Archive for the ‘Skeptic’ Category

Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.

Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.

Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.

Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.

Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.

Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.

Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.

Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.

Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.

Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.

Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.

Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið.

En þetta er líka óendanlega sorglegt.

Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.

Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.

Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.

En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.

Já, ég er van-trúaður á kukl

Posted: nóvember 14, 2013 in Skeptic, Trú, Umræða

Svanur Sigurbjörnsson gagnrýndi nýlega kukl („óhefðbundnar lækningar“) og tilraunir til að koma því inn í heilbrigðiskerfið. Viðbrögðin hafa verið ansi yfirdrifin og ómálefnaleg – rökvillurnar margar og fyllt upp í holurnar með því að að ráðast á Svan.

Þetta er í rauninni frekar einfalt mál.

Ef við sleppum því að nota hugtakið „trú“ í einhverju víðu og óskilgreindu samhengi og notum það fyrir að hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á.

Þá gildir auðvitað það sama um yfirnáttúrulegar verur og hvers kyns kukl. Það er ekki hægt að sýna fram á tilvist yfirnáttúrulegra vera og það er ekki hægt að sýna fram á að kukl virki.

Það hafa verið gerðar óteljandi tilraunir til að sýna fram á að kukl og hvers kyns yfirnáttura sé til staðar og virki. Það er stórfé í boði fyrir hvern þann sem getur þetta.

Árangurinn er eitt stórt núll. Þetta hefur aldrei tekist. Aldrei. Ekki einu sinni.

Enda, ef þetta hefði tekist… þá væri þetta jú ekki lengur kukl.

Rökvillurnar hafa verið margar. Rauði þráðurinn er að benda á einstaka mistök hefðbundinna lækninga. Sú gagnrýni á eflaust rétt á sér í einhverjum tilfellum og öðrum ekki. Það er eins með lækningar eins og aðrar greinar, menn geta gert mistök, fólk er mishæft þrátt fyrir að ljúka prófi, eflaust eru einhverjir sem nýta sér ófullnægjandi eftirlit til að svindla og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu er áfellisdómur yfir aðferðum vísinda eða hefðbundinna lækninga. Þetta eru einfaldlega ábendingar um hvað má betur fara. Með aðferðum vísindanna. Ekkert sem nefnt er styður það að kukl sé einhvers virði.

Þessi óþarfa hávaði er ætlaður til að slá ryki í augun á fólki.

Kuklið (í víðu samhengi) veltir ótrúlegum upphæðum og því er mikið í húfi að gera málflutning Svans tortryggilegan.

En það er ágætt að hafa í huga að ekkert sem sagt hefur verið styður það að við eyðum skattfé í hluti sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.