Posts Tagged ‘sóknargjöld’

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Ég fékk símtal frá starfsmanni hjá umboðsmanni Alþingis í gær þar sem erindið var að útskýra fyrir mér afstöðu umboðsmanns vegna erindis míns vegna sóknargjalda. Og fara fram á að það nægði sem svar í stað þess að senda formlegt svarbréf. Það skiptir mig svo sem engu á hvaða formi svarið er. En ég ætla að senda þessa færslu til umboðsmanns til staðfestingar á mínum skilningi á símtalinu, nú eða gefa tækifæri á leiðréttingu.

Fyrir það fyrsta þá kom fram að megin efnið í svarbréfi umboðsmanns skipti engu máli, þeas. sá kafli sem útskýrði að umboðsmaður vildi ekki taka mál sem fyrri (settur) umboðsmaður hefði svarað.

Þá kom fram að þrátt fyrir að umboðsmaður hafi svarað málefninu með allt öðrum rökum en ráðuneytið – án þess að ég skilji hvers vegna umboðsmaður var að taka sjálfstæða afstöðu til erindis míns til ráðuneytisins í stað þess að taka afstöðu til þess hvort svar ráðuneytisins væri boðlegt – og hann myndi ekki svara frekar hvort hann teldi svar ráðuneytisins eðlilegt en hann myndi ekki gera athugasemdir við svörin.

Þá var ítrekað að hlutverkumboðsmaðsmanns væri að bregðast við ef fólk teldi brotið á sér af stjórnsýslunni, ekki (svona almennt) að gera athugasemdir við störf Alþingis.

Hitt er að ég fór fram á að umboðsmaður benti Alþingi á að það væru meinbugur á núgildandi lögum, eins og umboðsmaður [benti sjálfur á] getur gert, hefur gert og er full ástæða til. Mér var sagt að umboðsmaður myndi ekki nýta sér þennan rétt en ég fékk engin svör, upplýsingar eða rökstuðning um hvers vegna honum þætti ekki ástæða til að benda á þennan (að mér finnst) augljósa galla.

Ég fékk annað svar frá umboðsmanni Alþingis vegna erindis míns um lækkun skatta vegna sóknargjalda. Er ekki alls kostar sáttur við svarið og sendi ítrekun.

Ef ég skil rétt þá er ekki talin ástæða til að klára málið vegna þess að nýr einstaklingur hefur tekið við embættinu og ekki sé gert ráð fyrir að umboðsmaður taki mál sem einstaklingur sem gegndi stöðunni áður hafi fjallað um.

En þó ekki sé gert sérstaklega ráð fyrir því, þá fæ ég ekki séð að neitt eigi að koma í veg fyrir að umboðsmaður klári mál og/eða gefi nánara álit á fyrri málum. Það er varla hugmyndin að mál dagi uppi og sitji óleyst þegar nýr einstaklingur hafi tekið við embættinu?

Í ítrekun minni óskaði ég eftir því að umboðsmaður nýti sér rétt sem hann sannanlega hefur til að tilkynna Alþingi ef hann verði þess var að meinbugur séu á gildandi lögum. Það var aldrei tekin afstaða til þess af fyrri (settum) umboðsmanni og ég tel mjög mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu varðandi þetta atriði.

Þá benti ég á að svar setts umboðsmanns passar ekki við svör ráðuneytisins. Ekki var tekin afstaða til þess hvort svör ráðuneytisins væru viðunandi.

Er það ekki innan verksviðs embættisins að bregðast við erindum ef stjórnsýslan svarar erindum á ófullnægjandi hátt?

Ég fékk svar frá Umboðsmanni Alþingis vegna erindis um sóknargjöld. Ákvað að ítreka að fá niðurstöðu.

Ef ég skil svarið rétt þá er talið að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að segja álit sitt á efninu þar sem farið sé að lögum og að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa skoðanir á lögum.

En svo segir að umboðsmaður geti samt tilkynnt Alþingi ef hann verði þess var að meinbugir séu á gildandi lögum.

Það kemur ekki fram hvers vegna ekki er talin ástæða til að benda Alþingi á galla í löggjöfinni, eða yfirhöfuð skoða hvort ástæða sé til þess.

Þá hefur umboðsmaður (ef ég skil rétt) ekki athugasemdir við svör ráðuneytisins. Svör ráðuneytisins eru ekki í samræmi við það álit umboðsmanns að það sé eingöngu verið að fara að lögum heldur er vísað til tæknilegra annmarka – sem eru ekki fyrir hendi – og þess sem starfsmenn ráðuneytisins telja að megi segja. Standast þessi svör ráðuneytisins að mati umboðsmanns?

Telur umboðsmaður að þetta séu góðar og gildar skýringar – og að svarið sé fullnægjandi?

Í ljósi þess að ég tel mig hafa fært sterk rök fyrir því að þarna sé brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu vil ég fara fram á að þessi afstaða verði endurskoðuð, skoðað verði hvort ástæða sé til að benda Alþingi á galla í viðkomandi lögum – og senda ábendingu til Alþingis ef það verður niðurstaðan.

Það ætti að vera óþarfi að ónáða Mannréttindadómstól Evrópu eina ferðina enn – en svona í ljósi þess hversu augljóst ég tel þetta vera þá er í rauninni ekki annað í stöðunni ef ekki næst að laga þetta innanlands.

Lækkun sóknargjalda, þriðja tilraun

Posted: febrúar 4, 2021 in Samfélag
Efnisorð:

Ég fékk aftur svar frá Fjármálaráðuneytinu vegna erindis míns um að fá skattgreiðslur lækkaðar vegna sóknargjalda. Ég sendi eftirfarandi sem þriðju tilraun.

Í svarinu kemur fram að engin ný gögn komi fram í seinna bréfi mínu. Það er vissulega rétt, enda er tilgangurinn ekki að koma með ný gögn heldur að benda á að ég fékk engin marktæk svör. Einnig, ef út í það er farið, þá koma engin ný gögn fram í svörum ráðuneytisins.

Í svarinu er tilvísun í lagatexta og síðan er dregin – að mér finnst – bæði undarleg og vafasöm ályktun og hún aftur studd með „þá má segja“.

Nú hef ég ekki próf í lögfræði en ég er samt nokkuð viss um að það að einhverjum finnist að það „megi segja eitthvað“ hefur ekki sérstaklega mikið lagalegt gildi, hvað þá að sú þokukennda hugmynd geti réttlætt brot á mannréttindum.

Ég á til að mynda erfitt með að ímynda mér að ef (svo ólíklega vildi til að) ég mældist keyra á hraða umfram hámarkshraða að ég gæti komið með hjá sektargreiðslu með því að halda því fram að „það megi segja“ að hámarkshraðinn sé annar en hann er. Eða hvað?

Er það virkilega afstaða ráðuneytisins að það að einhverjum finnist að það megi segja eitthvað sé nægjanlegt fyrir dómstólum? Jafnvel þó það sem „segja má“ stangist á við staðreyndir, sé hrein rökleysa og / eða komi málinu einfaldlega ekkert við.

Þá er einhver undarleg rökleysa, ef ekki ranghugmynd, jafnvel vanþekking, að minnsta kosti grundvallar misskilningur, að fyrst ekki sé hægt að tengja skattgreiðslur einstaklings við ákveðin útgjöld þá sé ekki hægt að veita lækkun á skattgreiðslum. Það er óumdeilt að útgjöld ríkissjóðs eru lægri vegna þess að ég er ekki skráður í lífsskoðunarfélag. Þess vegna er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lækka greiðslur mínar sem þessu nemur.

Að lokum er fjallað um mál Darby gegn sænska ríkinu. Sú umfjöllun staðfestir þann skilning minn að fyrirkomulag þessara greiðslna stangist á við mannréttindasáttmála Evrópu. Engu að síður er þessum texta svo fylgt eftir með þeirri fullyrðingu að ekkert bendi til þess að greiðslur ríkisins feli í sér brot! Sem er bókstaflega þvert á það sem sagt er í næstu setningum á undan.

Í lok bréfsins segir að málinu sé lokið af hálfu ráðuneytisins. Þessu máli lýkur ekki af minni hálfu fyrr en ég fæ viðunandi lausn. Eina spurningin er hvort ráðuneyti klári málið án frekar málalenginga eða þurfi að fá á sig dóm.

Ég fékk svör frá fjármálaráðuneytinu við erindi mínu frá 11. janúar 2021, sbr. https://valgardur.blog/2021/01/11/skattalaekkun-vegna-greidslna-til-sokna/

Ég var hins vegar ekki alls kostar sáttur við svörin og sendi því annað bréf þar sem ég ítreka erindi mitt.

Takk fyrir skjót svör.

Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að ekki er ágreiningur um að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Darby skipti máli hér.

Fyrir utan að endurtaka efni erindis míns þá er nokkuð löng skýring á fyrirkomulagi sóknargjalda, ég hefði kannski átt að nefna að ég þekki þetta ágætlega og útskýringar því óþarfar.

Síðan kemur eitthvað óljóst „þá má segja..“ sem mér finnst vægast sagt undarlegt. Það hvað einhver telji að það að megi segja eitthvað er frekar vafasöm, ef ekki fráleit, forsenda fyrir brotum á mannréttindum.

Þá er nefnt til sögunnar að þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Aftur verður ekki séð að þetta komi málinu nokkuð við.

Bréfinu lýkur svo á því að segja að framangreindu virtu geti ráðuneytið ekki fallist á að koma til móts við erindi.

Ég get ekki séð nokkur rök í textanum sem vísað er til í „að framangreindu“ sem koma í veg fyrir að mál mitt sé afgreitt á viðunandi hátt. Ef hugsunin er sú að það sé ekki hægt að lækka tekjuskatta þeirra sem standa utan lífsskoðunarfélaga og greiða ekki tekjuskatt þá er auðvelt að finna lausn á því vandamáli og sjálfsagt að aðstoða við að leysa málið ef þetta er eina fyrirstaðan.

Það liggur fyrir að ríkissjóður greiðir lífsskoðunarfélögum eftir fjölda meðlima, það er klárt að ég er ekki meðlimur neins félags, ekki þarf að deila um að ég greiði skatta – bæði tekjuskatta og aðra – og ekki virðist ágreiningur um að þetta standist ekki skoðun hjá Mannréttindadómstólnum.

Þannig væri virkilega vel þegið ef hægt væri að klára þetta án frekari málalenginga.

Ekki viljum við að Íslenska ríkið fái enn einn dóminn á sig frá MDE?

Sendi eftirfarandi bréf til fjármálaráðherra.

Í ljósi þess að ég tilheyri hvorki trúfélagi né lífsskoðunarfélagi þá vil ég fara fram á að skattgreiðslur  mínar verði lækkaðar sem upphæð sóknargjalda nemur.

Í máli sem Darby höfðaði gegn sænska ríkinu og áfrýjaði til Mannréttindadómstóls Evrópu – mál 11581/85 – kom fram að kröfu hans var hafnað á þeim forsendum að hann gæti sagt sig úr lífsskoðunarfélagi og lækkað þannig skattgreiðslur sínar.

Það er því ljóst að Mannréttindadómstóllinn telur það forsendu þess að ekki sé verið að brjóta mannréttindi með greiðslu sóknargjalda úr ríkissjóði að hver einstaklingur eigi kost á að lækka skattgreiðslur sem þeirri upphæð nemur.

Prestur ríkiskirkjunnar skrifar pistil í Fréttablaðið í dag.

Þar býsnast hann yfir því að borga 1.100 krónur í sóknargjald og kirkjan fái ekki nema 700 krónur af því í sinn hlut. Látum vera hvort tölurnar eru réttar, en prestur talar  um „hæng“ á þessari framkvæmd.

Prestur gleymir að nefna þann „hæng“ á málflutningi sínum að ég þarf líka að borga þessar 1.100 krónur í sama sjóð þó ég tilheyri engu trúfélagi.

Prestur ber þetta svo saman við félagsgjöld í golfklúbbi. Sá „hængur“ er á þeim samanburði að þeir greiða einir félagsgjöld til golfklúbbsins sem vilja vera meðlimir, golfklúbburinn ákveður félagsgjöldin og innheimtir þau félagsgjöld sjálfur.

Þá má ekki gleyma þeim „hæng“ á málflutningi kirkjunnar að í kosningabaráttunni fyrir stjórnarskrárkosninguna staglaðist kirkjan á því að það réttlætti stöðu hennar og alla milljarðana úr ríkissjóði að hún hefði svo miklar skyldur og að allir gætu nýtt sér aðstöðu kirkjunnar án tillits til trúfélags. Biskup var reyndar eftirminnilega rekin á gat með fákunnáttu um samþykktir kirkjunnar þegar hún vissi ekki að kirkjan takmarkar þennan aðgang við að fólk sé í þjóðkirkjunni.

Svo óheppilega vill til að grein prestsins um hænginn birtist einmitt á sama tíma og hann sjálfur neitar fólki um aðgang að húsnæði kirkjunnar vegna þess að það vill ekki kaupa trúarlega þjónustu kirkjunnar. Þetta er nú ansi mikill „hængur“ á því að kirkjan sé sjálfri sér samkvæm.

Aðalatriðið er að þetta staðfestir að hér er ekki um nein félagsgjöld að ræða. Þetta er einfaldlega almennur skattur sem rennur í sameiginlegan sjóð. Og síðan greiðir ríkið kirkjunna fé til reksturs úr þessum sameiginlega sjóði. Svo einfalt er þetta nú.