Fordómahliðrunin

Posted: júlí 24, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég er ekki frá því að það sé að verða ákveðin hliðrun á því hvaða skoðanir teljast „jaðarskoðanir“. Þessi hliðrun virðast koma í kjölfar mikillar umræðu sem byggir á fordómum og fáfræði frá fólki sem telur í lagi að dæma heilu hópana út frá örfáum einstaklingum.

Það er nefnilega orðið ansi algengt að sjá og heyra yfirlýsingar um innflytjendur, flóttamenn og hópa sem ekki tilheyra einhverri áratuga staðalímynd um hverjir eigi (megi) búa á Íslandi. Alhæfingar sem settar eru fram út frá fáfræði og einstaka dæmum um einstaklinga (þess vegna ímynduðum) – svona allt eftir hentugleikum.

Sem dæmi eru allir innflytjendur / flóttamenn gjarnan stimplaðir út frá einu og einu dæmi um voðaverk sem eignuð eru innflytjendum / flóttamönnum. En þetta sama fólk dæmir hvorki alla Norðmenn, alla Bandaríkjamenn né sína eigin trúbræður til dæmis eftir voðaverkum Breivik eða fjöldamorðingja í Bandaríkjunum.

Það er svo rauður þráður frá þessum fordómafullu einstaklingum að þeir halda því fram að þeir séu bara að ræða málin, það sé ekkert að því að og kvarta um leið undan því að fólk þoli ekki aðrar skoðanir en sínar eigin.

Sem er aftur nokkuð skondið í ljósi þess að fæstir þeirri vilja yfirhöfuð nokkuð „ræða málin“ heldur bregðast ókvæða við allri umræðu, svörum, leiðréttingum og ábendingum um rangfærslur – hvað þá að þeir þoli að þeirra eigin skoðanir séu gagnrýndar. Því fer nefnilega víðs fjarri að þeir þoli öðrum að hafa skoðanir sem þeim líkar ekki. Það er svo nánast sjálfgefin rútína að þeir sem voga sér að svara fordómunum og hafa aðra skoðun fá yfir sig fúkyrðaflaum – ef ekki óskir um að viðkomandi megi nú bara deyja sem fyrst.

Svo rammt kveður að þessu að fólk sem hefur frammi hógværar skoðanir, bendir á mikilvægi þess að virða mannréttindi og varar við að dæma heilu hópana eftir snarbiluðum einstaklingum (eitthvað sem ætti nú að vera sjálfsagt og óþarfi að ræða) er allt í einu komið á jaðarinn sem eitthvert öfgafólk.. öfgafólk sem kallar sjálft yfir sig dónaskap, uppnefni, hótanir og óskir um dauða.

Það er einhvern veginn eins og fáfræðin, vanþekkingin, mannfyrirlitning og hatrið séu að færa meðalveginn eitthvað langt til hliðar.

 

Lokað er á athugasemdir.