Það er heldur betur að detta inn ný tónlist þessa dagana, eftir frekar rólega mánuði… mig minnir að Hellvar platan, „Stop That Noise“, sé sú næsta á undan sem ég hlustaði á, svona að minnsta kosti eitthvað að ráði.
Ojba Rasta platan kom í síðustu viku. Frábær plata frá einni mest spennandi hljómsveit landsins. Sterkustu lögin voru reyndar komin út og svo sakna ég að minnsta kosti eins lags frá hljómleikum. En í heildina flott plata. Ég man ekki eftir eins vel heppnaðri íslenskri Reggae hljómsveit, það er eitthvað „ekta“ við Ojba Rasta. Sum lögin eru reyndar nær því að vera Ska en Reggae, en það er fyrir það fyrsta ekkert verra, fyrir utan að auðvitað skipta svona stimplar ekki nokkru máli.
Ég keypti svo nýja EP plötu Pollock bræðra í gær – og kom satt að segja nokkuð á óvart. Ég þóttist reyndar vita að þetta yrði ekki í anda Bodies, en þetta er óneitanlega „lengra“ út í kántrí / blús en ég átti von á – og gera bara helv.. vel. Að minnsta kosti stend ég mig að því að hlusta á hana aftur og aftur í óvenju mörgum bílferðum í dag.
Dizzy Ninjas eru svo með „Hefur þig langað“ í spilun, sérstakt og heillandi lag sem ég er nokkuð viss um að á eftir að heyrast vel í haust / vetur.
Ég er ekki almennilega kominn í gegnum nýju Vaccines plötuna, „Come Of Age“. „What Did You Expect..“ er sú plata frá síðasta ári sem ég hlustaði hvað mest á og hlakkaði til að heyra nýtt efni. Ég stóð mig kannski mest að því að hlusta á viðbótarefnið, gömlu lögin á hljómleikum. En mér leist satt að segja ekkert sérstaklega á gripinn í fyrstu, fannst hún minna mig á Strokes (sem er ekki jákvætt) en hún vinnur talsvert á við að renna oftar í gegn.
Og svo er ég að bíða eftir nýju Green Day plötunni, þó fyrsta lagið lofi nú ekki góðu. Eiginlega langt frá því.
Og jú, ég þekki auðvitað vel til margra þessara hljómsveita.. sonurinn er í Dizzy Ninjas, við Pollock bræður eru góðir og gamlir félagar frá upphafsárum okkar Fræbbbla og nýlega höfum við átt gott samstarf við Ojba Rasta… fyrir utan að þekkja suma meðlimina utan þeirrar dagskrár.
Það er allt morandi í nýrri tónlist, sérstaklega núna síðsumars – Nýjar plötur með Ariel Pink’s Haunted Graffiti, Sebadoh, Mission of Burma, Swans (rosalegt stöff!), Deerhoof og nú síðast alveg æðisleg plata með Grizzly Bear. Þú ættir að tékka á þessu…
Takk, já, það fer greinilega allt of mikið fram hjá manni… þó ég reyni að fylgjast með.