Ég hélt úti bloggi á Eyjunni í nokkurn tíma en gafst upp á að halda úti gagnrýninni umræðu þegar dómstólar gengu ítrekað freklega á málfrelsi. Ég hætti að skrifa á Eyjunni þegar þeir höfnuðu stuðningi við eitt málið.
Ég fór að skrifa smá fréttir hér, hef smám saman færst yfir í að lýsa skoðunum aftur.
Vandamálið við að lýsa óvinsælum skoðunum er að það eru allt of margir sem afgreiða skoðanir með skætingi og því að láta mig fá það óþvegið, persónulega.
Það er ekkert að því að vera ósammála mér, ég fagna málefnalegri umræðu, get vissulega verið þrjóskur, en tek nú rökum. Stundum eru þetta meira að segja vangaveltur sem ég er ekkert allt of viss um sjálfur, en hef áhuga á umræðunni
- Ef ég bendi á að klámvarnir séu illframkvæmanlegar og heimskulegar þá er ég bandamaður klámhunda, ef ekki útsendari klámbransans.
- Ef ég lýsi þeirri skoðun, og færi sterk rök fyrir, að verðtrygging sé ekki vandamál, hendur birtingarmynd raunverulegra vandamála, þá fæ ég hrinu yfir mig eins og að ég sé varðhundur einhverra.
- Ég er sakaður um einelti ef ég tek þátt í því sem mér þykir málefnaleg umræða, bara vegna þess að ég er ekki sammála þeim sem ákveður að lýsa sig fórnarlamb eineltis.
- Ef ég lýsi þeirri skoðun að trúlausir eigi rétt á að vera í friði fyrir trúboði, þá er ég að ráðast á trúaða, jafnvel takmarka mannréttindi þeirra.
- Ef ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé siðferðilega rangt að dreifa efni í leyfisleysi þá er þarf ég að sitja undir miður fögru umtali.
- Ef ég vil klára umræður við ESB þá liggur við að ég sé kallaður landráðamaður.
- Sama gilti um IceSave, ég nenni ekki að rifja upp uppnefnin sem fylgdu þeirri afstöðu.
- Ef ég gagnrýni heimskuleg ummæli þingmanns þá er ég að taka þátt í herferð gegn henni.
Það er eiginlega ekki þess virði að hafa skoðanir, amk. ekki óvinsælar. Það eru öll önnur ráð en málefnaleg umræða notuð.
Það kemur kannski ekki á óvart að þetta séu viðbrögð eldri kynslóðar stjórnmálamanna. En ég gæti næstum því grenjað yfir því að sjá nákvæmlega sömu aðferðafræði hjá ungu kynslóðinni.
Æi, ekki gefast upp samt á málefnalegri umræðu og hafa að óvinsælar skoðanir – við þurfum ekki öll að vera sammála en það þarf að reyna að halda umræðunni málefnalegri eins og mér sýnist þú reyna að gera. Skil samt vel að þetta geti verið slítandi en ekki gleyma að þú heyrir ekki í öllum og líklega frekar þeim öfgakenndari…
Takk fyrir það, já, gaman að heyra að það eru jákvæð viðhorf, og að minnsta kosti, áhugi á umræðunni. Nei, ég held að ég sé kannski ekki að gefast upp, en óneitanlega verður þetta þreytandi á köflum og hugsunin „hvers-vegna-í-dauðanum-er-ég-að-standa-í-að-eyða-tíma-í-þetta“ skýtur oftar upp..