Posts Tagged ‘Umboðsmaður Alþingis’

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Ég fékk símtal frá starfsmanni hjá umboðsmanni Alþingis í gær þar sem erindið var að útskýra fyrir mér afstöðu umboðsmanns vegna erindis míns vegna sóknargjalda. Og fara fram á að það nægði sem svar í stað þess að senda formlegt svarbréf. Það skiptir mig svo sem engu á hvaða formi svarið er. En ég ætla að senda þessa færslu til umboðsmanns til staðfestingar á mínum skilningi á símtalinu, nú eða gefa tækifæri á leiðréttingu.

Fyrir það fyrsta þá kom fram að megin efnið í svarbréfi umboðsmanns skipti engu máli, þeas. sá kafli sem útskýrði að umboðsmaður vildi ekki taka mál sem fyrri (settur) umboðsmaður hefði svarað.

Þá kom fram að þrátt fyrir að umboðsmaður hafi svarað málefninu með allt öðrum rökum en ráðuneytið – án þess að ég skilji hvers vegna umboðsmaður var að taka sjálfstæða afstöðu til erindis míns til ráðuneytisins í stað þess að taka afstöðu til þess hvort svar ráðuneytisins væri boðlegt – og hann myndi ekki svara frekar hvort hann teldi svar ráðuneytisins eðlilegt en hann myndi ekki gera athugasemdir við svörin.

Þá var ítrekað að hlutverkumboðsmaðsmanns væri að bregðast við ef fólk teldi brotið á sér af stjórnsýslunni, ekki (svona almennt) að gera athugasemdir við störf Alþingis.

Hitt er að ég fór fram á að umboðsmaður benti Alþingi á að það væru meinbugur á núgildandi lögum, eins og umboðsmaður [benti sjálfur á] getur gert, hefur gert og er full ástæða til. Mér var sagt að umboðsmaður myndi ekki nýta sér þennan rétt en ég fékk engin svör, upplýsingar eða rökstuðning um hvers vegna honum þætti ekki ástæða til að benda á þennan (að mér finnst) augljósa galla.

Ég fékk annað svar frá umboðsmanni Alþingis vegna erindis míns um lækkun skatta vegna sóknargjalda. Er ekki alls kostar sáttur við svarið og sendi ítrekun.

Ef ég skil rétt þá er ekki talin ástæða til að klára málið vegna þess að nýr einstaklingur hefur tekið við embættinu og ekki sé gert ráð fyrir að umboðsmaður taki mál sem einstaklingur sem gegndi stöðunni áður hafi fjallað um.

En þó ekki sé gert sérstaklega ráð fyrir því, þá fæ ég ekki séð að neitt eigi að koma í veg fyrir að umboðsmaður klári mál og/eða gefi nánara álit á fyrri málum. Það er varla hugmyndin að mál dagi uppi og sitji óleyst þegar nýr einstaklingur hafi tekið við embættinu?

Í ítrekun minni óskaði ég eftir því að umboðsmaður nýti sér rétt sem hann sannanlega hefur til að tilkynna Alþingi ef hann verði þess var að meinbugur séu á gildandi lögum. Það var aldrei tekin afstaða til þess af fyrri (settum) umboðsmanni og ég tel mjög mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu varðandi þetta atriði.

Þá benti ég á að svar setts umboðsmanns passar ekki við svör ráðuneytisins. Ekki var tekin afstaða til þess hvort svör ráðuneytisins væru viðunandi.

Er það ekki innan verksviðs embættisins að bregðast við erindum ef stjórnsýslan svarar erindum á ófullnægjandi hátt?