Posts Tagged ‘þjóðkirkjan’

Mikið rosalega getur málflutningur talsmanna ríkiskirkjunnar farið í taugarnar á mér.

Annars ágætur prestur, Davíð Þór Jónsson, er að fárast yfir harðri gagnrýni og spyr hvort kirkjan eigi að bjóða hinn vangann – sem er nú reyndar það sem hún sjálf boðar, svo kaldhæðnislegt sem það er.

Ríkiskirkjan rekur grimmt markaðsstarf, kostað af almannafé, þar sem ítrekað er haldið fram rangfærslum, blekkingum og jafnvel hreinum ósannindum í áróðrinum.

Örfáir einstaklingar eiga það til að benda á rökleysur og rangfærslur – í sínum frítíma – án þess að talsmenn kirkjunnar hafi nokkur svör, þeas. -önnur en að kveinka sér undan umræðunni.

Þannig að ef þið lítið á málefnalega gagnrýni sem löðrung, já, þá megið þið alveg bjóða hinn vangann.

En byrjið kannski á að fylgja öðrum boðskap ykkar í verki, þetta boðorð, þarna, þið munið, sem hefur eitthvað með ljúgvitni að gera.. Eða er það kannski bara orðið líkingamál eins og allt annað hjá ykkur?

Kannski rifja upp eitthvað með bjálka og flísar..

Biskup virðist telja að prestar ríkiskirkjunnar eigi að hafa eitthvað sem þau kalla „samviskufrelsi“ til að brjóta lög og hunsa mannréttindi.

Þetta samviskufrelsi virðist bara hanga á einu atriði biblíunnar, þeas. samkynhneigð.. en ég veit ekki til að prestar hafi „samviskufrelsi“ til að brjóta lög eftir bókstaf biblíunnar að öðru leyti, kannski er þetta mín vanþekking.

En það gengur augljóslega ekki að ríkiskirkjan sé ríki í ríkinu og ákveði að fara eftir sínum „sharia“ lögum þegar henni hentar.

Þess vegna legg ég til að söfnuður sem ekki lýsa því afdráttarlaust yfir að þeir fari í einu og öllu að lögum fái ekki krónu úr ríkissjóði.

Prestur ríkiskirkjunnar skrifar pistil í Fréttablaðið í dag.

Þar býsnast hann yfir því að borga 1.100 krónur í sóknargjald og kirkjan fái ekki nema 700 krónur af því í sinn hlut. Látum vera hvort tölurnar eru réttar, en prestur talar  um „hæng“ á þessari framkvæmd.

Prestur gleymir að nefna þann „hæng“ á málflutningi sínum að ég þarf líka að borga þessar 1.100 krónur í sama sjóð þó ég tilheyri engu trúfélagi.

Prestur ber þetta svo saman við félagsgjöld í golfklúbbi. Sá „hængur“ er á þeim samanburði að þeir greiða einir félagsgjöld til golfklúbbsins sem vilja vera meðlimir, golfklúbburinn ákveður félagsgjöldin og innheimtir þau félagsgjöld sjálfur.

Þá má ekki gleyma þeim „hæng“ á málflutningi kirkjunnar að í kosningabaráttunni fyrir stjórnarskrárkosninguna staglaðist kirkjan á því að það réttlætti stöðu hennar og alla milljarðana úr ríkissjóði að hún hefði svo miklar skyldur og að allir gætu nýtt sér aðstöðu kirkjunnar án tillits til trúfélags. Biskup var reyndar eftirminnilega rekin á gat með fákunnáttu um samþykktir kirkjunnar þegar hún vissi ekki að kirkjan takmarkar þennan aðgang við að fólk sé í þjóðkirkjunni.

Svo óheppilega vill til að grein prestsins um hænginn birtist einmitt á sama tíma og hann sjálfur neitar fólki um aðgang að húsnæði kirkjunnar vegna þess að það vill ekki kaupa trúarlega þjónustu kirkjunnar. Þetta er nú ansi mikill „hængur“ á því að kirkjan sé sjálfri sér samkvæm.

Aðalatriðið er að þetta staðfestir að hér er ekki um nein félagsgjöld að ræða. Þetta er einfaldlega almennur skattur sem rennur í sameiginlegan sjóð. Og síðan greiðir ríkið kirkjunna fé til reksturs úr þessum sameiginlega sjóði. Svo einfalt er þetta nú.

Ég hef talað lengi fyrir því að aðskilja ríki og kirkju. Einfaldlega vegna þess að skoðanir fólks eiga ekkert erindi í ríkisrekstur.

Mér er ekkert illa við kirkjuna, ég þekki mikið af góðu fólki sem þar starfar, gerir það heiðarlega og eftir bestu samvisku. Hún er bara ekki fyrir mig. Og það á ekki að reka hana með fé úr sameiginlegum sjóðum.

Ég neita því ekki að ýmis ummæli fyrrverandi biskups lögðust oft illa í mig. Hrein og klár ósannindi í bland við grímulausa fyrirlitningu á lífsskoðunum annarra gera það að verkum að þar fannst mér einn versti forystumaður kirkjunnar.

Ég dæmi ekki alla kirkjunnar þjóna eða meðlimi út frá ummælum biskups. Og ég batt talsverðar vonir við nýjan biskup. Í fyrstu kom Agnes vel fyrir og ég hef svo sem ekki gefið upp alla von um betri samvinnu.

En það hefur aðeins slegið á þær vonir við að fylgjast með umræðunni um þjóðkirkju ákvæði í stjórnarskrá. Fyrir rúmri viku sagði biskupinn ákvðið í Silfri Egils að þjóðkirkjan ætlaði ekki í kosningabaráttu vegna málsins.

Á mánudag birtist auglýsing á „mbl.is“. Og rétt áðan heyrði ég auglýsingu fyrir tíu-fréttir á Rás2 hjá RÚV.

Upplýsingavefur kirkjunnar leyfir ekki önnur sjónarmiða en skoðanir kirkjunnar.

Þá hélt biskup því ranglega fram að ef breyta ætti kirkjuskipan í stjórnarskrá þá þyrfti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta er rangt, þetta þarf aðeins ef breyta á kirkjuskipan með lögum án breytingar á stjórnarskrá, ekki ef breyta á stjórnarskránni sjálfri.

Biskup hélt því líka ranglega fram að Hæstaréttardómur væri fyrir því að þjóðkirkju fyrirkomulagið væri brot á mannréttindum.

Og biskup hélt því líka ranglega fram að úrskurðað hefði verið að þjóðkirkja stangaðist ekki á við mannréttindasáttmála Evrópu.