Það kom fram nokkuð hávær hópur fyrr á árinu sem fann múslimum allt til foráttu og taldi sig vera að verja einhver kristin gildi Íslendinga, hver svo sem þau eru nú annars.
Ég er reyndar alveg sammála þessum hóp að einu leyti, við eigum að sporna við öfgum og mannfyrirlitningu í nafni trúar, hver svo sem trúin er.. og það er jú, vissulega rétt að margir múslimar hafa gengið fram með miklu hatri í nafni trúarinnar.
Ég svo ósammála þeim að því leytinu til að mér dettur ekki í hug að yfirfæra hegðun nokkurra yfir á allan hópinn, þess vegna mega hófsamir múslimar (eins og aðrir) hafa sína trú í friði, bara á meðan þeir láta mig í friði.
Nú ber svo við að nokkurn veginn nákvæmlega sami hópur er að missa sig yfir því að gerðar séu athugasemdir við það að kirkjan fór nýlega að sækja í skólabörn á skólatíma. Nei, þetta er ekki gömul hefð, þetta er til þess að gera nýbyrjað.
Það er nefnilega skondið og um leið grátlegt að hugsa til þess að þessi ásókn kirkju og trúarhópa er (segjum nánast) hvergi samþykkt nema í þeim löndum þar sem öfgatrúarmenn hafa völdin. Og í nokkrum (mörgum?) sveitarfélögum á Íslandi. Og einhverjir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa kveðið sér hljóðs og telja þetta í góðu lagi.
Ég man ekki eftir því að rithöfundar hafi sótt í börn á skólatíma þegar ég var að alast upp. Er ekki rétt að taka fyrir það líka?
http://www.visir.is/skaldatimi-i-melaskola/article/2012120909303
Ég man ekki heldur eftir því að tónlistarmenn hafi sótt í börn á skólatíma þegar ég var að alast upp. Þetta virðist til þess að gera nýbyrjað. Er þetta í góðu lagi?
http://www.pressan.is/Menningarpressan/Lesa_Sigild_tonlist/reykjavik-bydur-tonvisindasmidjur-i-anda-bjarkar-i-ollum-grunnskolum-?pressandate=20120912
Nú ertu að rugla saman tveimur gjörólíkum hlutum.. en það er svo sem eftir öðru í þessari umræðu.
Ef þú vilt halda samlíkingunni þá væri ásókn kirkjunnar sambærileg við að eitt bókaforlag / tónlistarútgáfa kæmi í skólann, færi með börnin úr skólanum í útgáfuna og kynnti eingöngu sínar bækur / hljómplötur.
En, nei, það væri ekki einu sinni sambærilegt.
Því þú ert aðallega að rugla því að mennta og fræða saman við trúboð – því það fer sannanlega fram óskammfeilið trúboð í þessum kirkjuheimsóknum, næg eru dæmin. Og þar er freklega gengið á rétt fjölskyldna og troðið á sjálfsögðum mannréttindum sem kallast „trúfrelsi“.
Það er í lagi mín vegna að kennari fái prest til að kynna skoðanir og viðhorf kristinna (eða annarra lífsskoðunarfélag) á þeim forsendum að verið sé að kynna viðhorf. En það er ekki í lagi að draga börnin í kirkju og láta þau biðja bænir. Þú hlýtur að sjá muninn á þessu. Nei, kannski ekki.
Mér finnst spennandi að skoða hluti í samhengi án þess að um beinan samanburð sé að ræða. Ég vona að þú þolir það. Mér fannst skemmtilegt þegar INÚK hópurinn heimsótti skólann minn á sínum tíma og er almennt hlynnt því að brjóta upp skólastarfið. Heimsókn á Þjóðminjasafnið, í kirkju o.s.frv. er hluti af almennri fræðslu frá mínum bæjardyrum séð. Mér finnst sú krafa að foreldrar fari sjálfir með börn sín í kirkju (eða hvaða aðra trúarstofnun sem er) mjög ósanngjörn. Markaðsvæðing allra flokka miðast við það að foreldrar sinni kröfum markaðarins fremur en barnanna. Heimgreiðslur til foreldra eru ekki á dagskrá. Á meðan svo er þá ber hinu opinbera að sjá um alla fræðslu sem annars væri á könnu foreldra. Kirkjuferðir eru þar meðtaldar.
Vissulega má alveg skoða hluti og velta upp sjónarmiðum. Mér finnst þú hins vegar taka svo gjörólíka hluti að samanburðurinn missi marks.
Ég geri einfaldlega greinarmun á fræðslu og trúboði, mun á fræðslu og áróðri. Fyndist þér til að mynda í lagi að öll börn væru send í stjórnmálaskóla, segjum Sjálfstæðisflokksins? Væri það að þínu mati bara fræðsla? Flestir kjósa jú flokkinn, hann hefur tekið þátt í að móta samfélagið og á sínu sögulegu hefð. Ætti að finna „eitthvað annað“ fyrir börn þar sem foreldrar myndu ekki kjósa innrætingu frá viðkomandi flokki? Og skilja þau þannig útundan. Mætti LÍÚ koma og sækja börnin og messa yfir þeim að það væri nú bara allt í lagi með fyrirkomulag kvótakerfisins? Kannski finnst þér það líka bara fræðsla? Og (svo ég haldi nú áfram með fráleit dæmi) að bandaríska sendiráðið fengi öll skólabörn í heimsókn og kynnti þeim réttlætingu á pyntingum?
Ég er svo fullkomlega ósammála þér með að það sé ósanngjörn krafa að foreldrar fari með börn í kirkju, það er einfaldlega þeirra hlutverk ef þau hafa á annað borð raunverulegan áhuga.. og ég verð að játa að mér finnst talið um heimgreiðslur fráleitt. Með sömu rökleysu viltu væntanlega að börnin flytji að heiman og búi í skólanum sem sjái alfarið um uppeldi.
Kirkjuferðir þar sem börn eru látin biðja bænir hafa ekkert með fræðslu að gera.
Annars snýst þessi færsla mín um undarlegt fyrirkomulag í samskiptum skóla og trúarhreyfinga, sem á sér varla samlíkingu nema í bókstafstrúarríkjum.
Ja, hvað er fræðsla og hvað er áróður? Ég ítreka að mér finnst það af hinu góða að fá sem flesta inn í skólana til að brjóta upp skólastarfið. Öll þessi mál sem þú nefnir: stjórnmál, fiskveiðar og pyntingar, má alveg ræða innan skólakerfisins. Ég vona að það sé ekki markmiðið með skólastarfinu að fá börnin til að þegja öll í kór.
Munurinn er alveg kýrskýr í mínum huga.. það er ekki fræðsla að láta börn fara í kirkju og biðja bænir, en það getur verið fræðsla að kynna börnum skoðanir og viðhorf.
Það er fræðsla að segja við börnin „kristnir trúa því að Jesú hafi verið sonur guðs, eingetinn og hafi risið upp frá dauðum“. Það er innræting og trúboð að segja við börnin „Jesú var sonur guðs, eingetinn og reis upp frá dauðum“.
Þú svarar svo engu um dæmin sem ég nefni, ég var – augljóslega – ekki að spyrja hvort það mætti ræða þau innan skólakerfisins. Ég var, eins og þú veist fullvel ef þú hefur lesið svarið, að spyrja hvort hagsmunaaðilar mættu sækja börnin í skólann og kynna eingöngu sinn málstað.
Þá frábið ég mér svona útúrsnúninga eins og að gefa í skyn að ég vilji fá börnin til að þegja í kór, ég hef margsagt að ég styðji alla fræðslu.
Þú hefur greinilega ekki skilið svarið. Þegar ég segi að mér þyki af hinu góða að fá sem flesta inn í skólana þá er ég augljóslega ekki bara að tala um þá aðila sem þú nefnir. Við erum öll hagsmunaaðilar í þessu þjóðfélagi. Er það ekki nokkuð ljóst? Ef Vantrú t.d. langar til að kynna sinn málstað innan skólakerfisins þá set ég mig ekki upp á móti því. Er virkilega svona erfitt að skilja þetta?
Já, það er frekar erfitt að skilja „svarið“, líkast til er það vegna þess að þú svaraðir ekki! Og svarar ekki enn.
Er í lagi að þessir hagsmunaaðilar sem ég nefni taki börnin úr skólanum og standi fyrir einhliða innrætingu? Hvert er svarið? Geturðu kannski svarað þessu afdráttarlaust með „já“ eða „nei“ svo það sé kannski hægt að skilja svarið?
Við erum EKKI að tala um kynningu innan skólakerfisins, eins og ég hef margsinnis sagt. Ég veit ekki hvernig ég á að halda þræði ef þú snýrð bókstaflega öllu sem ég segi á haus.
Ég hef sagt mína skoðun. Ef þú skilur hana ekki þá nær það ekki lengra. Ég óska þér og þínum góðra jóla.
Þú hefur vissulega sagt þína „skoðun“.
En þú hefur ekki rökstutt hana. Þú hefur farið undan í flæmingi og ekki svarað spurningum. Og þú hefur snúið út úr því sem ég segi.
Til hvers ertu að koma hingað með athugasemdir ef þú treystir þér ekki í málefnalegar rökræður? Þar sem spurningum er svarað? Og án þess að gera mér upp skoðanir?