Posts Tagged ‘Skoðanir’

Mér hefur ekki alveg tekist að halda mig utan við árlega umræðu.. hún fer reyndar talsvert illa í taugarnar á mér.

Ekki það að ég hafi ekki áhuga á málefnalegri umræðu. En þar stendur hnífurinn í kúnni, hún er ekki málefnaleg.

Það sem einkennir umræðuna þessa dagana er að fólk er að skamma mig fyrir að hafa skoðanir sem ég hef ekki. Og það er tilgangslaust að biðja um dæmi þess að ég hafi einhverju sinni viðrað tilgreinda skoðun. Þá tekur bara við fordómar.. aftur án nokkurs rökstuðningar (auðvitað, annars væru þetta ekki fordómar).

En hvernig á að rökræða við fólk sem heldur því fram að þú hafir aðra skoðun en þú hefur og neitar að taka gott og gilt þegar þú reynir að koma leiðréttingu á framfæri?

Það er auðvitað ekki hægt.

Það eina sem hægt er að gera er að sætta sig við að á meðan ekki eru rök gegn mínum raunverulegu skoðunum þá halda þær vatni.

Rangfærslur eða skoðanir

Posted: apríl 4, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Það er, því miður, allt of oft sem skoðunum er ruglað saman við rangfærslur.

Hvort tveggja getur verið gagnrýnivert, en á sitt hvorum forsendunum.

Tökum dæmi.

„Ég greidd fyrir matinn með níu þúsund króna seðli“.

Hér er klárlega rangfærsla á ferð, sem er augljóst vegna þess að það er enginn níu þúsund króna seðill til. Það er ekkert að því að benda á að þetta er rangt, það er verið að leiðrétta fullyrðingu sem stenst ekki. Viðkomandi getur ekki mögulega staðið á því að upphafleg fullyrðing sé rétt (amk. ekki þar til gefinn hefur verið út níu þúsund króna seðill).

„Það er hollt að reykja“.

Þetta er klárlega skoðun sem ekki samrýmist niðurstöðum rannsókna og gengur þvert á þekktar upplýsingar. Það er því auðvelt að benda viðkomandi á rannsóknir sem staðfesta að það er ekkert sérstaklega hollt. Viðkomandi getur eftir sem áður haldið sig við að hann haldi að þetta sé nú samt hollt, hann kannski skilgreinir „hollustu“ fyrir sjálfan sig.

En þegar við gagnrýnum þessar fullyrðingar, þá erum við að gagnrýna fullyrðingarnar. Ekki ráðast á þann sem heldur þeim fram.

Ef við gerum mikið að því að gagnrýna fullyrðingar frá ákveðnum aðila, þá er það ekki merki þess að við séum að leggja viðkomandi í „einelti“, ekki merki þess að einhver herferð sé í gangi – hvað þá að við höfum eitthvað á móti viðkomandi sem persónu.

Við erum einfaldlega að benda á að hann fari ýmist með rangt mál – eða að sé að kynna skoðanir sem standast ekki skoðun (!). Á meðan sú gagnrýni er málefnaleg þá á hún fullan rétt á sér. Jafnvel þó hún komi nokkuð oft fyrir.

Það að ummæli ákveðinna aðila verði oft fyrir gagnrýni er þannig ekki merki um herferð eða einelti, heldur getur það allt eins (og líklega) verið merki um að viðkomandi sé gefinn fyrir að gaspra mikið og fari oft með fleipur.

Og það er frekar aumt að sjá fólk kvarta og bera sig aumlega yfir málefnalegri gagnrýni. Vænisýki virkar einfaldlega ekki. Það er miklu nær að reyna að svara málefnalega. Eða viðurkenna að fullyrðingin sem verið er að gagnrýni sé nú einfaldlega röng.

Svo má líka hugsa aðeins áður en farið er að tala.

Skoðanir og skætingur

Posted: september 6, 2013 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Ég hélt úti bloggi á Eyjunni í nokkurn tíma en gafst upp á að halda úti gagnrýninni umræðu þegar dómstólar gengu ítrekað freklega á málfrelsi. Ég hætti að skrifa á Eyjunni þegar þeir höfnuðu stuðningi við eitt málið.

Ég fór að skrifa smá fréttir hér, hef smám saman færst yfir í að lýsa skoðunum aftur.

Vandamálið við að lýsa óvinsælum skoðunum er að það eru allt of margir sem afgreiða skoðanir með skætingi og því að láta mig fá það óþvegið, persónulega.

Það er ekkert að því að vera ósammála mér, ég fagna málefnalegri umræðu, get vissulega verið þrjóskur, en tek nú rökum. Stundum eru þetta meira að segja vangaveltur sem ég er ekkert allt of viss um sjálfur, en hef áhuga á umræðunni

  • Ef ég bendi á að klámvarnir séu illframkvæmanlegar og heimskulegar þá er ég bandamaður klámhunda, ef ekki útsendari klámbransans.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun, og færi sterk rök fyrir, að verðtrygging sé ekki vandamál, hendur birtingarmynd raunverulegra vandamála, þá fæ ég hrinu yfir mig eins og að ég sé varðhundur einhverra.
  • Ég er sakaður um einelti ef ég tek þátt í því sem mér þykir málefnaleg umræða, bara vegna þess að ég er ekki sammála þeim sem ákveður að lýsa sig fórnarlamb eineltis.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun að trúlausir eigi rétt á að vera í friði fyrir trúboði, þá er ég að ráðast á trúaða, jafnvel takmarka mannréttindi þeirra.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé siðferðilega rangt að dreifa efni í leyfisleysi þá er þarf ég að sitja undir miður fögru umtali.
  • Ef ég vil klára umræður við ESB þá liggur við að ég sé kallaður landráðamaður.
  • Sama gilti um IceSave, ég nenni ekki að rifja upp uppnefnin sem fylgdu þeirri afstöðu.
  • Ef ég gagnrýni heimskuleg ummæli þingmanns þá er ég að taka þátt í herferð gegn henni.

Það er eiginlega ekki þess virði að hafa skoðanir, amk. ekki óvinsælar. Það eru öll önnur ráð en málefnaleg umræða notuð.

Það kemur kannski ekki á óvart að þetta séu viðbrögð eldri kynslóðar stjórnmálamanna. En ég gæti næstum því grenjað yfir því að sjá nákvæmlega sömu aðferðafræði hjá ungu kynslóðinni.

Nei, ég virði ekki allar skoðanir

Posted: maí 2, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég verð aðeins að fá að svara þessu tali um að við eigum að virða skoðanir annarra.

Það er auðvitað fráleitt.

Ég virði að sjálfsögðu rétt allra til að hafa hvaða skoðun sem er á hverju sem er. Og ég get virt einstaklinga sem hafa skoðanir sem mér finnast fráleitar, heimskulegar og/eða hættulegar. Ég virði reyndar ekki rétt neins til að boða hugmyndir sem eru mannskemmandi og/eða hættulegar.

En ég virði ekki skoðanir sem stangast á við þekktar staðreyndir, byggja á rökleysum og/eða bábiljum. Það kemur bara ekki til greina.

Þessu fylgir svo auðvitað að þó ég telji skoðanir einhvers hreinasta þvætting, þá þýðir það ekki virðingarleysi fyrir viðkomandi einstaklingi, aðeins viðkomandi skoðun.