Einhverra hluta vegna finnst mér að ég þurfi að útskýra og afsaka hvers vegna ég mæti ekki á alla viðburði sem mér er boðið að mæta á.
Ég fæ ógrynni af boðum um að mæta á alls kyns viðburði, aðallega í gegnum Facebook upp á síðkastið.
Fyrir það fyrsta þá erum við Iðunn ákaflega dugleg að halda sambandi við vini og kunningja – og erum gjarnan bókuð í alls konar samkomur, hittinga, vinnupartý, matarboð og ég veit ekki hvað – þess vegna bæði föstudag og laugardaga – oftar en ekki margar helgar í röð. Ef ekki, þá finnst okkur ekki verra að fá okkur bjór á meðan við erum að elda og rauðvín með matnum.. sem þýðir að við erum ekki ökufær. Leigubílaferðir úr Breiðbolti og til baka eru ekki beinlínis gefnar og strætóferðir taka gjarnan ansi góða tíma og eru sjaldan í boði þegar við erum á ferðinni.
Ekki misskilja, ég vil endilega fá sem flest boð og fá að vita af sem flestum viðburðum. En það er auðvitað útilokað að mæta á allt sem ég frétti af.. mér finnst gaman að mæta á (helst ólíka) viðburði ef ég get… en eins og ég segi, oftast erum við nú búin að ákveða hvað við gerum nokkuð (langt) fram í tímann.
Hafi ég lausan tíma þá er forgangsröðin auðvitað að grípa eitthvað sem mig virkilega langar að sjá. Og ef ég þarf að velja á milli nokkurn veginn jafn áhugaverðra viðburða þá vel ég frekar að kíkja ef sá/sú/þeir/þau sem bjóða mér hafa mætt á viðburði sem ég hef verið að skipuleggja. Svona einhvers konar gagnkvæm tillitssemi og/eða virðing.