Ég sé að ég kem við sögu í grein sem Guðni Elísson prófessor við HÍ skrifar. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé skrifað sem fræðigrein við HÍ. Gott ef hún birtist ekki líka í tímariti.
Greinin er skrifuð í framhaldi af hreint út sagt ótrúlegu máli þar sem félagsskapurinn Vantrú (þar sem ég er meðlimur) sendi Siðanefnd HÍ erindi vegna kennsluefnis. Málið er allt með ólíkindum en ég taldi þessu nú reyndar lokið því HÍ reyndist getulaus til að fjalla um málið og því var að lokum hent út af borðinu án umfjöllunar. Reyndar er Egill Helgason skotspónn greinarinnar að miklu leyti vegna einnar, til þess að gera saklausrar, færslu um málið.
Ég geri ráð fyrir að Vantrú birti ítarlega svargrein en get ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði. Ég er reyndar á því – eftir ágætt spjall við viðkomandi kennara – að það sé ekki svo mikið við hann sjálfan að sakast heldur sé það fyrst og fremst guðfræðideild HÍ sem beri ábyrgðina.
Áður en lengra er haldið verð ég að fá að nefna hversu skondinn titill greinarinnar er. „Í heimi getgátunnar“. Í heimi getgátunnar, já. Einmitt. Það er nefnilega svo skemmtileg kaldhæðni að auðvitað byggja trúarbrögðin alfarið á getgátum. Guðfræðideildin er eina deild Háskólans sem á tilvist sína alfarið undir getgátum. Fyndið. Eða grátbroslegt, réttara sagt.
Grein Guðna er nokkur langhundur, rökvillurnar ansi margar, fullyrðingar margar hverjar vafasamar og út í loftið. Þá bætir það ekki skrifin að fljótt á litið virðist meira lagt upp úr magni en gæðum.
Mér finnast skýringar Guðna sem sagt ekki mikils virði, þær virka á mig sem eftir-á-tilbúningur og yfirklór til að fegra vondan málstað – rökin bæði veik og langsótt.
Guðni gerir okkur meðlimum Vantrúar upp skoðanir og segir okkur til dæmis líta á nemendur sem viljalausar strengjabrúður og fylgir eftir með dramatískri lýsingu. Hann færir reyndar engin rök fyrir þessari fullyrðingu né öðrum á svipuðum nótum og bendir ekki á neitt þessu til stuðnings. Þetta eru órökstuddar getgátur Guðna og ég get staðfest að þær eru út i bláinn. Er eðlilegt í fræðigrein að vera að „fabúlera“ svona? Guðni gagnrýnir félagsmenn svo fyrir þessar skoðanir sem hann er búinn að gera þeim upp. En það sem verra er, jafnvel þó hann hefði rétt fyrir sér þá kemur það málinu nákvæmlega ekkert við, kennsluefnið breytist ekkert við það.
Guðni leggur áherslu á bréf sem nemendur fengu sent eftir umfjöllunina þar sem kennarinn bendir nemendum á að skoða málið sjálfir. Og nei, ég er ekki að grínast og þetta er ekki misskilningur hjá mér.. bréfið var sent eftir á! Mér þykir ekki ólíklegt (án þess að vita) að þetta hafi verið sent í kjölfar ábendinga um hlutdræga umfjöllun og virkar að minnsta kosti á mig eins og frekar dapurt yfirklór eftir á… Enda breytir þetta engu, það að benda nemendum á að kynna sér málið sjálfir fríar kennara að mínu viti ekki frá því að stunda vönduð vinnubrögð og gæta hlutleysis.
Þá vísar Guðni í að við horfum fram hjá jákvæðum vitnisburði nemenda. Aftur er engin leið að átta sig á um hvað Guðni er að tala því hann nefnir ekki einu orði hvaðan hann hefur þetta, fullyrðingin virðist gripin úr lausu lofti, hugsanlega hrein og klár óskhyggja – eða einfaldlega „getgátur“. Er þetta í lagi í fræðigrein að koma með svona órökstuddar fullyrðingar? Ég velti fyrir mér hvort einhver könnun gerð áður en Vantrú sendi sitt erindi? Guðni segir jú að við horfum fram hjá þessu þegar við sendum inn kæruna. Þá hljóta upplýsingar að hafa legið fyrir áður. Eða áttum við, áður en við sendum erindið, að taka tillit til upplýsinga sem komu fram eftir að við sendum það inn? Jafnvel þó rétt væri er þetta nú ekki mikils virði, því þarna er jú að miklu leyti fólk sem ætlar sér að lifa á getgátum guðfræðinnar. Hann vísar reyndar í að hluti þeirra séu trúlausir, aftur hef ég ekki grun um hvaðan hann hefur þessar upplýsingar eða hvaða máli þetta ætti að skipta. En þar fyrir utan, teljast það virkilega að vera góðir og gildir kennsluhættir að birta nemendum mjög neikvæða og hlutdræga mynd af einhverju og ætlast til að þeir fari sjálfir og komist að því að um kolranga mynd er að ræða? Hversu margir nemendur ætli hafi haft frumkvæði og tíma til eigin rannsókna? Þeir sem ekki gerðu það hafa jú engar forsendur til að segja annað en að þetta hafi verið „allt-í-lagi“, þeir hafa jú engar aðrar upplýsingar en þær sem komu fram. Það má nefnilega ekki gleyma því að athygli var vakin á þessu af nemendum sem fannst umfjöllunin engan veginn í lagi, bæði á glærum og í tímum.
Sama gildir um greinargerðir akademískar sérfræðinga. Guðni nefnir ekkert um hvaða greinargerðir þetta eru, hverjir voru valdir til að skrifa þessar greinargerðir eða á hvaða forsendum. Aftur er Guðni að fullyrða eitthvað sem enginn fótur virðist fyrir, kannski getgátur að hætti hússins. Hann skammar Vantrú fyrir að taka ekki mark á þessum greinargerðum. Áður en erindi var sent inn. Voru akademískar sérfræðingar búnir að taka út kennsluefnið áður en Vantrú sendi inn sitt erindi. Eða átti Vantrú að taka tillit til greinagerða sem ekki voru unnar fyrr en eftir að erindið var sent? En kannski skiptir mestu að þeir hafa ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna efnið á að hafa verið í lagi. Siggi-í-kaupstaðnum-segir-það eru auðvitað marklaus rök.
Þá er skemmtileg (eða réttara sagt, skelfileg) hringrás í rökum Guðna. Hann ætlar að sýna fram á að efnið sé í lagi. En til þess notar hann þær forsendur að efnið hafi verið í lagi! Hann tekur aðeins mark á þeim fræðimönnum sem fullyrða að efnið sé í lagi, án þess þó að tilgreina hverjir það eru. Þeir fræðimenn sem gera athugasemdir við efnið eru hins vegar afskrifaðir á þeim forsendum að þeir hafi rangt fyrir sér, vegna þess að efnið hafi, jú verið í lagi. Jafnvel fullyrðir Guðni að þeir sem gerðu athugasemdir við efnið hafi ekki kynnt sér það nægilega vel. Þetta gerir Guðni án þess að geta nokkurra heimilda eða birtir nokkrar forsendur fyrir fullyrðingunni, enn einu sinni hljómar þetta eins og getgátur hans. Það eina sem hann nefnir er kannski það að þeir séu ekki sammála fyrirfram gefinni niðurstöðu.
Stór hluti greinar Guðna fer í að verja glæru (33) með fullyrðingum sem eru bæði villandi og meiðandi. Viðkomandi kennari hefur í ritdómi á öðrum vettvangi gert þessar skoðanir að sínum. Hann hefur einnig staðfest að þetta séu hans skoðanir á enn öðrum vettvangi, tekur þar reyndar fram að þær séu það „að hluta“. Á glærunni eru engir fyrirvarar settir, hvergi kemur fram að þetta séu umdeildar skoðanir.. þetta eru einfaldlega fullyrðingar.
Guðni telur að við höfum ekki skilið samhengi eða tilgang glærunnar. Fyrir það fyrsta segir Guðni að þarna séu algengar skoðanir um harðlínutrúleysi. Ég hef að minnsta kosti verið trúlaus lengi, fylgst ágætlega með umræðum um trúleysi og ég get fullyrt að þetta eru ekki algengar skoðanir á trúleysingjum. Eða á hverju er þessi fullyrðing byggð? Getgátur Guðna? Aftur vantar heimildir og stuðning fyrir fullyrðingum sem settar eru fram. Og, nei, það nægir ekki að einhverjir örfáir sérvitringar í guðfræði haldi fram einhverjum skoðunum til að þær teljist „algengar“.
Þá segir Guðni að námskeiðið sé „átakamiðað“ eðli málsins samkvæmt en færir ekki hann rök fyrir því frekar en svo mörgu öðru. En ég get ekki séð neitt í eðli málsins sem krefst þess að það sé átakamiðað? Er það kannski regla í guðfræðideild að námskeið séu „átakamiðuð“? Væri þá ekki rétt að leggja grunninn að þeim „átökum“ með fullyrðingum sem standast einhverja skoðun og hafa eitthvert vægi?
Þá segir Guðni að viðkomandi glærur hafi verið ætlaðar til að hvetja til umræðu. Þetta er óneitanlega sérkennileg skýring, ef ekki alveg fráleit. Það væri auðvitað miklu nærtækara, ef hugmyndin væri að hvetja til umræðu, að kynna þetta sem órökstuddar öfgaskoðanir, sem þær eru, kynna á sömu glæru aðrar skoðanir, aðallega hófsamar og kannski málefnalegar.
Er það virkilega grundvöllur til umræðu að kynna eingöngu órökstuddar öfgaskoðanir? Eru þær ekki fullkomlega verðlaus grunnur að málefnalegri umræðu?
Þannig er ég er enn frekar sannfærður en áður um að þessi framsetning er engan veginn í lagi. Það nægir að benda á hversu fráleit sambærileg glæra væri ef hún fjallaði um stjórnmál eða jafnrétti kynja eða í rauninni hvað sem er annað en trúleysi.
Og svo má ekki gleyma einu lykilatriði. Jafnvel þó svo að hægt væri að verja innihald viðkomandi glæru með því að benda á „eitthvað annað“ þá var einfalt svar við erindi félagsins. Það hefði augljóslega mátt breyta glærunni (og öðrum glærum) jafnvel bæta við öðrum þannig að samhengið og hugmyndin væru skýr. Þannig hefði verið einfalt að loka þessu máli og enga lögfræðinga eða ófrægingarherferð hefði þurft til. Og kennarinn hefði staðið uppréttur eftir og meiri maður fyrir vikið.
Guðni gerir svo mikið úr því að siðanefnd hafi ekki talið ástæðu til að skoða málið frekar. Hann skautar yfir að siðanefnd skoðaði ekki málið og hefur því engar forsendur til að meta hvort erindi Vantrúar átti rétt á sér. Og öllu verra er að hann nefnir hvergi að tvær siðanefndir HÍ töldu málið vel þess virði að skoða og reyndu að ná sáttum. Þær nefndir gáfust upp eftir mikinn hamagang lögfræðinga þar sem því var haldið fram að viðkomandi siðanefndir hafi verið vanhæfar? Hvers vegna? Jú, vegna þess að þær tóku mark á bréfi forseta guðfræðideildar þar sem hann sagði að viðkomandi kennari vildi að guðfræðideild svaraði fyrir hann í þessu máli. Síðan var siðanefnd talin vanhæf af kennara vegna þess að ekki hefði verið haft samband við hann og honum gefinn kostur á andmælum. Sem hann fékk reyndar að senda inn… þessi skollaleikur varð til þess að viðkomandi siðanefndir gáfust upp. Að lokum var skipuð einhver siðanefnd sem afgreiddi málið án þess að skoða leiðir til sátta eins og undantekningarlaust hafði verið venja siðanefnda fram að þessu.
Og nei, ég ætla ekki að leyfa athugasemdir við þessa færslu. Mér var ekki boðið að gera athugasemdir við grein Guðna. Og held að ég láti þetta nægja um þetta leiðindamál. Vonandi þarf ég aldrei að fjalla um þetta aftur.
PS. Ég fékk undarlega athugasemd í spjallþræði þar sem þessari færslu var fundið allt til foráttu á þeim forsendum einum að ég vísaði ekki í tengil á upphaflega grein Guðna. Titill greinar og nafn höfundar er auðvitað nægjanlegt hverjum sem er sem hefur lágmarksþekkingu, en fyrir hina þá er hér tenging í grein Guðna.