Archive for the ‘Skeptic’ Category

Já, ég er van-trúaður á kukl

Posted: nóvember 14, 2013 in Skeptic, Trú, Umræða

Svanur Sigurbjörnsson gagnrýndi nýlega kukl („óhefðbundnar lækningar“) og tilraunir til að koma því inn í heilbrigðiskerfið. Viðbrögðin hafa verið ansi yfirdrifin og ómálefnaleg – rökvillurnar margar og fyllt upp í holurnar með því að að ráðast á Svan.

Þetta er í rauninni frekar einfalt mál.

Ef við sleppum því að nota hugtakið „trú“ í einhverju víðu og óskilgreindu samhengi og notum það fyrir að hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á.

Þá gildir auðvitað það sama um yfirnáttúrulegar verur og hvers kyns kukl. Það er ekki hægt að sýna fram á tilvist yfirnáttúrulegra vera og það er ekki hægt að sýna fram á að kukl virki.

Það hafa verið gerðar óteljandi tilraunir til að sýna fram á að kukl og hvers kyns yfirnáttura sé til staðar og virki. Það er stórfé í boði fyrir hvern þann sem getur þetta.

Árangurinn er eitt stórt núll. Þetta hefur aldrei tekist. Aldrei. Ekki einu sinni.

Enda, ef þetta hefði tekist… þá væri þetta jú ekki lengur kukl.

Rökvillurnar hafa verið margar. Rauði þráðurinn er að benda á einstaka mistök hefðbundinna lækninga. Sú gagnrýni á eflaust rétt á sér í einhverjum tilfellum og öðrum ekki. Það er eins með lækningar eins og aðrar greinar, menn geta gert mistök, fólk er mishæft þrátt fyrir að ljúka prófi, eflaust eru einhverjir sem nýta sér ófullnægjandi eftirlit til að svindla og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu er áfellisdómur yfir aðferðum vísinda eða hefðbundinna lækninga. Þetta eru einfaldlega ábendingar um hvað má betur fara. Með aðferðum vísindanna. Ekkert sem nefnt er styður það að kukl sé einhvers virði.

Þessi óþarfa hávaði er ætlaður til að slá ryki í augun á fólki.

Kuklið (í víðu samhengi) veltir ótrúlegum upphæðum og því er mikið í húfi að gera málflutning Svans tortryggilegan.

En það er ágætt að hafa í huga að ekkert sem sagt hefur verið styður það að við eyðum skattfé í hluti sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.