Aðeins um fjársýslukerfin

Posted: september 27, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef aldrei haft vit á að forðast það að hætta mér út á hálan ís – og fer ekki að taka upp á því núna.

Ég hef fylgst með umfjöllun um tölvukerfi Fjársýslu ríkisins. Ég þekkti aðeins til á sínum tíma, en hef óneitanlega lítið fylgst með síðustu árin. Þá þekki ég suma þeirra einstaklinga sem hafið komið að verkefninu – frá ýmsum hliðum.

Og áður en lengra er haldið:

  • Ég er ekki að verja þetta verkefni í heild. Alls ekki.
  • Ég er ekki að skrifa þetta af greiðasemi við einhvern.
  • Það er alveg á hreinu að það má (á) að fjalla um svona mál opinberlega.
  • Ég get ekki með nokkru móti skilið þann drátt sem orðið hefur á skýrslu Ríkisendurskoðunar, án þess að hafa hugmynd um hvað veldur.
  • Mér finnast viðbrögðin við því að skýrslunni hafi verið „lekið“ fráleit.

En ég fer gjarnan í baklás þegar umræðan verður of einsleit – og þarf einhvern veginn oft að vera ósammála öllu og öllum.

Nokkur atriði finnast mér að minnsta kosti ósanngjörn eða ruglingsleg í þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið. Og það er lykilatriði að svona umræða sé málefnaleg og markviss.

Það sem truflar mig er:

  • Upphaflega fjárhæð í fjárlögum (sem líklega var ranglega kynnt fyrir þinginu) er notuð til viðmiðunar í stað fjárhæðar tilboðanna.
  • Fjárhæðin til að kaupa kerfið er notuð til að bera saman við kaup, breytingar og rekstur á ellefu árum.
  • Gefið er í skyn að fyrrum forstjóri Skýrr hafi hyglað fyrirtækinu við val á kerfi. Þetta er auðvitað fráleitt, nýir eigendur settu viðkomandi af sem forstjóra og hann hætti fljótlega hjá fyrirtækinu. Er líklegt að hann myndi hygla fyrirtækinu? Var kannað hvaða afstöðu viðkomandi hafði til kerfanna? Eða var betra (auðveldara) að ýja að einhverju óeðlilegu án þess að kanna staðreyndir?
  • Álit starfsmanna Ríkisendurskoðunar að annar valkostur hafi verið betri er tekinn sem einhvers konar stóri dómur í mati á kerfunum. Nú hef ég engar forsendur til að meta hvort (hvert) kerfið hentaði betur (best) en ég veit að þetta er mjög flókið verkefni og eiginlega fráleitt að gefa sér að til sé eitt rétt og afdráttarlaust svar.
  • Litið er á ákvarðanir um aðgangsstýringar sem áfellisdóm yfir kerfinu og getu þess.
  • Sama gildir um verklagsreglur við notkun kerfisins.
  • Ég veit ekki hversu vel kröfur til kerfisins voru skilgreindar eða hvernig þær hafa breyst á þeim tólf árum sem liðin eru. Gjarnan breytast kröfur til svona kerfa á styttri tíma, bæði vegna þess að starfsemi breytist, umhverfið breytist og sama gildir um mögulega tækni.
  • Þá hafa verið nefnd dæmi um villur, hvort þær voru ein eða fjórar er ekki aðalatriði… en ég þekki hugbúnaðargerð ágætlega og ég hef ekki enn séð fullkomlega villufrían hugbúnað af þessari stærðargráðu.
  • Undirskrift verklokasamnings eru talin til mistaka vegna þess að ekki var búið að afhenda alla hluti. En það gleymist að lykilþættir voru komnir í rekstur og varla óeðlilegt að þeir séu afgreiddir þannig, ma. til að fá uppfærslur.
  • Fjölskyldutengsl manns manns sem vann hjá Skýrr árum áður en bróðir hans tók við stöðu Ríkisendurskoðanda, löngu eftir kaupin, eru gerð tortryggileg.
  • Pistlar sem leggja viðskiptin að jöfnu við starfsemi Mafíunnar á Ítalíu.

Það má vel vera að margt hafa farið illa úrskeiðis í þessari innleiðingu. Það er allt eins líklegt að kerfið hafi verið of dýrt og sé ekki nógu gott. Þetta þekki ég ekki. Og það er sjálfsagt að ræða málið og fjalla um það opinberlega.

En mig langar sem sagt að biðja um betri umræðu. Eins og svo oft áður.

Athugasemdir
  1. Kjartan R Guðmundsson skrifar:

    Sammála. Það er svo hætt við að vera stimplaður „vinur“ einhvers hugbúnaður ef maður fer að tjá sig um svona efni. En það er margt í þessari umræðu sem er undarlegt jafnvel heimskulegt. Maður fer að trúa þvi sem hraut úr munni Geirs Haarde á sínum tíma…..

  2. Birna skrifar:

    Ég ætlaði nú ekki að blanda mér í þessa umræðu en þessi póstur finnst mér voða þunnur, meira svona að vera á móti til að vera á móti.
    ■Upphaflega fjárhæð í fjárlögum (sem líklega var ranglega kynnt fyrir þinginu) er notuð til viðmiðunar í stað fjárhæðar tilboðanna.
    Breytir því samt ekki að þetta var upphæðin sem var kynnt þinginu, hvar svo sem mistökin liggja.
    ■Fjárhæðin til að kaupa kerfið er notuð til að bera saman við kaup, breytingar og rekstur á ellefu árum.
    Fjárhæðin sem er búið að nota til breytinga og rekstri á kerfinu er komin upp í mjög háar tölur óháð því hvort hún er borin saman við upphaflegu fjárhæðina eða ekki. Ef ég hef tekið rétt eftir var t.d. gert ráð fyrir um 50 milljónum í árlegan rekstur en hefur farið í 500 milljónir.
    ■Gefið er í skyn að fyrrum forstjóri Skýrr hafi hyglað fyrirtækinu við val á kerfi. Þetta er auðvitað fráleitt, nýir eigendur settu viðkomandi af sem forstjóra og hann hætti fljótlega hjá fyrirtækinu. Er líklegt að hann myndi hygla fyrirtækinu? Var kannað hvaða afstöðu viðkomandi hafði til kerfanna? Eða var betra (auðveldara) að ýja að einhverju óeðlilegu án þess að kanna staðreyndir?
    Hvaða staðreyndir á að kanna, skil það ekki alveg? Það sem er óeðlilegt er að tveir fyrrum starfsmenn Skýrr til margra ára, nýhættir hjá fyrirtækinu tóku þátt í ákvörðunartökunni um kerfisval. Sérstaklega þegar valið virðist hafa verið mjög gagnrýnilegt.
    ■Álit starfsmanna Ríkisendurskoðunar að annar valkostur hafi verið betri er tekinn sem einhvers konar stóri dómur í mati á kerfunum. Nú hef ég engar forsendur til að meta hvort (hvert) kerfið hentaði betur (best) en ég veit að þetta er mjög flókið verkefni og eiginlega fráleitt að gefa sér að til sé eitt rétt og afdráttarlaust svar.
    « Það var samdóma álit þeirra að yfirburðir SAP hafi verið miklir …» Ég hef ekki séð að Ríkisendurskoðun hafi sagt að annar valkosturinn hafi verið betri, heldur frekar að líkur séu á því að hann hafi verið betri og hefði átt að kanna betur. Eina ástæðan fyrir að Ríkið var sýknað af skaðabótakröfu Nýherja var tæknilegt atriði. Kærunefnd útboðsmála var sammála kæru Nýherja.

    ■Litið er á ákvarðanir um aðgangsstýringar sem áfellisdóm yfir kerfinu og getu þess.
    Ég hef ekki skilið umræðuna þannig að það sé áfellisdómur yfir kerfinu, heldur yfir uppsetningu og rekstri kerfisins sem skapi mikla áhættu á misnotkun kerfisins. Það er galli á þessu kerfi að kerfið er þannig sett upp að sama manneskjan getur bókað, samþykkt og greitt reikninga og jafnvel séð og breytt hjá öðrum stofnunum en sinni eigin. Þetta kerfi er sett svona upp og er því öryggisgalli á þessu kerfi, þó önnur Oracle EBS kerfi séu kannski ekki sett svona upp.
    ■Sama gildir um verklagsreglur við notkun kerfisins.
    Sama hér, áfellisdómur yfir verklagsreglum á þessu kerfi, ekki Oracle EBS kerfum almennt.
    ■Ég veit ekki hversu vel kröfur til kerfisins voru skilgreindar eða hvernig þær hafa breyst á þeim tólf árum sem liðin eru. Gjarnan breytast kröfur til svona kerfa á styttri tíma, bæði vegna þess að starfsemi breytist, umhverfið breytist og sama gildir um mögulega tækni.
    Skil ekki alveg, ertu að meina að breytingakostnaður kerfisins gæti verið svona mikill vegna breyttna krafna eða tækni.
    ■Þá hafa verið nefnd dæmi um villur, hvort þær voru ein eða fjórar er ekki aðalatriði… en ég þekki hugbúnaðargerð ágætlega og ég hef ekki enn séð fullkomlega villufrían hugbúnað af þessari stærðargráðu.
    Villurnar sem bent hefur verið á hafa verið mjög alvarlegar og tekið langan tíma að laga. T.d. virðist sem uppfærslan 2010 hafi valdið miklum vandræðum bæði vegna afstemmingar á ríkisreikningum og þess að aðlaganir hafi almennt dottið út. Nú er það svo að önnur Oracle EBS kerfi hafa líka aðlaganir og það eru til viðurkenndir ferlar við aðlaganir þegar uppfærslur eru framkvæmdar. Það er ekki eins og það sé ekki vitað um að það séu aðlaganir í þessu kerfi og það þarf að laga þær að uppfærðu kerfi og prófa.
    ■Undirskrift verklokasamnings eru talin til mistaka vegna þess að ekki var búið að afhenda alla hluti. En það gleymist að lykilþættir voru komnir í rekstur og varla óeðlilegt að þeir séu afgreiddir þannig, ma. til að fá uppfærslur.
    Ég held að það sé sjaldgæft að skrifað sé undir verklokasamning þegar svona mörg atriði eru útistandandi. Sérstaklega er ámælisvert það atriði að borga rekstur á kerfishlutum sem eru ekki einu sinni komnir í rekstur.
    ■Fjölskyldutengsl manns manns sem vann hjá Skýrr árum áður en bróðir hans tók við stöðu Ríkisendurskoðanda, löngu eftir kaupin, eru gerð tortryggileg.
    Sveinn Arason hefur ekki enn tekist að sýna fram á nein rök fyrir ¬því að vinnan við þessa skýrslu hefur dregist svona. Ég held að það sé ekki bara á Íslandi sem sterk fjölskyldutengsl verða grunsamleg þegar ekki er hægt að rökstyðja svona klúður á neinn hátt.
    ■Pistlar sem leggja viðskiptin að jöfnu við starfsemi Mafíunnar á Ítalíu.
    Hef að vísu ekki séð svona pistla, en er sammála því að það er ekki beint trúverðugt. Ég sé allavega ekki neinn fyrir mér drepa eða pynta fólk vegna þessa kerfis.

    Það er sérstaklega eitt atriði sem mér finnst sláandi en hef ekki séð mikið fjallað um. Það er að farið var í uppfærsluna 2010 vegna þess að Skýrr gat ekki á annan hátt tryggt að hafa innanborðs þekkingu og reynslu á kerfin. Ég hef aldrei vitað það fyrr að birgji geti selt vöru sína, í þessu tilviki þjónustu, en jafnframt farið fram á að viðskiptavinurinn borgi fyrir það að birginn geti staðið við þá þjónustu sem hann selur. Í mínum kokkabókum þá kemst maður ekki langt á því að selja vöru sem ekki er svo hægt að standa við afgreiðslu á.

  3. Þetta er ekki skrifað bara til að vera á móti, heldur til að benda á ruglingslega umræðu. Ég er ekki að einblína á umfjöllun Kastljóss heldur er þessu líka – og kannski sérstaklega – beint til þeirra sem hafa tekið málið upp..

    [Varðandi upphafleg fjárlög] þá var þetta kynnt þannig að verksali hefði farið þetta mikið fram úr upphaflegu verði.. umræðan fór út í þetta. „seljandi sagði að kerfið ætti að kosta 160m en rukkaði 4.000m“.

    [Samanburður á fjárhæðum] Það er rétt að þarna er munur, en hann er ekki eins mikill og gefið er í skyn.

    [Fyrrum starfsmenn Skýrr] Það er að mínu viti fráleitt að gefa sér að maður sem er farinn frá fyrirtæki sé sérstaklega hliðhollur því. Það hefði tekið 5 mínútur að spyrja viðkomandi hvaða kerfi hann vildi. Þess í stað eru dylgjur settar fram. Þetta eru óvönduð vinnubrögð.

    [Val á kerfi] Í Kastljósi var lesið upp álit starfsmanna Ríkisendurskoðunar eins og þar færi ekkert á milli mála. Ég veit að dómurinn féll á tækniatriði, en ég er að gagnrýna að látið var eins og þetta hafi verið svart-hvít ákvörðun.

    [Kerfið eða verklag] Það er punkturinn hjá mér að í þessari umræðu er öllu grautað saman og er sem sagt ekki að einblína á umfjöllun Kastljóss.

    [Breytingakostnaður] Nei, ég er ekki að segja að þetta skýri sjálfkrafa allan kostnað umfram upphaflegar áætlanir. En mér þykir ekki rétt að horfa alveg framhjá mögulegum skýringum, amk. á hluta af þessu.

    [Villur] Það hafa kannski verið fleiri villur, ég þekki þetta ekki, en þau dæmi sem ég hef séð voru ekki mörg.

    [Rekstrarsamningur] Aftur þekki ég ekki hvaða atriði voru útistandandi, en klárlega voru stórir hlutar komnir í rekstur. Sennilega hefði verið eðlilegra að skipta þessu upp og miða við það sem var komið í rekstur. En þarna fer umræðan á flakk og látið eins og ekkert hafi verið komið í rekstur.

    [Ríkisendurskoðun] Það er rétt að ég hef ekki séð fullnægjandi skýringu á því hvers vegna skýrslan hefur dregist. Sumir láta eins og það að annar bróðirinn var Ríkisendurskoðandi mörgum árum eftir valið hafi haft áhrif á hvaða kerfi var valið. Sá sem vann hjá Skýrr var löngu hættur áður en bróðir hans varð Ríkisendurskoðandi. Ég sé ekki að fjöldutengsl hafi mögulega haft einhver áhrif. Enn eru þetta einhverjar dylgjur og erfitt er að sjá hvernig þetta hefði áhrif.

    [Mafían] Pistill Sigrúnar Davíðsdóttur á Rás2 á þriðjudag gekk út á þetta.

  4. Birna skrifar:

    Við erum trúlega ekki að lesa sömu vefsíðurnar, ég hef mest fylgst með Kastljós umræðunni og fundist hún málefnaleg og góð að mestu leyti þótt kannski sé reynt að gera fleira tortryggilegt enn þarf. Mér finnst heldur ekki sjálfgefið að þótt fyrrum starfsmaður Skýrr hafi hætt þar, að þá sé hann á móti því fyrirtæki, neitt frekar en að sjálfgefið sé að hann sé hliðhollur fyrirtækinu. Það er bara verið að benda á þessi tengsl. Það er líka alveg möguleiki að fjölskyldutengsl hafi áhrif þegar talað er um að einn bróðir eig að rannsaka starfshætti annars á ákveðnu tímabili þótt hann sé ekki tengdur þessum málum í dag.
    Ég er sammála þér með umræðuna á Íslandi, hún er oft alveg óskiljanlegt og margir sem ausa úr sorpskálum sínum á netið og enn fleiri sem fullyrða furðulegustu hluti sem eru svo endurteknir sem sannleikur um víðan völl.