Svona rétt í kjölfar þess að ég lýsti yfir stuðningi við pírata greip mig óstjórnleg þörf til að fara að ræða höfundarréttarmál..
Ég er ekki talsmaður þess að beita aðferðum sem skerða persónufrelsi eða brjóta mannréttindi á fólki.
Ég er talsmaður þess að fræða fólk, segja hvers vegna það er rangt að taka efni ófrjálsri hendi og vonast þannig til að ná árangri.
Rökleysurnar fyrir ólöglegri dreifingu fara nefnilega talsvert í taugarnar á mér, ef við skoðum aðeins hvernig færi ef sömu hugmyndafræði væri beitt í víðara samhengi.
Ofbeldi er auðvitað ekki löglegt og auðvitað viljum við ekki að þeir sem beita ofbeldi komist upp með það. |
Að dreifa og taka efni í leyfisleysi er auðvitað ekki löglegt og auðvitað viljum við ekki að þeir sem dreifa efni ólöglega komist upp með það. |
En það er erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir ofbeldi. Sennilega væri eina mögulega leiðin sú að setja upp eftirlitsmyndavélar í hverju skúmaskoti og vakta allan sólarhringinn. Það finnst okkur (vonandi) óásættanleg innrás í einkalíf fólks og fráleit skerðing á persónufrelsi. |
En það er erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir ólöglega dreifingu efnis. Sennilega væri eina mögulega leiðin sú að setja upp eftirlit með allri netumferð, á hverri tölvu og síma og vakta allan sólarhringinn. Það finnst okkur (vonandi) óásættanleg innrás í einkalíf fólks og fráleit skerðing á persónufrelsi. |
Við samþykkjum samt ekki að lögleiða ofbeldi. Við segjum ekki, fólk verður bara að sætta sig við að raunveruleikinn er svona. Við höldum áfram að segja fólki að þetta sé rangt, við höldum áfram að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og reynum allt sem við getum til að minnka. |
Við samþykkjum samt ekki að lögleiða ólöglega dreifingu efnis. Við segjum ekki að fólk verði bara að sætta sig við að raunveruleikinn sé svona. Við höldum áfram að segja fólki að þetta sé rangt, við höldum áfram að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og reynum allt sem við getum til að minnka það. |
Gott og vel, ofbeldi og ólögleg dreifing efnis eru ólíkir hlutir, en rök þeirra sem tala um að fyrst ekki sé hægt að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu efnis þá verðum við að sætta okkur við það, þau eru jafn vitlaus – og við sættum okkur vonandi seint við rökleysurnar fyrir ólöglegri dreifingu efnis þegar ofbeldi á í hlut.