Já, ég er van-trúaður á kukl

Posted: nóvember 14, 2013 in Skeptic, Trú, Umræða

Svanur Sigurbjörnsson gagnrýndi nýlega kukl („óhefðbundnar lækningar“) og tilraunir til að koma því inn í heilbrigðiskerfið. Viðbrögðin hafa verið ansi yfirdrifin og ómálefnaleg – rökvillurnar margar og fyllt upp í holurnar með því að að ráðast á Svan.

Þetta er í rauninni frekar einfalt mál.

Ef við sleppum því að nota hugtakið „trú“ í einhverju víðu og óskilgreindu samhengi og notum það fyrir að hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á.

Þá gildir auðvitað það sama um yfirnáttúrulegar verur og hvers kyns kukl. Það er ekki hægt að sýna fram á tilvist yfirnáttúrulegra vera og það er ekki hægt að sýna fram á að kukl virki.

Það hafa verið gerðar óteljandi tilraunir til að sýna fram á að kukl og hvers kyns yfirnáttura sé til staðar og virki. Það er stórfé í boði fyrir hvern þann sem getur þetta.

Árangurinn er eitt stórt núll. Þetta hefur aldrei tekist. Aldrei. Ekki einu sinni.

Enda, ef þetta hefði tekist… þá væri þetta jú ekki lengur kukl.

Rökvillurnar hafa verið margar. Rauði þráðurinn er að benda á einstaka mistök hefðbundinna lækninga. Sú gagnrýni á eflaust rétt á sér í einhverjum tilfellum og öðrum ekki. Það er eins með lækningar eins og aðrar greinar, menn geta gert mistök, fólk er mishæft þrátt fyrir að ljúka prófi, eflaust eru einhverjir sem nýta sér ófullnægjandi eftirlit til að svindla og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu er áfellisdómur yfir aðferðum vísinda eða hefðbundinna lækninga. Þetta eru einfaldlega ábendingar um hvað má betur fara. Með aðferðum vísindanna. Ekkert sem nefnt er styður það að kukl sé einhvers virði.

Þessi óþarfa hávaði er ætlaður til að slá ryki í augun á fólki.

Kuklið (í víðu samhengi) veltir ótrúlegum upphæðum og því er mikið í húfi að gera málflutning Svans tortryggilegan.

En það er ágætt að hafa í huga að ekkert sem sagt hefur verið styður það að við eyðum skattfé í hluti sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.

Athugasemdir
 1. Guðrún G skrifar:

  Reyndar er svo undarlegt að engir tala eins mikið um peningaplokk og fulltrúar lyfjaiðnaðarins sem svo vill til að er stærsta peningamskína veraldar, og fær mest allt stt frá skattgreiðendum og stundar ótrúlega ágenga sölumennsku til lækna og heilbrigðiskerfisins.
  Ég leyfi mér svo líka að fullyrða að það er ekki meira peningaplokk í náttúrulækningum en í öllum sem allt venjulegt fólk gerir af hugsjón og góðri trú, en vilja samt geta lifað.

  • Ég er ekki fulltrúi lyfjaiðnarins.

   Það að selja fólki lausnir sem ekki er hægt að sýna fram á að virki er peningaplokk.

   • Sigurður Bárðarson skrifar:

    „. . . að selja fólki lausnir sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.“ Þetta á ekki síður við um margt í hinu „hefðbundna“ heilbrigðiskerfi.

 2. Og enn og aftur er bent á að stundum sé pottur brotinn í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi. Nákvæmlega rökvillan sem Valgarður benti á hér að ofan.

 3. Guðmundur skrifar:

  Gott og vel, skal taka slaginn. Reyndar er ég sammála Valgarði að grunninum til en það pirrar mig þegar allt sem kalla má „óhefðbundnar lækningar“ er kallað kukl, þrátt fyrir að ýmislegt sem þar fellur undir sé á grárra svæði en t.d. blómadropar eða reikimeðferðir (sem sannarlega er kukl). Tökum dæmi: Hugleiðsla hefur hingað til ekki verið hluti af hefðbundum læknavísindum, enda læknar hún ekki sjúkdóma með beinum hætti og er auk þess oft tengd ýmsum trúarbrögðum. Fólk hefur samt leitað í hugleiðslu sér til hjálpar,án þess að hafa fyrir því nein haldbær vísindaleg rök, en margir telja sig fá bót meina sinna. Nú hefur það svo gerst á undanförnum árum að fleiri rannsóknir eru gerðar á hugleiðslu sem sýna fram á gagnsemi hennar (sjá t.d. http://www.sciencedaily.com/releases/2009/04/090423210055.htm) og í Englandi er byrjað veita þunglyndismeðferðir með blöndu af hugleiðslu og hugrænni atferlismeðferð. Þ.e. gagnsemi hugleiðslu er að verða viðurkennd og fólk ætti því með tíð og tíma að geta leitað til fagaðila sem leiðbeinir þeim í hugleiðslu án þess að reyna að troða ofan í það exótískum trúarhugtökum í leiðinni. Er þetta þá ekki gott dæmi um eitthvað sem má líta á sem hluta af menginu „óhefðbundnar lækningar“ sem smátt og smátt fær viðurkenningu? Með því að kalla allt sem telst til óhefðbundinna lækninga, sama á hversu gráu svæði það er, „kukl“ er svolítið verið að slá slíka möguleika af borðinu. Viðurkenni samt alveg að megnið af þessu er óttalegt bull, en fólk má eyða peningum í það sem því sýnist mín vegna.

  • OK, en þegar ég nota „kukl“ um óhefðbundnar lækningar þá er á ég við þegar verið er að lofa fólki (eða gefa sterklega í skyn) lækningu án þess að sýnt hafi verið fram á að viðkomandi aðferð virki.

   Það er ekki þar með sagt að það geti ekki komið að því að það verði sýnt fram á að viðkomandi aðferð virki. Þegar og ef til þess kemur, þá á kukl stimpillinn ekki við.

   Ég hef heldur engar athugasemdir við að fólk reyni alls kyns aðferðir sem auka vellíðan, fer til dæmis sjálfur oft í nudd – ekki það að mér detti í hug einhver lækning felist í því. Það má eflaust færa rök fyrir að betri líðan hjálpi. En svo framarlega sem þetta er kynnt á réttum forsendum þá hef ég engar athugasemdir.

   Og auðvitað má fólk eyða peningum í það sem það vill. En það er líka allt í lagi að benda fólki á að vera gagnrýnið.

   Og þetta á ekki erindi í heilbrigðiskerfið – sem er jú tilefni umræðunnar.