Posts Tagged ‘forseti’

Forsetalingurinn

Posted: júlí 25, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég held að ég viti hvernig einfaldast er að koma Trump frá..

Ef við skoðum aðeins ferilinn, þá eyddi hann óhemju orku í að búa til ímynd af sér sem öflugum og hörðum viðskiptamanni með því að gera einhverja „raunveruleika“ sjónvarpsþætti um sjálfan sig. Þetta virðist nú hafa verið ansi brengluð mynd af kjaftagleiðri en getulausri rolu sem spilaði rassinn úr buxunum með arfinn frá pabba.

Fyrstu mánuðir forsetatíðar hans einkennast af allt of lítilli athygli á tilskipanir, rasískar, heimskulegar, hættulegar heilsu, ívilnanir til þeirri ofurríku, skipun fábjána í lykilstöður, takmörkun á vísindarannsóknum, viðskipti við þá sem stunda gróf mannréttindabrot…

Að sama skapi virðist athyglin beinast að innihaldslausum kjaftagangi, stórkarlalegum yfirlýsingum, svívirðingum, yfirkeyrðum athugasemdum, sjálfsvorkunn, myndbrotum þar sem hann gerir sig að fífli, hver vill halda í höndina á honum (og hver ekki) og hvernig honum er heilsað.

Ég held nefnilega að mögulega hafi hann engan sérstakan áhuga á völdum og ég held að hann hafi ekki nokkurn minnsta áhuga á að Ameríka verði aftur „stórkostleg“ – veit reyndar ekki hvort hann tekur El Salvador, Síle og Kanada í þær pælingar.

Ég held að hann sé athyglissjúkur, forsetatíðin sé yfirkeyrður raunveruleikaþáttur og um leið og fólk missir áhugann þá hypjar hann sig burtu..

(ætli það sé ekki nauðsynlegt að gera enska útgáfu af þessari færslu?)

Ég fékk athugasemd á Facebook við færslu um páfaummæli forsetans áður en hann varð forseti. Í athugasemdinni var vísað til gamals dægurlags, „á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint“.. reyndar ekki páfar, forsetar eða drottningar – enda ekki fallið vel að laglínunni (þetta var jú fyrir tíma rappsins) og jafnrétti ekki ofarlega í hugsa textasmiðsins.. og ekki veit ég hvað aukadelluorðið „hreint“ er að gera þarna. En það er önnur saga.

Og svarið við hvað á að gera við forsetaembættið blasti allt í einu við. Auðvitað eigum við bara að skipta þessu á milli okkar. Starfsskyldur eru litlar, engar skilgreindar kröfur, frekar lítið að gera og mögulega verða leiðindin til þess að fólk fer að telja sér trú um að þetta sé nú samt merkilegt.. og svo að það sjálft sé nú ómissandi. Forseti sefur aldrei, það þarf ekki handhafa forsetavalds með tilheyrandi akstri til og frá Keflavík.

Andy Warhol sagði víst (eða er amk. eignað) að í framtíðinni verði allir frægir í fimmtán mínútur.

Og skoðum nú eitt merkilegt.

Miðum við árslok 2015, þá voru Íslendingar 332.529 í árslok 2015. Í stjórnarskránni er krafa um að forseti þurfi að vera 35 ára og við skulum hlífa fólki sem komið er fram yfir sjötugt. Íslendingar á aldrinum 35-70 ára voru  141.903 í árslok 2015. Þá eru kröfur um óflekkað mannorð og kannski þurfa einhverjir að geta sagt sig frá þessu vegna heilsuleysis. Gerum ráð fyrir 230 manns nái ekki vegna mannorðsins. Svo hafa ekki allir líkamlega eða andlega heilsu og gefum okkur að 1% þurfi að biðjast undan vegna þess. Þá eru 140.256 sem þurfa að skipta starfinu á milli sín á kjörtímabilinu.

Kjörtímabil forseta er fjögur ár eða 1.461 dagur (eitt hlaupár inn á tímabilið). Í hverjum degi eru 24 klukkustundir og í hverri klukkustund 60 mínútur sem gera 1.440 mínútur í sólarhringnum. Þannig er kjörtímabilið  2.103.840 mínútur.

Skiptum þessu á milli 140.256 einstaklinga.

Og merkilegt nokk.. þetta gerir nákvæmlega 15 mínútur á mann!

Skilaboð frá æðri máttarvöldum? Dásamleg sönnun um framhaldslíf? Andy Warhol með yfirnáttúrlega hæfileika? Nei, nei, nei.. en kýrskýrt að þetta er lausnin.

Það má deila um það hvort og í hvaða tilfellum það sé rétt að greiða þjóðaratkvæði um um skatta. Gallinn við þá leið er auðvitað að skattgreiðendum hættir til að greiða atkvæði gegn sköttum, enda þurfa þeir oftast sjálfir, að borga. Þetta skiptir þó auðvitað ekki máli þegar meta átti hvort vísa bæri lögum um auðlindagjald í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við vorum ekki að fara fram á atkvæðagreiðsluna sem skattgreiðendur.

Við vorum að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu sem eigendur auðlindar og vildum fá að taka afstöðu til þess hvaða reglur eiga að gilda um nýtingu hennar.

Þess vegna settist forsetinn vitlausu megin við borðið þegar hann tók ákvörðun.

Og þess vegna varð ákvörðunin vitlaus.

Nánar um það síðar hvort rétt sé að greiða þjóðaratkvæði um tekjur og gjöld. Forsetinn hefur reyndar þegar sett fordæmi þess efnis að það sé í góðu lagi.

Í dag minnumst við þess að tvö ár eru liðin frá því forseti Íslands steig það gæfuspor að senda Alþingi heim og tók að sér að sjá um löggjöf sjálfur.

Þær efasemdar- og gagnrýnisraddir sem heyrðust sumarið 2015 hafa nú þagnað. Forsetanum hefur farist löggjöf einstaklega vel úr hendi og ríkisstjórnin sem hann hefur stýrt frá sama tíma hefur náð ótrúlegum árangri. Þá hafa landsmenn glaðst yfir þeirri miklu hrifningu sem einkavinir forsetans í Evrópu hafa lýst á störfum hans.

Ekki má gleyma hversu vel þær litlu breytingar sem forseti gerði á stjórnarskránni, í góðri sátt við sjálfan sig, hafa virkað.

Gríðarlegar breytingar hafa einnig orðið í allri fjölmiðlun eftir að forsetinn tók að sér umsjón þeirra, og gildir þetta jafnt um prentmiðla, ljósvakamiðla og vefmiðla – rifrildi, þras og hvers kyns gagnrýni er nú óþekkt – sátt og samlyndi einkennir nú þjóðlífið.

Við hér á vefsíðu Íslands hvetjum forseta vorn til að stíga skrefið til fulls og taka að sér embætti biskups.