Eitt mesta stemmingslag frá upphafsárum punk-tímabilsins var lagið If The Kids Are United með Sham 69.
Ég man eftir að fara í fyrsta skipti til London haustið 1978 með Hálfdáni, Hákoni og Stebba. Fyrsta lagið sem við heyrðum þegar við kveiktum á útvarpinu á hótelinu okkar, YMCA við enda Oxford Street, var Sunday Morning Nightmare – Stebbi orðaði það eitthvað á þá leið að nú væri heldur betur búið að „hringja til messu“. Frábært lag, en þetta var bara B-hliðin á lítilli plötu – á hinni hliðinni var aðallagið, If The Kids Are United.
Við hlustuðum talsvert á Sham 69, reyndar aðallega litlar plötur, og við Fræbbblar spiluðum lagið Hurry Up Harry á fyrstu mánuðum ferilsins.
Þegar við tókum svo upp á því fyrir nokkrum árum að minnast upphafsára punksins – meðlimir Fræbbblanna og margra annarra hljómsveita sem voru að spila á þessum árum – þá var If The Kids Are United lokalagið (Fivebellies tóku líka Borstal Breakout).
Sham 69 spila á Gauknum næsta föstudagskvöld, 17. nóvember… við Fræbbblar verðum með, líka Leiksvið Fáránleikans og Roð…
Frábært!