Posts Tagged ‘Ojba Rasta’

Ég kíkti á Gaukinn föstudagskvöldið á Reggae kvöld hjá þeim.. skemmtileg hugmynd.. og sá Ojba Rasta.

Ég hef fylgst með hljómsveitinni í nokkur ár og hún er klárlega ein besta hljómsveit landsins – og auðvitað ekki bara landsins. En frábærir hljómleikar, og gaman að sjá hversu „sjóuð“ þau eru orðin og ekki síður að finna hvað þeim finnst þetta gaman sjáfum.

Þaðan lá leiðin á Rokkbarinn í Hafnarfirði – náði reyndar ekki öllu seinna „settinu“ hjá Ojba Rasta vegna leigbílaferðasparnaðar – og náði þar þremur hljómsveitum að hluta amk. Casio Fatso þétt og flott alvöru rokkhljómsveit sem ég þarf að ná að sjá aftur. Morgan Kane hafa sennilega aldrei verið betri, það vantaði að vísu hljómborðsleikara, söngkonu (Tinnu, ef ég man rétt) og hljómsveitin hljómaði óneitanlega öðru vísi án hennar. Ég hef eiginlega alveg tvær skoðanir, hljómborðin og röddin gera heilmikið en í hina röndina er ég alltaf hrifinn af einföldum rokkhljómsveitum. Dorian Gray voru svo þrælgóðir, einverra hluta vegna minna þeir mig á Paul Weller / Style Council og Placebo… án þess að hljóma í rauninni nokkuð líkt hvorugum þeirra, bara einhver tilfinning, og þeir kunna mér væntanlega litlar þakkir fyrir tenginguna – en er nú samt hrós.

Þá verð ég að hrósa Íslenska Rokkbarnum fyrir að vera til, óneitanlega svolítið út úr leið, en frábært að einhver skuli nenna að standa í að reka svona stað.

PS. hvaðan kemur annars þessi lína að láta hljómsveitir heita eftir einhverjum? ekki svo að skilja að það sé verra en eitthvað annað, en skrýtið.

Ný tónlist

Posted: september 20, 2012 in Tónlist
Efnisorð:, , , ,

Það er heldur betur að detta inn ný tónlist þessa dagana, eftir frekar rólega mánuði… mig minnir að Hellvar platan, „Stop That Noise“, sé sú næsta á undan sem ég hlustaði á, svona að minnsta kosti eitthvað að ráði.

Ojba Rasta platan kom í síðustu viku. Frábær plata frá einni mest spennandi hljómsveit landsins. Sterkustu lögin voru reyndar komin út og svo sakna ég að minnsta kosti eins lags frá hljómleikum. En í heildina flott plata. Ég man ekki eftir eins vel heppnaðri íslenskri Reggae hljómsveit, það er eitthvað „ekta“ við Ojba Rasta. Sum lögin eru reyndar nær því að vera Ska en Reggae, en það er fyrir það fyrsta ekkert verra, fyrir utan að auðvitað skipta svona stimplar ekki nokkru máli.

Ég keypti svo nýja EP plötu Pollock bræðra í gær – og kom satt að segja nokkuð á óvart. Ég þóttist reyndar vita að þetta yrði ekki í anda Bodies, en þetta er óneitanlega „lengra“ út í kántrí / blús en ég átti von á – og gera bara helv.. vel. Að minnsta kosti stend ég mig að því að hlusta á hana aftur og aftur í óvenju mörgum bílferðum í dag.

Dizzy Ninjas eru svo með „Hefur þig langað“ í spilun, sérstakt og heillandi lag sem ég er nokkuð viss um að á eftir að heyrast vel í haust / vetur.

Ég er ekki almennilega kominn í gegnum nýju Vaccines plötuna, „Come Of Age“. „What Did You Expect..“ er sú plata frá síðasta ári sem ég hlustaði hvað mest á og hlakkaði til að heyra nýtt efni. Ég stóð mig kannski mest að því að hlusta á viðbótarefnið, gömlu lögin á hljómleikum. En mér leist satt að segja ekkert sérstaklega á gripinn í fyrstu, fannst hún minna mig á Strokes (sem er ekki jákvætt) en hún vinnur talsvert á við að renna oftar í gegn.

Og svo er ég að bíða eftir nýju Green Day plötunni, þó fyrsta lagið lofi nú ekki góðu. Eiginlega langt frá því.

Og jú, ég þekki auðvitað vel til margra þessara hljómsveita.. sonurinn er í Dizzy Ninjas, við Pollock bræður eru góðir og gamlir félagar frá upphafsárum okkar Fræbbbla og nýlega höfum við átt gott samstarf við Ojba Rasta… fyrir utan að þekkja suma meðlimina utan þeirrar dagskrár.