Archive for the ‘Í ófullri alvöru’ Category

[úff, hann er búinn að tala stanslaust í þrjú korter, getum við ekki skipt aðeins um umræðuefni, mér fannst miklu skemmtilegra að …]

[usss… nei, nei, finnum eitthvað nýtt, hann hlýtur að þurfa að anda bráðum]

Já, einmitt, eins og ég segi, þú ert góður maður! Skál! En að öðru, við þurfum að finna okkur eitthvert gott mál til að keyra upp fylgi flokksins. Það er ekkert eins öruggt og að spila á smá þjóðernishyggju og sannfæra fólk um að einhverjir útlendingar séu að koma og stela frá þeim. Sjáiði Trump. Sjáiði Brexit. Þetta er skothelt.

Já, en við höfum nú kannski ekkert þannig til að vinna með.

Höfðu þeir eitthvað? Nei! Við bíðum ekki eftir að tækifærin komi upp í hendurnar á okkur, við búum þau til!

Gott og vel, ég er ekkert nema eyrun, ég heyrði meira að segja hjól bremsa úti á götu!

Mér dettur i hug að grípa reglugerðir frá Evrópusambandinu, þriðja orkupakka, gera hann að okkar baráttumáli!

Já, en þetta er bara þriðji liðurinn í nokkuð venjulegri rútínu sem skiptir engu máli.

Við stillum þessu upp sem stóru baráttumáli, blöndum sæstreng inn í málið…

Já, frábært, eitt af því sem ég gerði var að opna fyrir lagningu sæstreng, hitti David fyrir nokkrum árum og það var svo fyndið að..

Nei, nei, við verðum á móti lagningu sæstrengs!

Ha? Er eitthvert vit í því? Hvort sem er, það kemur þessum pakka ekkert við.

Það er ekkert svo flókið að tengja þetta saman, skal senda þér tölvupóst á morgun hvernig við hjólum í þetta!

Já, en, æ, ég veit, ekki við höfðum fullt af tækifærum til að gera athugasemdir við þennan orkupakka, þetta er einfalt tæknilegt atriði, ég sá að minnsta kosti ekkert athugavert við hann… verður ekki fólk tortryggið ef ég ætla allt í einu að vera á móti einhverju sem ég gerði engar athugasemdir við á sínum tíma.. og vera á móti sæstreng sem ég opnaði fyrir???

Eins og kjósendur komi til með að muna það! Ef einhver rifjar upp þá eru það bara persónulegar árásir, það virkar alltaf.

 

Banna skúringar?

Posted: janúar 11, 2017 in Í ófullri alvöru

Ég er aðeins að velta fyrir mér hvort ekki sé rétt að banna nokkrar starfsgreinar, til dæmis skúringar.

Sjálfum finnst mér þetta skelfilega leiðinlegt verk og get ekki ímyndað mér að nokkur velji sér þetta sem starf nema í algjörri neyð. Það að það sé eftirspurn eftir skúringum skiptir auðvitað engu. Og við skulum ekki láta okkur detta í hug að aðstoða fólk við að finna aðra valkosti.

Þá er þetta þreytandi starf, fer illa með úlnliði og olnboga þeirra sem starfa við þetta. Ég held að það sé fínasta hugmynd að banna skúringar.

Gleymum ekki að í mörgum tilfellum eru skúringar stundaðar af innfluttu vinnuafli sem býr við kröpp kjör og óprúttnir aðilar hagnast á aðstæðum þessa fólks.. fólk sem komið er til landsins allslaust, á ekki í önnur hús að venda og hefur ekki hugmynd um réttindi sín. Er ekki einfaldast að banna skúringar?

Svo er hugmynd að gera refsivert að kaupa skúringaþjónustu… Það myndi reyndar sennilega leiða til að skúringar yrðu að algerri neðanjarðarstarfsemi og endanlega vonlaust að tryggja þeim sem vilja starfa við skúringar réttindi. En okkur liði örugglega betur eftir að hafa sópað vandanum undir teppið.

Bönnum skúringar, fólk getur sópað upp eftir sig sjálft.

Í dag minnumst við þess að tvö ár eru liðin frá því forseti Íslands steig það gæfuspor að senda Alþingi heim og tók að sér að sjá um löggjöf sjálfur.

Þær efasemdar- og gagnrýnisraddir sem heyrðust sumarið 2015 hafa nú þagnað. Forsetanum hefur farist löggjöf einstaklega vel úr hendi og ríkisstjórnin sem hann hefur stýrt frá sama tíma hefur náð ótrúlegum árangri. Þá hafa landsmenn glaðst yfir þeirri miklu hrifningu sem einkavinir forsetans í Evrópu hafa lýst á störfum hans.

Ekki má gleyma hversu vel þær litlu breytingar sem forseti gerði á stjórnarskránni, í góðri sátt við sjálfan sig, hafa virkað.

Gríðarlegar breytingar hafa einnig orðið í allri fjölmiðlun eftir að forsetinn tók að sér umsjón þeirra, og gildir þetta jafnt um prentmiðla, ljósvakamiðla og vefmiðla – rifrildi, þras og hvers kyns gagnrýni er nú óþekkt – sátt og samlyndi einkennir nú þjóðlífið.

Við hér á vefsíðu Íslands hvetjum forseta vorn til að stíga skrefið til fulls og taka að sér embætti biskups.

Í tilefni þess að nú eru liðin tíu ár frá því að íslenska þjóðkirkjan lagði sjálfa sig niður hefur verið ákveðið að reisa styttu af þáverandi biskup á lóð Landsspítala.

Flestmu er væntanlega enn í fersku minni þegar forsvarsmenn þjóðkirkjunnar, í ársbyrjun 2014, sáu að þeim fjármunum sem runnu til kirkjunnar væri mun betur varið til heilbrigðisþjónustu. Í kjölfarið ákvað þjóðkirkjan að leggja sjálfa sig niður og láta allar eigur og allar tekjur renna til Landsspítalans. Árið áður hafði kirkjan hafið söfnun fyrir spítalann og þegar þeim peningum var komið til skila kviknaði hugmyndin hjá biskup.

Á þessum tímamótum sagði biskup:

Við sáum einfaldlega hversu mikið verk var unnið á spítalanum og okkur blöskraði að sjá erfiðar aðstæður starfsfólks, úrelt tæki og skelfilega lág laun. Við ákváðum að líta aðeins í eigin barm og okkur varð fljótt ljóst að við höfðum úr allt of miklu að spila og í rauninni lítið af verkefnum. Við vissum í rauninni stundum ekkert hvað við áttum að gera við allt það fé sem ríkið mokaði til okkar. Við höfðum frekar lítið að gera og launin voru svimandi há. Það var helst þegar almannatengslafólkið okkar var uppáfinningasamt sem við náðum svona ríflega hálfum vinnudegi. Ég fékk svo hugljómun þegar ég vaknaði daginn eftir og rifjaði upp boðskapinn sem kirkjan var byggð á. Þá var þetta í rauninni auðveld ákvörðun, þetta var einföld og augljós aðferð til að hjálpa fólk og lina þjáningar.

Óháðir söfnuðir hafa hins vegar staðist tímans tönn og reka sig hjálparlaust á frjálsum framlögum og sóknargjöldum félaga, sem þeir ákveða og innheimta sjálfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur nú bjargað fleiri þúsundum barna á þessari öld frá þeirri vá að komast ekki í kirkju.

Rannsóknarnefnd kirkjunnar komst að því fyrir síðustu aldamót að fjöldi barna var bara ekkert að fara í kirkju. Hrint var af stað öflugu átaki til að leysa þennan bráðavanda íslenskra barna. Átakið fólst í því að mæta í skóla og leikskóla og draga börnin í kirkju.

Foreldrar barnanna eru kirkjunni ævarandi þakklát.

Ánægður og trúrækinn faðir sagði við Baksýnisspegilinn: „Við vissum jú að það væri eitthvað til sem kallaðist kirkja og þangað væri hægt að sækja eitthvað sem hét messa. Við bara rötuðum ekki og þess vegna fóru börnin á mis við þennan mikilvæg þátt fyrstu ár ævinnar. Þökk sé kirkjunni þá hefur nú verið messað yfir börnunum okkar“.

Móðir nokkurra barna var klökk af þakklæti: „Guði sé lof að kirkjan greip inn í og náði í börnin. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að við foreldrarnir förum að hafa fyrir því að mæta með börnin í messu“.

Aðspurð um gagnrýni á þessar ferðir stóð ekki á svari.. „Já, það er ekki að þessu trúlausa pakki að spyrja. Ætlast þetta lið kannski til að við séum að sinna börnunum okkar? Eins og við höfum ekkert betra við tímann að gera? Þau geta bara sagt börnunum sínum að halda fyrir eyrun. Svo er sálfræðiþjónusta vegna eineltis orðin það góð að það gerir sko ekkert til þó einu og einu barni sé strítt“.

Innanríkisráðherra lýsti því yfir á heimasíðu sinni að hann teldi hófsöm og vel skipulögð glæpasamtök bestu vörnina gegn öfgafullum glæpum.

„Við vitum hvar við höfum þessa kalla og þeir gera í rauninni engum sérstaklega mikið mein. Þetta er allt í góðu hófi hjá þeim. Ekki viljum við hatramma og öfgafulla glæpamenn vaðandi hér uppi“.

Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Georg Tvöfalt Vaff Búss, hefur tilkynnt um framboð til forseta Íslands í forsetakosningunum sem fara fram í lok júní 2014.

Eins og kunnugt er hætti Ólafur Ragnar Grímsson nýlega störfum sem forseti til að taka við starfi sendiherra Kína á Indlandi. Ólafur sagði að það hafa alltaf verið að hreinu að hann hafi aðeins boðið sig fram til tveggja ára.

Aðspurður hvers vegna hann sækist eftir forsetaembættinu sagði Georg að hann hafi lengi haft mikið álit á íslenskum kjósendum og hafi langað til að vinna með þeim. Þeir íslensku hagi sér svipað og þeir bandarísku þegar kemur að kosningum, fáir hafi áhuga á staðreyndum, öllum sé sama um að frambjóðandi ljúgi sig hásan og skítkast á aðra frambjóðendur sé ódýr og skilvirk leið til að ná árangri.

Búss taldi lítið mál að ljúga sig út úr því að hann er ekki íslenskur ríkisborgari.

Þegar Baksýnisspegillinn spurði hvað hann ætlaði sér með valdalaust embætti stóð ekki á svarinu. „Ég hef lesið stjórnarskrána ykkar og forsetinn má gera hvað sem hann vill. Það er að segja að svo litlu leyti sem eitthvað stendur í þessu plaggi sem þið kallið stjórnarskrá. Og það litla sem þó stendur get ég túlkað eins og mér hentar“.

En hvers vegna Ísland? „Jú, þegar þið eru komin í Evrópusambandið get ég ráðið öllu þar líka. Stjórnarskráin ykkar segir..“