Allir forseti í fimmtán mínútur..

Posted: apríl 21, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég fékk athugasemd á Facebook við færslu um páfaummæli forsetans áður en hann varð forseti. Í athugasemdinni var vísað til gamals dægurlags, „á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint“.. reyndar ekki páfar, forsetar eða drottningar – enda ekki fallið vel að laglínunni (þetta var jú fyrir tíma rappsins) og jafnrétti ekki ofarlega í hugsa textasmiðsins.. og ekki veit ég hvað aukadelluorðið „hreint“ er að gera þarna. En það er önnur saga.

Og svarið við hvað á að gera við forsetaembættið blasti allt í einu við. Auðvitað eigum við bara að skipta þessu á milli okkar. Starfsskyldur eru litlar, engar skilgreindar kröfur, frekar lítið að gera og mögulega verða leiðindin til þess að fólk fer að telja sér trú um að þetta sé nú samt merkilegt.. og svo að það sjálft sé nú ómissandi. Forseti sefur aldrei, það þarf ekki handhafa forsetavalds með tilheyrandi akstri til og frá Keflavík.

Andy Warhol sagði víst (eða er amk. eignað) að í framtíðinni verði allir frægir í fimmtán mínútur.

Og skoðum nú eitt merkilegt.

Miðum við árslok 2015, þá voru Íslendingar 332.529 í árslok 2015. Í stjórnarskránni er krafa um að forseti þurfi að vera 35 ára og við skulum hlífa fólki sem komið er fram yfir sjötugt. Íslendingar á aldrinum 35-70 ára voru  141.903 í árslok 2015. Þá eru kröfur um óflekkað mannorð og kannski þurfa einhverjir að geta sagt sig frá þessu vegna heilsuleysis. Gerum ráð fyrir 230 manns nái ekki vegna mannorðsins. Svo hafa ekki allir líkamlega eða andlega heilsu og gefum okkur að 1% þurfi að biðjast undan vegna þess. Þá eru 140.256 sem þurfa að skipta starfinu á milli sín á kjörtímabilinu.

Kjörtímabil forseta er fjögur ár eða 1.461 dagur (eitt hlaupár inn á tímabilið). Í hverjum degi eru 24 klukkustundir og í hverri klukkustund 60 mínútur sem gera 1.440 mínútur í sólarhringnum. Þannig er kjörtímabilið  2.103.840 mínútur.

Skiptum þessu á milli 140.256 einstaklinga.

Og merkilegt nokk.. þetta gerir nákvæmlega 15 mínútur á mann!

Skilaboð frá æðri máttarvöldum? Dásamleg sönnun um framhaldslíf? Andy Warhol með yfirnáttúrlega hæfileika? Nei, nei, nei.. en kýrskýrt að þetta er lausnin.

Lokað er á athugasemdir.