Sérann og hængurinn

Posted: desember 18, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, , ,

Prestur ríkiskirkjunnar skrifar pistil í Fréttablaðið í dag.

Þar býsnast hann yfir því að borga 1.100 krónur í sóknargjald og kirkjan fái ekki nema 700 krónur af því í sinn hlut. Látum vera hvort tölurnar eru réttar, en prestur talar  um „hæng“ á þessari framkvæmd.

Prestur gleymir að nefna þann „hæng“ á málflutningi sínum að ég þarf líka að borga þessar 1.100 krónur í sama sjóð þó ég tilheyri engu trúfélagi.

Prestur ber þetta svo saman við félagsgjöld í golfklúbbi. Sá „hængur“ er á þeim samanburði að þeir greiða einir félagsgjöld til golfklúbbsins sem vilja vera meðlimir, golfklúbburinn ákveður félagsgjöldin og innheimtir þau félagsgjöld sjálfur.

Þá má ekki gleyma þeim „hæng“ á málflutningi kirkjunnar að í kosningabaráttunni fyrir stjórnarskrárkosninguna staglaðist kirkjan á því að það réttlætti stöðu hennar og alla milljarðana úr ríkissjóði að hún hefði svo miklar skyldur og að allir gætu nýtt sér aðstöðu kirkjunnar án tillits til trúfélags. Biskup var reyndar eftirminnilega rekin á gat með fákunnáttu um samþykktir kirkjunnar þegar hún vissi ekki að kirkjan takmarkar þennan aðgang við að fólk sé í þjóðkirkjunni.

Svo óheppilega vill til að grein prestsins um hænginn birtist einmitt á sama tíma og hann sjálfur neitar fólki um aðgang að húsnæði kirkjunnar vegna þess að það vill ekki kaupa trúarlega þjónustu kirkjunnar. Þetta er nú ansi mikill „hængur“ á því að kirkjan sé sjálfri sér samkvæm.

Aðalatriðið er að þetta staðfestir að hér er ekki um nein félagsgjöld að ræða. Þetta er einfaldlega almennur skattur sem rennur í sameiginlegan sjóð. Og síðan greiðir ríkið kirkjunna fé til reksturs úr þessum sameiginlega sjóði. Svo einfalt er þetta nú.

Lokað er á athugasemdir.