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir. Það getur nefnilega enginn svarað því til hvaða jarðir þetta eru.

Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ef þessar jarðir eiga að standa undir launum presta þá hlýtur það að vera forsenda launahækkunar að jarðirnar skili meiri tekjum.

Það tekur því kannski ekki að vera að fjalla um heimsóknir skólabarna í kirkjur á skólatíma. Þetta var heitt deilumál nokkur síðustu ár, en svo er það smám saman að síast inn að auðvitað á menntun að vera í höndum kennara, sem hafa til þess bæra mennun – en ekki presta, sem samkvæmt starfslýsingu eiga að sinna trúboði.

Þannig er umræðan að mestu að fjara út og flestir sáttir við að halda þessu aðgreindu og færa mennta umhverfið til baka í það horf sem það var áður en kirkjan hóf markaðsókn inn í skólana.

Það dúkka upp stöku pistlar til varnar þessum ósið, nú síðast frá Einari Kárasyni, sem allt of margir eru að dreifa með jákvæðum ummælum.

Innihald pistilsins er hreinn og klár útúrsnúningur… það er lagt að jöfnu að vilja aðgreina fræðslu í skólum frá trúboði, við það að vilja banna börnum að fara í kirkju utan skólatíma. Svo er farið að grauta því saman hvort barn „megi“ koma inn í húsið annars vegar og því hins vegar að sitja undir áróðri og trúboði í þessu sama húsi. Og eftir að þessu grundvallar misskilningur hefur verið lagður, kemur einhver tilgangslaus langloka um verðmæti menningar og sögu – sem er vissulega rétt, en tilgangslaus vegna þess að hún kemur þessu máli nákvæmlega ekki neitt við.

Það er enginn að tala um að banna börnum að fara í kirkju, það er hlutverk foreldra og á að gerast utan skólatíma.

Það er enginn að segja að börn eigi ekki að kynnast sögu, menningu og bókmennum. En það á að gerast á forsendum menntunar og undir leiðsögn kennara.

Það er kannski ekki við öðru að búast en að gripið sé til útúrsnúninga þegar verja þarf vondan málstað. En það fer ekki stofnun vel, sem gefur sig út fyrir að standa vörð um heiðarleika og sannleika, að standa í svona rangfærslum.